138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:49]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Ef ég byrja á því sem hún sagði í lokin, ég átta mig á því að það var kannski vegna þess að tíminn var að renna út, þá verða menn að vara sig á því að taka of djúpt í árinni og segja að ráðuneytið sé ítrekað bert að alls kyns reglubrotum. Þingmaðurinn er fyrst og fremst, vona ég, að vísa til þess að tímafrestir (Gripið fram í.) — að gengið hefur verið fram yfir tímafresti. Ég hef unnið verulega að því að bæta það í ráðuneyti mínu og ég vil geta þess sérstaklega, af því að ég fjallaði ekki um það í ræðu minni, að unnið hefur verið að því í umhverfisráðuneytinu að skoða sérstaklega hvernig við í ráðuneytinu eigum að taka niðurstöður skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis til okkar. Niðurstöðurnar eiga auðvitað ekki bara við um þau ráðuneyti þar sem unnið er með fjármálalífið og því um líkt heldur gildir þetta um alla stjórnsýsluna í Stjórnarráði Íslands.

Ég hef mikla samúð með því að skilja ekki orðfærið sem notað er í skýrslunni því þarna er á ferðinni nýlunda að mörgu leyti. Skýrslan er rýnd út frá kynjasjónarmiðum og það er fræðigrein sem hefur ekki náð að festa djúpar rætur á Íslandi. Sem betur fer hefur henni vaxið ásmegin og ég held að það sé afar mikilvægt, ekki síst fyrir dætur okkar og syni, að kynjagreining verði notuð miklu víðar og oftar í íslensku samfélagi þó að það sé jafnvel með orðum og hugtökum sem eru okkur framandi fyrst um sinn.