138. löggjafarþing — 162. fundur,  17. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[10:32]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Nú bendir allt til þess að við alþingismenn munum í fyrsta skipti taka á okkur þær skyldur sem kveðið er á um í lögum um landsdóm og taka að okkur ákæruvald. Þegar svo er komið er nauðsynlegt, þegar við leggjum grunn að þeim ákvörðunum sem við verðum að taka í þessu, að öll gögn sem fyrir þingmannanefndinni lágu, og voru grundvöllur þeirra ákæruskjala sem hér liggja fyrir, verði þingmönnum kunn. Það er ekki hægt að líða það að ætlast sé til að alþingismenn taki sér ákæruvald í hendur án þess að hafa rýnt í þau gögn sem eru grunnur þeirra ákvarðana sem hér hafa verið teknar af hálfu nefndarmanna í þingmannanefnd.

Ég fer fram á það, virðulegi forseti, vegna þess að mér hefur heyrst að illa gangi og treglega að fá formann þingmannanefndarinnar, hv. þm. Atla Gíslason, til að verða við þessu, að kallaður verði saman fundur formanna þingflokka við fyrsta tækifæri til að tryggja það að þessi gögn liggi fyrir.