138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[15:21]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Mér þótti áhugavert að heyra orðaskipti hjá hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni og hv. þm. Ásbirni Óttarssyni því að það var svolítið dæmigert. Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson hélt prýðisræðu og fór ágætlega yfir ýmsa hluti en manni fannst hv. þingmaður detta kannski í það sem hann gagnrýndi hvað mest, að menn væru aðallega að verja flokka sína. Ég kem nánar að því í ræðu minni á eftir að hvað varðar oddvitaræði eða stöðu þingsins þá er ekkert sem bendir til að við höfum lært nokkurn skapaðan hlut frá því að bankahrunið varð. Þvert á móti færi ég rök fyrir því og fer yfir það á eftir að málið hefur versnað um allan helming. Ég hvet hv. þm. Sigmund Erni Rúnarsson til að taka almennilega á þessu í sínum flokki og ég veit að hann mun gera það því að það er nokkuð sem við verðum að gera. Við þurfum að byrja innan frá hver og einn og er þá enginn undanskilinn.

Hér hefur farið fram mikil umræða og búið er að taka saman mikið af gögnum, bæði í rannsóknarnefndinni og sömuleiðis í þingmannanefndinni. Ég get tekið undir þakkir manna fyrir þá vinnu en þetta eru samt sem áður frekar einföld atriði. Í fyrsta lagi gleymdum við okkur og stunduðum ekki gagnrýna hugsun. Það hefur ekki breyst eftir hrunið. Ef einhverjir höfðu kannski efasemdir fyrir bankahrun og í aðdraganda þess höfðu menn tilhneigingu til að blása það af vegna þess að þeir voru ekki með í hjörðinni. Ég held að við séum öll sammála um að það hafi verið óskynsamlegt.

Nú skulum við spyrja okkur: Hvað gera menn núna? Menn komust á örskotsstundu að niðurstöðu um hver væri ástæðan fyrir hruninu. Hægt er að halda því fram að menn hafi ekki farið sérstaklega djúpt ofan í það þegar menn voru komnir með nokkurn veginn samdóma niðurstöðu, sérstaklega ráðandi stjórnmálaflokkar sem voru áður í stjórnarandstöðu og eru í stjórn núna sem og fjölmiðla- og fræðimannasamfélagið. Hvernig hafa þeir verið afgreiddir í umræðunni sem hafa komið með önnur sjónarmið? Ég held að það sé hollt að hver og einn velti því fyrir sér.

Við höfum margar tillögur um hvað má gera. Allar ræðurnar ganga í rauninni út á að styrkja þurfi þingið. Meiri styrkingu þarf í stjórnkerfið. Það kemur fram í hinum ýmsu skýrsluúttektum. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir notaði áðan orðið sameina en það þarf líka að styrkja og það þýðir að fjölga þarf starfsfólki. Þegar við skoðum hlutina komumst við að þeirri niðurstöðu að margt hefur miður farið og við þurfum að vanda okkur miklu betur. Málið er mjög einfalt. Ef við ætlum að halda áfram að afgreiða jafnmikinn fjölda mála og við höfum gert núna þá þurfum við að stækka stjórnkerfið og þingið gríðarlega mikið. Við komumst ekki hjá því. Er ekki eðlilegt að við hugsum þannig að skynsamlegra væri að gera minna og gera það vel í staðinn fyrir að gera margt og illa? Ég held að við komumst fljótt að þeirri niðurstöðu að við getum ekki borið okkur saman við stærri þjóðir þegar kemur að mannafla í vinnu í tengslum við löggjafann og framkvæmdarvaldið. Við eigum bara að sætta okkur við það og nýta kosti fámennisins. Samt sem áður verðum við að ganga þannig fram að við vinnum hlutina vel. Í mínum huga þýðir það að við þurfum að taka minna fyrir í einu og fara betur yfir hvert mál.

