138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[14:52]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við fjöllum um skýrslu þingmannanefndar sem skipuð var til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Umræðan hefur að mínu viti verið afskaplega málefnaleg, hófstillt og uppbyggileg á undanförnum dögum og er það vel.

Ég vil byrja á því, frú forseti, að endurflytja þakkir mínar til níumenninganna sem sátu í þessari nefnd og unnu þrekvirki og voru oft og tíðum ekki í mjög öfundsverðu hlutverki, ekki síst þegar taka þurfti afstöðu til örlaga samstarfsmanna til áratuga jafnvel svo sem sagt hefur verið frá í þessari pontu.

Skýrslan tekur vitaskuld tillit til rannsóknarnefndarskýrslu Alþingis sem vakti á sínum tíma mjög mikla athygli og er að mínu mati mikið lærdómsrit sem þjóðin öll á að taka tillit til í verkum sínum á komandi árum, lærdómsrit sem á að vera sígilt í meðförum þjóðarinnar á næstu árum. Þingmannanefndin byggir vinnu sína að mestu leyti á vinnu rannsóknarnefndarinnar en bætir um betur og kemur með mjög ígrundaðar og vel rökstuddar tillögur að endurbótum, ekki einstökum heldur endurbótum á störfum þingsins, endurbótum á störfum fjármálafyrirtækja, endurbótum á eftirlitskerfinu sem er við lýði hér á landi, endurbótum á stjórnsýslunni og endurbótum á siðferði landsmanna, íslensks viðskiptalífs og almennt á mannasiðum þjóðarinnar. Þetta er gífurlega nauðsynlegt plagg og ég hvet ekki einungis þingmenn og embættismenn til að lesa það heldur landsmenn alla vegna þess að í því eru mikilvægar úrbótatillögur og mikilvægt úrbótaplan verður unnið eftir því. Ég skora á fólk og þingmenn í öllum flokkum að láta hér ekki staðar numið heldur halda áfram með það umbótastarf sem klárlega er nauðsynlegt að sinna á komandi vikum og mánuðum.

Þegar maður les skýrsluna og reyndar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis líka áttar maður sig á því að breyta þarf menningu landsmanna í mörgu tilliti, ekki bara viðskiptamenningu sem dvalið hefur verið mjög við heldur líka stjórnmálamenningu og stjórnsýslumenningu. Ég ætla að staldra aðeins við það.

Viðskiptamenning okkar Íslendinga hefur oft og tíðum verið með þeim hætti að sótt hefur verið fram meira af kappi en forsjá. Það hefur vissulega sína kosti en líka áberandi galla, eins og fram hefur komið í okkar síðari tíma sögu á undanliðnum áratug eða svo. Segja má að lykilatriði í viðskiptalífi okkar Íslendinga á síðustu árum fyrir hrun hafi verið þau að bönkunum hafi verið auðveldað að sniðganga reglur með fækkun og rýrnun eftirlitsstofnana. Fyrir vikið féllu bankamenn og þeir sem voru að sýsla með fé í þennan svokallaða freistnivanda sem fjallað er um í þessari skýrslu og menn þekkja afleiðingarnar. Menn sköruðu eld að eigin köku. Almannahagsmunir voru látnir víkja fyrir sérhagsmunum eigenda bankanna sem lánuðu einna helst sjálfum sér til óljósra verkefna en viku til hliðar hagsmunum venjulegra sparifjáreigenda. Það má aldrei gerast aftur. Bankastofnanir ber að reka af eðlilegri íhaldssemi, af varkárni og af fagmennsku. Þegar ég nefni þessi þrjú orð held ég að ekkert þeirra hafi átt við starfsemi sumra þeirra banka sem um er fjallað í skýrslunum og kemur þar rækilega fram. Í sjálfu sér ekki mikið meira að segja um viðskiptamenningu þjóðarinnar. Um hana hefur verið fjallað ákaflega mikið á undanliðnum árum. Völd viðskiptamanna voru orðin óhóflega mikil, að mati þess sem hér stendur, á kostnað stjórnsýslunnar og eftirlitsstofnana. Sá háttur var hafður á að rýra mjög hlutverk allra eftirlitsaðila til að auka vægi og völd viðskiptalífsins. Menn sjá svo árangurinn af því sem er ekki glæsilegur. Hér þarf að staldra við og laga margvíslega þætti, ekki bara hvað regluverk fjármálastofnana varðar heldur líka regluverk endurskoðenda eins og komið er inn á í skýrslunni. Menn eiga ekki síst að horfa til þess að endurskoðendur fyrirtækja og fjármálalífsins almennt eigi ekki að vera áskrifendur að ævistarfi hjá einstökum fyrirtækjum heldur finnst mér eðlilegt að það sé takmarkað við einhver ár. Ég nefni t.d. að hver endurskoðandi geti ekki endurskoðað fyrirtæki og bankastofnanir lengur en í fjögur ár, ég nefni það sem hugmynd. Almennt séð á löggjafinn að taka rækilegt tillit til þessa plaggs þegar kemur að endurbótum á regluverki og lagasetningu í kringum fjármálalífið og stofnanir þess.

