138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:45]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála því að nýta á kosti landsins en það verður að gera með sjálfbærum hætti. Við verðum að huga að fjölbreyttum kostum en ekki einföldum svörum við stórum og flóknum spurningum.

Ég sagði ekki að konur í Sjálfstæðisflokknum létu karlana ráða skoðunum sínum, mér dettur ekki í hug að halda því fram. Ég mun aldrei halda því fram. Ég ber mikla virðingu fyrir konum í Sjálfstæðisflokknum og tel að þær séu þar vegna pólitískrar sannfæringar. Hins vegar vekur það athygli mína og ég nefndi það áðan að skoðanir þeirra fara gjarnan með stóriðjustefnunni og eru í takti við hana.

Þingmaðurinn spurði í lokin hvort meiri kynjasjónarmið ríktu í þessari ríkisstjórn en áður hefur verið. Já, ég tel svo vera en ég tel ekki nóg að gert. Í fyrsta lagi eru fleiri konur í ríkisstjórninni en verið hefur og ég held að það skipti mjög miklu að jafnrétti kynjanna sé á öllum sviðum samfélagsins. Ekki síður höfum við innleitt lagasetningu sem styrkir stöðu og rétt kvenna og jafnan hlut kynjanna að mörgu leyti.