Mér finnst líka vanta einfaldlega í umræðuna að við erum ung þjóð. Við höfum haft utanríkismál okkar í rétt rúmlega 60 ár og þess sér merki. Sömuleiðis finnst mér menn vanta inn alþjóðlegan vinkil. Við gerðum svo sannarlega mistök og ættum alltaf að gera meiri kröfur til okkar en annarra en við eigum við sömu vandamál að stríða og þær þjóðir sem við berum okkur saman við. Við í viðskiptanefnd höfum m.a. fengið seðlabankastjóra á fund okkar sem hefur farið yfir það að við eigum við nákvæmlega það sama að stríða og aðrar þjóðir, þ.e. að menn mældu ekki þá hluti sem síðar leiddu til fallsins. Menn hafa enn ekki mælistikur á það. Þessi kerfislægi vandi var hvergi mældur. Við höfum sömu stofnanauppbyggingu og aðrar Evrópuþjóðir og þær lentu í því sama þótt það hafi ekki verið hlutfallslega jafnstórt hjá þeim og okkur. Þá er ég kominn að því sem ég fer yfir á eftir að það vantar tilfinnanlega að við áhættugreinum ákveðna þætti í þjóðfélagi okkar.

Hv. þm. Sigurður Ernir Rúnarsson er fyrrum fjölmiðlamaður og hlutfall fyrrum fjölmiðlamanna á þingi er orðið mjög hátt. Ég held að við komumst ekki hjá því að eiga hreinskiptna orðræðu við fjölmiðlana um hvernig er best að halda upplýstri umræðu í þjóðfélaginu. Ég held að við komumst ekki hjá því. Það er ekki mál okkar þingmanna að kannski eru aukaatriðin áberandi í umræðunni. Það er ekki síst þeirra sem ráða því hvað er á dagskrá í umræðunni á hverjum tíma.

Ég man eftir því að þegar ég var í borgarstjórn Reykjavíkur þá gagnrýndi ég ásamt fleirum mjög mikla skuldasöfnun Reykjavíkurborgar. Ég man ekki hve margir fjölmiðlamenn útskýrðu það fyrir mér að þetta væri leiðinlegt, það væri ekki skynsamlegt að halda því á lofti, fólk hefði ekki áhuga á því. Þegar maður var virkilega ósáttur við að hægt væri að komast upp með að færa skuldir á milli reikninga, t.d. yfir á Orkuveitu Reykjavíkur, þá var mjög erfitt, virðulegi forseti, að finna fjölmiðlamenn sem sýndu slíku stórmáli áhuga. Þeir urðu iðulega fyrir einhvers konar aðkasti á vinnustöðum sínum, leyfi ég mér að fullyrða, fyrir að taka upp svona leiðinleg mál. Sömuleiðis var ég ósáttur við að Orkuveita Reykjavíkur skyldi gera ýmislegt sem tengdist ekki kjarnastarfsemi hennar. Hið sama gerðist. Það var afgreitt sem þráhyggja. Sem betur fer hafði ég ásamt félögum mínum í Sjálfstæðisflokknum og í samstarfi við Framsóknarflokkinn tækifæri til að vinda ofan af mörgu sem gerði það að verkum að Orkuveitan er þó ekki í verri stöðu en raun ber vitni. En það er áhugavert að enginn fjölmiðlamaður virðist muna það að vinstri menn ætluðu að kaupa grunnnet Landssímans á rúmlega 23 milljarða. Vinstri menn í Reykjavíkurborg ætluðu að setja 300 sumarbústaði á kostnað Orkuveitunnar í kringum Úlfljótsvatnið og þeir ætluðu, á kostnað Orkuveitunnar, að tengja ljósleiðara í hverja einustu íbúð á höfuðborgarsvæðinu og á öllu orkuveitusvæði Orkuveitunnar. Ef það hefði gengið eftir hefði staðan orðið gríðarlega slæm hjá fyrirtækinu.