Þá, virðulegi forseti, að stjórnmálamenningunni. Mjög hefur verið fjallað um það á síðustu dögum hvernig breyta eigi stjórnmálamenningunni. Frá mínum sjónarhóli, sem fylgst hef með stjórnmálamenningu Íslendinga í áratugi frá sjónarhóli fréttamannsins að mestu leyti, hef ég haft þá tilfinningu að flokkshagsmunir hafi oft verið teknir fram yfir allt í íslenskri stjórnmálamenningu. Flokknum allt fremur en Íslandi allt. Þetta á við um svo að segja alla flokka sem hafa verið við völd hér á landi á undanliðnum árum og áratugum. Flokknum allt, Ísland í öðru sæti. Flokkakerfið hefur verið svo innhverft að sjálf stjórnmálastefnan hefur gleymst. Að mínu viti eru stjórnmálastefnur hvort heldur þær eru til vinstri, hægri eða á miðjunni miklu merkilegri en flokkarnir sjálfir. Þær lifa flokkana af. En varðstaðan um flokkinn sem fyrirbæri óháð stjórnmálastefnunni hefur verið óheyrileg og óeðlileg á Íslandi á undanliðnum árum. Varðstaða þingmanna um flokka sína hefur verið óeðlileg og fyrir vikið hafa þeir auðveldlega getað sveigt af stefnum sínum. Hvort heldur það eru flokkar til vinstri, hægri eða á miðjunni hafa þeir auðveldlega getað sveigt af þeim stefnum sem eiga að vera akkeri í lífi stjórnmálaflokkanna. Einstaka oddvitar flokkanna hafa auðveldlega, vegna þess að flokkurinn er aðalatriðið, getað stefnt flokkum sínum frá meginhagsmunum þeirra sem eiga að snúast um stjórnmálastefnuna sjálfa.

Þetta hefur verið meinsemd í íslenskum stjórnmálum. Þar fyrir utan má auðvitað margt segja um oddvitaræðið sem kemur rækilega fram í skýrslunni og hefur einnig verið mikil meinsemd í íslenskri stjórnmálamenningu.

