138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[14:51]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að láta skoða þá hugmynd hvort hægt sé að koma fram með breytingartillögu og sjá kosti og galla á því. Það væri mjög spennandi að fá slíka tillögu samþykkta núna. Ég átta mig ekki á því hvort við þá aðgerð opnist hér allar gáttir og fjöldinn allur af breytingartillögum streymi inn og þá verði óendanlega margar breytingartillögur. Mér skilst að búið sé að boða breytingartillögur varðandi rannsókn á einkavæðingu bankanna. Mér skilst að líklegt sé að einhverjar þannig breytingartillögur verði og þá gæti þessi kannski flotið með líka. Ég ætla að skoða það af fullri alvöru.