138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[16:58]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég get tekið undir athugasemd hv. þingmanns, hina fyrri, um að vissulega er hér meira samkomulag en má greina af hinni opinberu umræðu. Það vel. Auðvitað er það vel að hér er unnið á virkan hátt í nefndum og fólk vinnur af heilindum að því að reyna að finna bestu lausnir á málum.

Hvað varðar hins vegar að jafnréttisumræðan sé hafin yfir kynjagreiningu leyfi ég mér að vera ósammála hv. þingmanni og vísa þar í ekki ómerkari mann en til að mynda John Stewart Mills sem sagði að einmitt þessi — (ÁJ: Hvern?) John Stewart Mills sem sagði einmitt að hugmyndir okkar um kynin væru líklega rótgrónustu hugmyndirnar sem við væri að eiga í öllu okkar hugmyndakerfi og erfiðast væri að breyta þeim. Ég held að það sé mjög mikilvægt að hv. þingmenn leyfi sér a.m.k. að velta því fyrir sér hvort þessar rótgrónu hugmyndir um kyn og hvernig við lítum á kynin og hvernig þau birtast, kannski ómeðvitað í okkar tali, hafa haft áhrif á samfélag okkar. Ég held því að sú umræða sé jafnréttisumræðunni til framdráttar þó að hún sé kannski ekki tæmandi fyrir jafnréttisumræðuna.