Það er líka áhyggjuefni, svo að maður taki upp hanskann fyrir fjölmiðlana, hvað reynslumiklir fjölmiðlamenn, sem ættu kannski að muna þetta, duga skammt og fara yfir í önnur störf.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að dvelja við þetta, það er svo stuttur tími sem maður hefur. Nú erum við að setja okkur í stöðu og við erum að setja mælistiku nútímans á það sem gerðist áður. Maður þarf aðeins að fletta upp í gömlum skjölum til að átta sig á því hvað var að gerast hér áður. Ég fann, virðulegi forseti, plagg sem heitir Alþjóðleg fjármálastarfsemi á Íslandi . Nefnd forsætisráðherra um alþjóðlega fjármálastarfsemi skilaði því af sér í október 2006.

Hér er fólk úr atvinnulífinu, úr Stjórnarráðinu, það eru tveir ráðuneytisstjórar í það minnsta, og ýmsir aðilar — ég efast ekki um að menn hafi sett það fólk sem það taldi vera allra best í þennan hóp. Það sýnir kannski svolítið bernsku okkar þegar maður skoðar þessa niðurstöðu. Þetta er ágætisplagg þar sem farið er yfir hlutina. Erlendir sérfræðingar eru fengnir til að leggja fram álit sitt og greiningarvinna er unnin. En ekkert er talað um áhættu íslenska ríkisins af bankastarfsemi, ekki neitt, og það þykir mér svolítið merkilegt.

Mér fannst mjög merkilegt þegar við vorum að halda í þessa vegferð og ætluðum okkur þetta — og allir vissu það, menn töluðu um það, og m.a. þjóðhöfðinginn, hvað við værum að ná gríðarlegum árangri í útrás og hvernig fjármálastarfsemin hefði vaxið. Og erlendir aðilar kyntu undir eins og erlendir fjárfestar og matsfyrirtækin, sem þiggja stórar fúlgur fyrir að taka út banka og ríki og annað slíkt, töldu að við værum að gera hlutina vel. Ég hef grun um að menn hafi ekki áttað sig á grundvallarhlutum og mér finnst Mark J. Flannery taka þetta ágætlega fram, á bls. 55 í rannsóknarskýrslu Alþingis.

Þar segir hann, með leyfi, virðulegi forseti:

„Í nær öllum löndum gilda strangar reglur um bankastarfsemi. Að hluta til endurspegla slíkar reglur formlega og óformlega stefnu stjórnvalda sem kjósa að styrkja banka í fjárhagserfiðleikum í stað þess að láta þá verða gjaldþrota. Flestar reglur byggjast á þeirri trú að stjórnvöld muni ekki leyfa bönkunum sínum að falla og gera innlánseigendum að bera tapið. Slíkar ætlaðar ríkisábyrgðir gera bönkunum kleift að fá lánað fjármagn á mun lægri vöxtum en ella þar sem ekki er tekið tillit til áhættu þeirra. Bankarnir hafa því óeðlilegan hvata til að taka mikla áhættu því að þegar vel gengur hagnast hluthafarnir en þegar illa gengur munu stjórnvöld sennilega taka á sig hluta tapsins. Stjórnvöld vilja því takmarka áhættutöku banka í því skyni að vernda skattgreiðendur og draga úr björgun af fjármálalegum hvötum. Slíkar aðgerðir nefnast varúðarreglur, á ensku „prudential regulations“, og slíkar reglur geta gjarnan takmarkað arðsemi banka.“

Þetta er það sem allar þjóðir gera og þetta er það sem einfaldlega mistókst. Í örstuttu máli er þetta þannig að þjóðir vilja ekki að bankarnir sínir fari á hausinn út af mikilvægi þeirra. Þess vegna setja þær mjög strangar reglur sem var svo sannarlega reynt, held ég, í öllum vestrænum þjóðfélögum en það ýtir undir óeðlilega áhættusækni hjá eigendunum og það gerðist svo sannarlega. Þetta fyrirkomulag gekk ekki upp. Og það er ýmislegt sem bendir til þess að við séum ekki búin að sjá fyrir endann á falli bankanna og ýmsir spá því t.d. að það verði fleiri bankahrun vestan hafs og jafnvel í fleiri löndum.

