138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[14:02]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Hér kem ég upp í umræðu hlaðin gögnum eins og svo oft áður í mörgum umræðum á þeim viðburðaríka tíma sem liðið hefur síðan bankahrunið varð. Við virðumst alltaf vera að tala um stóru málin. Við erum alltaf að tala um mál sem skipta svo miklu í sögunni, við erum alltaf á tímamótum þar sem taka þarf höndum saman og breyta. Við erum á einum slíkum tímapunkti núna. Ég vil taka undir þakkir þeirra sem hafa talað hér á undan mér til þingmannanefndarinnar fyrir góða vinnu og fyrir þá skýrslu sem við ræðum. Sú vinna hefur verið afar góð. Nefndin hefur unnið af heilindum og hefur lagt sig fram um að ná saman um mikilvæg mál. Formaður nefndarinnar, hv. þm. Atli Gíslason, fór yfir það í ræðu sinni að það hefði verið eitt af meginmarkmiðunum að menn skiluðu tillögum sameiginlega. Það er mjög mikilvægt að samstaða var um tillögurnar, þingsályktunartillöguna í þeirri skýrslu sem við ræðum nú, vegna þess að í skýrslunni er hörð gagnrýni. Það er hörð gagnrýni á ýmsa hluti sem hér hafa orðið og það er gagnrýni sem ekki er hægt að rekja til flokkadrátta. Það er gagnrýni sem gengur þvert á flokka á hluti sem voru til staðar á því skeiði sem við erum að ræða. Það er ekki mikið nýtt í skýrslunni frá því sem var í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Það er svo sem ekki skrýtið vegna þess að nefndin byggði vinnu sína á þeirri skýrslu.

Mig langar til að gera að umtalsefni nokkur atriði í þingsályktunartillögunni en vegna þess að við erum með stuttan tíma hér til umræðu er ekki hægt að fara sérstaklega yfir einstök efnisatriði, aðrir hafa gert það og þarf ekkert að endurtaka það.

Það eru margar ágætar tillögur. Hér er í fyrsta lagi listi yfir að endurskoða þurfi löggjöf og eftir atvikum undirbúa löggjöf á tilgreindum sviðum, segir í þingsályktunartillögunni. Þar eru listuð lög um stjórnarskrá, um þingsköp, um ráðherraábyrgð o.s.frv., svo og löggjöf um starfsemi á fjármálamarkaði, eftirlit með fjármálastarfsemi, reikningsskil og bókhald, endurskoðendur o.s.frv. Það er allt gott og vel. Það er gott og vel að við förum yfir þetta eins og hefur verið gert og lagðar séu til lagabreytingar. En ég er núna alveg jafnhugsi yfir því eins og ég var allan síðasta vetur þegar við ræddum breytingar á ýmsum þeim lögum sem nefnd eru, t.d. um starfsemi fyrirtækja á fjármálamarkaði, um breytingar sem þá voru til meðferðar í þinginu — ég átti sæti í viðskiptanefnd Alþingis — því að mér þótti farið af stað með lagabreytingar með öllum þeim góðu markmiðum um að hér skyldi nú ekki verða aftur það ástand að hægt væri að segja að reglurnar væru ekki nógu stífar og reglurnar væru ekki nógu skýrar, en það var oft farið af stað með það sem ég vil leyfa mér að kalla „af því bara-skýringar“. Af hverju þurfti að breyta lögum um endurskoðendur þannig að hert var á því að þeir ættu að skipta um fyrirtæki á fimm ára fresti í stað sjö ára eins og það er annars staðar? Ég spurði: Af hverju? Af hverju erum við að gera þetta að fimm árum en ekki sjö árum, þegar sjö ára tillagan kom fram um sumarið 2008 og olli greinilega ekki bankahruninu? Af hverju eigum við að hafa fimm ár þegar annars staðar eru sjö ár? Þá var svarið: Af því bara. Ragnheiður: Það varð hér hrun! Við þurfum að hafa þessar reglur skýrari og harðari.

Ég hélt því fram þá og held því fram enn að með þessu getum við átt það á hættu að hér skapist falskt öryggi. Ríkisstjórnin kemur og segir: Við erum búin að breyta öllum þessum lögum. Við erum búin að breyta öllum þessum reglum. Það þarf ekkert að fara í þetta. Við þurfum ekkert að hafa áhyggjur. Það verður ekki annað bankahrun. Við erum búin að herða reglur um endurskoðendur þannig að þeir verða að skipta um fyrirtæki á fimm ára fresti. En það er ekki endilega það sem olli bankahruninu. Það er það sem ég vil að við skoðum hér öll, það er nákvæmlega það og þau vinnubrögð sem ég held að við þurfum öll að einbeita okkur að. Voru reglurnar of rúmar eða voru þær brotnar? Erum við búin að svara þeirri spurningu? Þeirri spurningu þurfum við að svara áður en við rjúkum af stað með allar þær tillögur að lagabreytingum sem hér eru. Þetta verður að liggja til grundvallar.