Ég vil líka, frú forseti, staldra við annað sem einkum má læra af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Ef við drögum niðurstöðu hennar saman í örfá orð vil ég segja að lærdómurinn af henni sé sá að þekking takmarki vald og vald takmarki þekkingu. Þar erum við kannski komin að þeim óförum sem íslensk stjórnmálamenning rataði í á undanliðnum árum. Valdið hafði sitt fram vegna þess að það vildi ekkert endilega að þekkingin kæmist að á ákveðnum tímabilum. Og af því að þekking takmarkar vald verður það vald sem vill ná sínu fram að takmarka þekkinguna. Þess sér stað í stjórnmálasögu okkar síðastliðin ár. Vegna útreikninga sem menn voru ekki sáttir við voru heilu stofnanirnar lagðar niður og ber þar kannski hæst Þjóðhagsstofnun árið 2002. Þekking takmarkar vald og vald takmarkar þekkingu. Við þurfum að læra af þessu. Stjórnmálamenn þurfa að taka meira tillit til þekkingar, leita að þekkingu og öðlast þekkingu til að taka ákvarðanir en gera það ekki einir og sér í oddvitaræði, jafnvel óháð umræðu innan þingflokkanna. Niðurstaðan eins og við þekkjum er sú að oddvitaræðið er klappað upp í flokkunum vegna þess að flokkurinn er allt, Ísland og þjóðin eru í öðru sæti.

Þá örstutt að stjórnsýslumenningunni og endurbótum á störfum Alþingis sem ég tel vera mjög brýnar. Alþingi er að mörgu leyti íhaldssöm stofnun en á ekkert endilega að vera það í eðli sínu. Þótt ég hafi getið þess að bankastofnanir eigi að mörgu leyti að vera íhaldssamar þarf ekki endilega það sama að gilda um Alþingi. Ég staldra sérstaklega við umræddar breytingartillögur á nefndastarfi Alþingis. Ég tel vel koma til greina að öll lagasetning Alþingis sé unnin af hálfu Alþingis sjálfs. Nú er það svo, og þingmenn þekkja það bæði gamlir og nýir, að frumvörp, sérstaklega stjórnarfrumvörp, koma fullbúin svo að segja af færibandi ráðuneytanna. Það er ákveðin stjórnsýsluómenning. Það er einu sinni svo að þjóðin kýs fulltrúa sína á þing en frumvörpin sem þingið afgreiðir eru að mestu leyti ættuð frá embættismannakerfinu, frá embættismönnum sem hafa ekkert lýðræðislegt umboð. Þjóðin kýs ekki þá embættismenn sem búa til frumvörpin sem hinir þjóðkjörnu fulltrúar samþykkja svo eða synja. Þarna er vitaskuld byrjað á öfugum enda. Ég tel hins vegar að ráðuneyti eigi að hafa tillögurétt að frumvörpum, geti leitað, frú forseti, til þingnefnda um að mál verði hugsanlega sett á dagskrá og að viðkomandi þingnefnd sé kunngjört um þann vilja ráðuneytisins að breytingar fari fram á þessu efni eða öðru og það sé síðan þingnefndarinnar að útkljá það mál.

Tökum sem dæmi skattatillögur. Hvernig má það vera að það sé embættismannakerfið sem vinnur allan undirbúning að því stórpólitíska máli að breyta skattkerfinu, heilu hópunum í hag og öðrum í óhag? Hvernig má það vera að þeir sem eru alls ekki kosnir til pólitískra áhrifa fjalli meira um jafnstórpólitísk málefni og breytingar á skattkerfinu eru en þjóðkjörnir fulltrúar? Þetta er það kerfi sem blasir við okkur í dag og því ber að breyta. Ég hygg að umbótanefnd þings muni taka þetta til greina.

Þar með þarf að efla nefndir þingsins. Ég er talsmaður þess. Af hverju er það svo að þeir lögmenn sem helst búa til frumvörpin á Íslandi eru í ráðuneytunum en ekki í þinginu? Ég er ekki endilega að tala fyrir því að fjölga starfsmönnum en við eigum að færa lögmennina sem búa til frumvörpin úr ráðuneytunum og í þingið, þar eiga þau að verða til. En ég vek athygli á því að ég er alveg reiðubúinn að gefa ráðuneytunum eftir tillögurétt að því að koma með ábendingar um frumvörp og annað sem snýr að breytingum og innleiðingu reglugerða og öðru slíku.