Við Íslendingar, sem brenndum okkur hvað harðast á þessu, höfum síðan þetta gerðist afgreitt lög um fjármálafyrirtæki. Tókum við mið af þessu? Áhættugreindum við vandann? Nei, virðulegur forseti, við létum það algjörlega eiga sig. Í skýrslu þingmannanefndarinnar segir að mikilvægt sé að hafa skýra framtíðarsýn varðandi fjármálamarkaðinn. Var það gert í vor? Nei, það var ekki gert. Menn gerðu alveg þvert á það sem stendur í niðurstöðum þingmannanefndarinnar. Hér áttum við að klára í vor — ef stjórnarliðar hefðu fengið að ráða — lög um innstæðutryggingar. Var búið að áhættugreina þann þátt málsins? Nei, virðulegi forseti, ekki var búið að því. Og ef annað áfall yrði, bankaáfall, og við værum búin að samþykkja frumvarpið, sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur flutt, mundi Ísland ekki þola það.

Fórum við almennilega yfir Icesave-málið og áhættugreindum? Var það þannig ef vilji stjórnvalda hefði náð fram að ganga? Nei, virðulegi forseti, við gerðum það ekki. Gott og vel, nú er ég bara að tala um síðasta vor en lærðum við eitthvað í sumar eftir alla þessa vinnu? Vorum við að vinna eftir einhverjum skynsamlegum leiðum í síðustu viku? Í síðustu viku afgreiddum við lög um Stjórnarráðið, breyttum Stjórnarráðinu. Lágu einhver gögn til grundvallar þeirri vinnu, einhver stefnumótun, einhver úttekt? Nei, virðulegi forseti, þau hafa ekki fundist enn. Ég er að vísu enn að leita og við skulum sjá hvað kemur út úr því, en það er ekkert sem liggur til grundvallar.

Virðulegi forseti. Mér finnst ákveðin mótsögn í því að við komum hér og segjum að skynsamlegt sé að virða þingið — formaður nefndarinnar, Atli Gíslason, talar um mikilvægi þess að ekki sé verið að þvælast fyrir þessari þingmannanefnd og framkvæmdarvaldið megi ekki koma inn í það. En þingmannanefndin lét það yfir sig ganga að hæstv. forsætisráðherra setti sinn einkahóp til að koma með tillögur um úrbætur í stjórnsýslunni þvert á vinnu þingmannanefndarinnar undir forustu Gunnars Helga Kristinssonar — mér finnst það líka sérstakt að fræðimenn skyldu taka það í mál, fræðimenn sem alla daga eru að segja hve mikilvægt sé að styrkja stöðu þingsins. Kaldhæðnin liggur í því að hópnum var gert að vinna þetta svo hratt að hann fríar sig í rauninni frá vinnunni í niðurstöðum sínum.

Hann segir þar, með leyfi forseta:

„Á þeim stutta tíma, sem starfshópur forsætisráðherra hafði til umráða, hafði hann ekki tök á að vinna ítarlega útfærðar tillögur. Þess í stað hefur áhersla hans verið sú að leiða í ljós meginatriði sem af skýrslu rannsóknarnefndar má leiða og helstu viðfangsefni sem stjórnvöld þurfa að takast á við í ljósi ábendinga rannsóknarnefndar. Ítarlegri vinna með efnið bíður því fleiri aðila. Hér ber fyrst að nefna níu manna þingmannanefnd sem skipuð hefur verið af Alþingi til að móta tillögur að viðbrögðum Alþingis við niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar.“

Virðulegi forseti. Forsætishópurinn sagði: Við höfum ekki tíma til að gera það sem við áttum að gera og okkur finnst eðlilegt að þingmannanefndin komi með tillögur sínar um úrbætur í stjórnkerfinu. Hvað gerir meiri hlutinn á þinginu? Hann drífur sig í að klára breytingar á stjórnkerfinu áður en þingmannanefndin er komin með niðurstöðu og vísar aðallega í þennan vinnuhóp sem segir: Við höfum ekki tekið þetta út, við erum að bíða eftir þingmannanefndinni.