Hv. þm. Pétur Blöndal byrjaði ræðu sína í gær á því að segja að honum fyndist vanta sýn, framtíðarsýn á íslenskt samfélag. Svo sannarlega get ég tekið þar undir með mínum góða vini og félaga, hv. þm. Pétri Blöndal, að það er það sem okkur vantar. Ég vona svo innilega að við getum einhvern tímann slegið striki yfir fortíðina, lært af henni og haldið síðan áfram til framtíðar vegna þess að það er það sem við þurfum að fara að gera hérna.

Mér finnst við hafa verið of upptekin við hluti sem höfðu ekkert með bankahrunið að gera. Kannski hluti sem voru í ólagi, ég skal ekkert segja um það. Það er margt sem finna má að í stjórnsýslunni. Það er margt sem við getum fært til betri vegar og við eigum að gera það. En við skulum ekki færa þá ágalla í þann búning að bankahrunið hafi orðið vegna þeirra ágalla. Við skulum ekki færa það í þann búning að það hafi verið þess vegna sem hér varð bankahrun og þess vegna eigi ákveðnir einstaklingar að sæta ábyrgð og fara í fangelsi. Við eigum ekki að færa það í þann búning. Við eigum að skoða þessi mál út frá því hvernig og hvað olli bankahruninu. Kannski voru það samverkandi þættir sem við gátum ekki haft stjórn á. Kannski voru það hlutir sem við hefðum getað gert betur en gerðum ekki.

Það er margt sem kemur hér til en við verðum og megum ekki missa sjónar á boltanum. Ég held að við höfum verið of upptekin núna við að setja alls konar lög, um stjórnlagaþing og breyta stjórnarskrá og gera alls konar hluti sem hafa ekkert með uppbyggingu íslensks samfélags á grunni bankahruns að gera. Það má gera þessa hluti, ég er ekki að tala um það, við getum alveg og eigum að leggja okkur fram við að ná samstöðu um það en það má ekki klæða það í þennan búning.

Við þurfum öll að tileinka okkur betri vinnubrögð. Það er hörð gagnrýni á Alþingi í skýrslunni, við tökum það til okkar. Ég tek það til mín sem þingmaður. Ég vil að við bætum vinnubrögðin. En það er ekki nóg að standa hér og tala um það, það er bara ekki nóg.

Ég er nýkomin úr ferð með NATO-þinginu þar sem við í þingmannanefnd á NATO-þinginu fórum fyrst til Danmerkur og síðan til Grænlands að kynna okkur málefni norðurslóða. Í Kaupmannahöfn funduðum við með þingmönnum og dönskum stjórnvöldum og farið var yfir stefnu Dana í varnarmálum. Þar lærði ég að í Danmörku er það þannig að allir flokkarnir á danska þinginu — nema núna var einhver einn flokkur, smáflokkur, sem vildi ekki koma að þessu samstarfi — gera með sér fimm ára varnarsamning, þeir setjast niður og skipuleggja það í sameiningu á jafnréttisgrundvelli. Allir flokkarnir skipuleggja varnarmál Dana til fimm ára og ekki bara stefnumótunina, heldur líka fjárveitingar og raða fjárveitingunum til ákveðinna verkefna. Þeir eru búnir að gera pólitískan varnarsamning til fimm ára. Meginmarkmiðið er, sögðu danskir þingmenn mér, að koma í veg fyrir að við ríkisstjórnarskipti skapist óstöðugleiki í þessum grundvallarmálaflokki. Mér þótti þetta afar athyglisvert vegna þess að ég var nýbúin að taka þátt í umræðum á íslenska þinginu um að nú væri bráðnauðsynlegt að leggja niður Varnarmálastofnun, sem þó er ekki orðin tveggja ára gömul.

Þegar lögin um Varnarmálastofnun voru sett var minn flokkur í ríkisstjórn. Ég get alveg viðurkennt að það var ekki lagt til að við tækjum alla hér að borðinu og lögin um Varnarmálastofnun yrðu sett þannig. Það var ekki gert þannig, né heldur voru lögin um Varnarmálastofnun afnumin með þeim hætti sem þeir gera í danska þinginu. Þetta eru vinnubrögð sem við megum taka okkur til eftirbreytni.