Frú forseti. Ég vil líka aðeins koma að sjálfri stjórnsýslumenningunni og ráðningum inn í stjórnsýsluna. Ég legg áherslu á að komið verði á fót sérstakri ráðningarstofu stjórnsýslunnar þar sem allar ráðningar fari fram. Það verði síðan skýrt í reglugerð eða lögum og algerlega ljóst hvernig stöku ráðherrar geti komið inn með pólitíska starfsmenn.

Ég staldra líka við þann sið okkar að hafa alla stjórnsýsluna á sama stað. Að mörgu leyti, frú forseti, má heita svo að meinsemd stjórnsýslunnar felist í því og hafi gert á undanliðnum árum að hún fer ekki bara öll fram í sama póstnúmerinu heldur á sömu torfunni þar sem sömu karlarnir hafa eilíflega hist yfir sama hádegisverðinum til að taka sömu ákvarðanirnar ár eftir ár, áratugi eftir áratugi. Ákveðin briddsfélagastemning hefur orðið til í stjórnsýslunni. Það ætti að dreifa stjórnsýslunni. Mér finnst ekkert endilega eðlilegt að öll stjórnsýslan fari fram á einum og sama blettinum í höfuðborginni Reykjavík. Mér finnst fullkomlega koma til greina að dreifa henni um landið rétt eins og aðrar þjóðir í kringum okkur hafa gert til að vinaklíkumenningin verði ekki viðvarandi eins og verið hefur á undanliðnum árum þar sem briddsfélagastemningin hefur smíðað hvert málið af öðru sem svo ratar á færibandið inn til þings og verður að lögum í uppklappi þingflokkanna þar sem hagsmunir flokksins eru ofar hagsmunum þjóðarinnar. Þetta vildi ég nefna hér, frú forseti, sem mikilvæga tillögu að breytingum á stjórnsýslumenningu okkar.

Þá kemur að niðurstöðu þessa alls. Það er afskaplega mikilvægt og þess sér stað í orðum þingmanna að þeir eru staðráðnir í að læra af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þeirri skýrslu sem hér liggur fyrir, skýrslu þingmannanefndarinnar, um þá téðu skýrslu. Hér virðist stefna í góða samstöðu um að bæta vinnubrögð þings og allrar stjórnsýslu og þeirra stofnana sem löggjafinn setur reglur og var tími til kominn. Þegar menn e.t.v. horfa til þessa tíma í sögu þjóðarinnar hygg ég að þeir tali um eitt misheppnaðasta skeið íslenskra stjórnmála á áratugnum 1998–2008 þar sem oddvitaræðið fór með þjóðina nokkurn veginn norður og niður og einkavinavæðingin fékk að leika lausum hala.

Ég fagna þeirri samstöðu sem hér er að myndast um að rannsaka enn betur einkavæðingu bankanna sem ég held að sé upphaf þess að svo illa fór fyrir fjármálastofnunum okkar sem raun ber vitni. Ég fagna því líka að menn vilji í sameiningu ráðast gegn þeim klíkustjórnmálum sem hafa verið viðvarandi í íslenskri stjórnmálamenningu jafnt innan þings sem í stjórnsýslunni og gegn vinaráðningum og þeirri stemningu sem hefur verið við lýði að valda hverja stöðu. Ég fagna þeim vilja sem hér er að myndast að hagsmunir flokka séu ekki alltaf teknir umfram sjálfa stjórnmálastefnuna, að flokkar geti beygt hæglega af sinni stefnu sakir oddvitaræðis. Ég fagna því að menn vilji í auknum mæli leita á náðir þekkingarinnar fremur en að leita á náðir valdsins. Ég fagna því ekki síst að þingmenn vilji í auknum mæli horfa í eigin barm og þegar hagsmunir flokksins vegast á við hagsmuni þjóðarinnar þá skuli það alltaf vera svo að þeir taki hagsmuni þjóðarinnar fram yfir hagsmuni flokksins. Flokkar koma og fara en það sama verður ekki sagt um þjóð okkar. Hún á alltaf að njóta vafans.