138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[17:06]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir það og sú viðleitni mun alveg tvímælalaust halda áfram á næstu missirum. En hvað varðar fjölmiðlana þá reikna ég með að við munum taka málefnalega og góða umræðu um þau mál öll heildstætt á haustþingi. Ég hef sagt það áður og segi það aftur að það frumvarp sem ég lagði fram leysir ekki öll vandamál en ég held hins vegar að í því séu mjög mikilvægar umbætur sem þarf að mínu viti að koma í gegn og ég held að það sé mikilvægt að við leitum leiða til að það komist í gegn í sem breiðastri sátt en það leysir ekki öll vandamálin.

Ég ítreka sérstaklega umhverfið almennt, bæði hvað varðar faglega menntun fjölmiðlamanna hér á landi, sem á auðvitað að gera enn betur í og styrkja betur, og hins vegar þetta fjárhagslega umhverfi. En þetta er samt mikilvægur áfangi á þeirri leið að bæta starfsumhverfi fjölmiðla.

Það er gott að fá fyrirspurnir til að veita aðhald og ég held að mikilvægt sé að við fáum eitthvað upp úr fjölmiðlunum. Háskólarnir, eins og ég sagði áðan, höfðu mikið frumkvæði í því að bregðast við rannsóknarskýrslunni, héldu málþing og fóru vel yfir fræðasamfélagið. Við höfum líka tekið þetta upp í öðrum málum sem tengjast skólamálum og við höfum líka rætt málefni rannsóknarskýrslunnar almennt við stofnanir okkar. Allt sem varðar stjórnsýsluna hefur verið tekið til skoðunar bæði í ráðuneytinu og hjá þeim fagstofnunum sem starfa á þessu sviði, hvort sem það eru menningarstofnanir eða Ríkisútvarpið, þannig að við höfum svo sannarlega reynt að fylgja ábendingum og lærdómum rannsóknarskýrslunnar eftir en þetta er hins vegar ferlið. Ég held að við verðum öll að horfast í augu við að það mun taka okkur ákveðinn tíma að tileinka okkur marga þá nýju siði sem verið er að leggja til.