Formaður þingmannanefndarinnar talaði um sjálfstæðisyfirlýsingu þingsins, að þessi skýrsla væri það. Hún verður það ekki nema við tökum hana til okkar. Hún verður það ekki nema við breytum vinnubrögðum. Og hún verður það ekki nema við gerum það öll. Daginn eftir þessa miklu sjálfstæðisyfirlýsingu er upphafi þingfundar frestað vegna þess að framkvæmdarvaldið var of lengi að funda. Mér fannst það ekki passa við þá sjálfstæðisyfirlýsingu þingsins og bið hæstv. forseta um að virða það við mig.

Þetta snýst um stöðugleika í stjórnarfari. Þetta snýst um það að við þurfum að nota þá krafta. Við ræddum um jafnréttismál í andsvari áðan. Við vorum að ræða það að hér fylgir með kynjagreining sem ég játaði í andsvari við hæstv. umhverfisráðherra að ég skildi hvorki upp né niður í. Ég held að við eigum að hugsa þetta út frá jafnrétti meiri hlutans og minni hlutans á þingi, jafnrétti karla og kvenna, ekki út frá því hver er sökudólgurinn, hvort einhver hegðun er karllæg, hvernig sem þetta var sagt, þó það væri ekki kyngreint karllægt, (Gripið fram í.) ég skil þetta ekki. (Gripið fram í: Stigveldi karlmennskunnar.) Stigveldi karlmennskunnar, eitthvað slíkt. Tölum mannamál, tölum bara málið sem fólkið skilur. Við eigum að taka tillit til sjónarmiða annarra. (Gripið fram í: Mætti vera …) Það er það sem við eigum að gera.

Þess vegna vil ég draga hér upp grein sem mér þótti athyglisverð og las á vefritinu Smugunni sem verður nú seint talið til vefrits sem ég er almennt sammála. Þar skrifar Ármann Jakobsson grein sem heitir, með leyfi forseta:

„Það þarf vandaðri umræðu en til þess þarf vandaðri lestur og hlustun“.

Nú ætla ég að upplýsa að á þessu Vinstri græna vefriti er grein, eftir væntanlega flokksmann Vinstri grænna, sem ég er hjartanlega sammála. Ég er hjartanlega sammála þessari grein. Hann gagnrýnir opinbera umræðu á Íslandi og segir í upphafi greinarinnar, með leyfi forseta:

„Ein af ástæðum þess að vitræn umræða þrífst illa í almennu rými á Íslandi er að öll mál sem koma upp hér á landi eru skilgreind sem deilumál milli A og B.“

Við lítum ekki á mál sem mál til að leysa. Við lítum á mál sem deilumál. Ég tek undir þetta með skrifara. Hann segir jafnframt, með leyfi forseta:

„Enginn raunverulegur áhugi er á að hlusta á hvað fólk segir. Eins er ekki mikill áhugi á því að hugsa. Þess vegna þarf öll umræða að grundvallast á klisjukenndu málfari því að fæstir vilja hlusta á það sem aðrir eru að segja, hvað þá að hugsa um það. Svo skammast fólk yfir því að stjórnmálamenn eða aðrir sem eru áberandi í þjóðmálaumræðunni segi ekkert nýtt eða óvænt. Ég spyr: hver er hin raunverulega eftirspurn eftir því að fólk segi eitthvað nýtt eða óvænt?“

Ég tek undir þessari spurningu. Hann segir einnig, með leyfi forseta, og mér þykir það afar góð setning:

„Hlustun virðist engin forsenda viðbragða í opinberri umræðu á Íslandi.“

Þetta þykir mér mjög athyglisvert. Við getum umorðað þetta og sagt að það sé fátt vandað í umræðunni ef menn eru fyrir fram búnir að gefa sér skoðun á málinu. Það skiptir ekki máli hvað fólk segir, þú ert búinn að mynda þér skoðun.

Þá verð ég aðeins að fá að gera athugasemd við útvarpsviðtal sem ég heyrði í morgun þar sem hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra, Ögmundur Jónasson, lýsti því yfir — og nú vona ég að ég fari ekki yfir þá grensu sem allir þingmenn í þessari umræðu hafa virt og það að ræða efni skýrslunnar og vinnubrögð en ekki málefni þingsályktunartillagnanna sem ræddar verða hér á föstudaginn, um ákærur á hendur fjórum ráðherrum. En ég vil gera athugasemd við vinnubrögð þessa hæstv. ráðherra sem kom í útvarp í morgun og sagðist vera búinn að gera upp hug sinn varðandi þessar ákærur, vegna þess að hann hafði heyrt málefnaleg rök, sannfærandi rök hv. þm. Atla Gíslasonar, formanns nefndarinnar. Hann sagði að hann hefði hlustað á sannfærandi rök formanns nefndarinnar á þingflokksfundi hjá Vinstri grænum og væri þess vegna búinn að gera upp hug sinn.