Virðulegi forseti. Það er mjög gott að umræðan sé málefnaleg, það er mjög gott að við höldum ró okkar og förum yfir alla hluti. En ef þetta gengur bara út á það að tala og gera ekkert með það sem stendur í þessum plöggum, gera ekkert með það sem menn eru að segjast ætla að læra af, þá er þetta til lítils, við skulum bara horfast í augu við það. Þá er þetta bara huggulegur málfundur.

Stjórnarliðar verða að fara að gera það upp við sig hvort þeir meini það sem þeir segja, hvort þeir telji að við eigum eftir að fara eftir þessu. Ég skal hins vegar alveg hlusta á það ef menn segja að það að styrkja þingið og hafa málin á forræði þess — að þeir séu ósammála því, þetta sé of langt gengið eða eitthvað slíkt. Ef menn finna því eitthvað til foráttu eiga menn auðvitað að segja það en menn eiga ekki að halda einhverju fram og gera síðan eitthvað allt annað.

Virðulegi forseti. Núna er tækifærið fyrir okkur að breyta. Nú er tækifæri fyrir okkur — og ég er mjög ánægður með að sjá hér í tillögum þingmannanefndarinnar, um úttektir og rannsóknir, að þar er gert ráð fyrir að gera úttekt á lífeyrissjóðunum og fleiri aðilum. Ég tel að þingið eigi að gera miklu meira af því að sinna eftirlitshlutverki sínu, rannsaka, í staðinn fyrir að eitthvað hangi í lausu lofti og enginn viti hvað það er og jafnvel svo árum og áratugum skiptir, oft á tíðum fullkominn misskilningur væntanlega. En meðan við skoðum það ekki og umræðan hangir svona erum við að skapa tortryggni í þjóðfélaginu.

Ég tel, virðulegi forseti, að það sé alveg skýrt að við þurfum að skoða Icesave eins og tillaga hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar gengur út á. Ég tel mjög mikilvægt að rannsaka starfsemi fjármálafyrirtækja á tímabilinu frá október 2008 eftir hrun þegar enginn var að fylgjast með, þegar þessar miklu eignatilfærslur áttu sér stað innan bankanna. Ég held að það sé lykilatriði að vinnum það og að við gerum þetta núna þegar við förum af stað í þessar úttektir og rannsóknir sem þingmaðurinn leggur til. Við munum koma með breytingartillögur sem munu fela í sér að Icesave verði rannsakað og það verði rannsakað hvað gerðist í bönkunum eftir hrunið. Ég mun styðja tillögu um að Íbúðalánasjóður verði skoðaður eins og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hefur nefnt.

Ég held að við ættum, virðulegur forseti, einnig að rannsaka meðferð á fjárfestingarfélögum frá 10. október. Það er mjög misjafnt hvernig farið hefur með þau, mikil umræða um að þar hafi jafnræðis ekki verið gætt. Við skulum fara í það núna, virðulegi forseti. Síðan skulum við setja vinnu um breytingar á stjórnkerfinu í einhvern farveg. Tökum út mannaflafjölda, tökum út hvort ábyrgð hvers ráðuneytis og stofnana sé skýr. Svona grundvallaratriði liggja ekki fyrir. Virðulegi forseti, ég á svo stutt eftir en ég gæti talað lengi um þennan þáttinn, en við erum öll sammála um, og það hefur ekkert með bankahrunið að gera, að það þarf að bæta stjórnkerfið. En látum ekki einhverjar tillögur liggja hér bara sem orð. Setjum þetta núna í farveg, þingið, (Forseti hringir.) því að það er það sem við tölum um á tyllidögum.