Mér þykir þetta afar athyglisvert, sérstaklega í ljósi þess að í öllum svona málum eiga menn sér væntanlega málsbætur. Í öllum slíkum málum er betra að hlusta á báðar hliðar málsins áður en menn fella dóma. Í þessu tilfelli er það dómsmála- og mannréttindaráðherra Íslands sem er tilbúinn, eftir að hafa heyrt hv. þm. Atla Gíslason fara yfir málið á þingflokksfundi hjá Vinstri grænum. En hann hefur t.d. ekki hlustað á rök okkar sjálfstæðismanna vegna þess að við höfum virt það að ræða ekki þessi mál undir þessum dagskrárlið þingsins heldur ætlum við að gera það í umræðu á föstudaginn. Hann hefur ekki hlustað á röksemdir okkar fyrir því að standa ekki að þessum ákærum. En það stöðvar ekki þennan hæstv. ráðherra mannréttindamála. Ég get lesið upp tilvitnun eftir tilvitnun úr ræðum hans og ritum í fortíðinni þar sem hann leggur allan metnað sinn í að standa og vernda mannréttindi allra þeirra sem hlut geta átt að máli í öllum málum. En í útvarpsviðtali segir hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra að honum þyki líklegt að hann muni greiða atkvæði með þessu vegna þess að hann hafi hlustað á hv. þm. Atla Gíslason. Þetta þykir mér sorglegt. Það sem verra er, mér þykir þetta hálfóhugnanlegt. Mér þykir hálfóhugnanlegt að menn geti hugsað sér að fella dóm sem gæti endað með fangelsisvist einstaklinga án þess að hlusta á rök þeirra sem eru andstæðrar skoðunar.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð vegna þess að ég ætla að ræða þetta mál ítarlegar þegar það kemst á dagskrá. En þetta vildi ég sagt hafa vegna þess að ég mér er misboðið með þessum ummælum ráðherrans.

Virðulegi forseti. Ég sagði áðan að við þyrftum að breyta vinnubrögðum og við þyrftum að gera það öll og við þyrftum að fara að huga að framtíðinni. Ég vitnaði í hv. þm. Pétur H. Blöndal, reyndar áður en hann kom inn í salinn, um að svo virðist sem það skorti umræðu um framtíðarsýn í þjóðfélaginu. Ég vil segja ykkur eina sögu.

Á laugardaginn, eftir að niðurstaða þingmannanefndarinnar var gerð kunn, fór vinur minn sem býr í Bústaðahverfinu út að skokka. Hann fór sína vanalegu leið neðarlega í Fossvoginum og kom að götuhorni þar sem lítill drengur stóð, sex ára drengur, og stóð þar með skilti. Á skiltinu stóð: Ég vil ekki hefnd. Þarna stóð einn sex ára drengur á götuhorni og sagði: Ég vil ekki hefnd. Það var greinilegt að strákurinn hafði skrifað þetta skilti sjálfur vegna þess að e-ið sneri á hvolf. Vinur minn tók hann tali og spurði hverju þetta sætti, af hverju hann stæði þarna með þetta skilti. Þá sagði sá stutti að hann hefði verið að hlusta á sex-fréttirnar og hefði ákveðið að koma skoðun sinni á framfæri með þessum hætti. Skilaboð þessa drengs til okkar Íslendinga og okkar sem stöndum hér inni í þessum sal eru þau að þessi drengur vill fá athygli á framtíð sína. Hann vill ekki hefnd. Nú þegar eru tvö ár af sex ára ævi þessa drengs farin í það.

Ég er ekki að gera lítið úr því að efnahagshrun er alvarlegt og að við þurfum að gefa okkur tíma til að fara yfir þá hluti. En við megum ekki missa sjónar á því sem er mikilvægast í þessu öllu saman; það eru börnin okkar, framtíð barnanna okkar, framtíð landsins. Við þurfum öll að taka okkur saman í andlitinu, taka þeim ábendingum sem koma hérna fram, standa saman að því að breyta vinnubrögðum og meina það og hafa þennan litla dreng í huga þegar við gerum það, við látum ekki næstu tvö ár, næstu sex mánuði, fara í súginn heldur tökum höndum saman strax og byggjum upp landið þessum unga dreng til heilla og okkur öllum.