138. löggjafarþing — 162. fundur,  17. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[10:36]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með síðasta hv. ræðumanni. Það er auðvitað svo að okkur er falið það verkefni, þessum 63 alþingismönnum sem hér sitja, að taka afstöðu til þess hvort gefa beri út ákæru. Það er skylda okkar allra að taka afstöðu til þess. Til þess að við getum hvert um sig tekið afstöðu þurfum við að vita og hafa aðgang að öllum þeim gögnum sem skipta máli varðandi það hvort ákæra beri eða ekki. Ákæruvaldið í þessu máli liggur ekki hjá hv. þm. Atla Gíslasyni eða þeim hv. níu þingmönnum sem sátu í þingmannanefndinni. Þeir hafa tillögurétt, þeir koma með sína tillögu fyrir þingið, eða hluti þeirra. En það erum við 63 sem þurfum að taka afstöðu og til að við getum tekið afstöðu þurfum við að sjálfsögðu að hafa aðgang að þeim gögnum sem kallað hefur verið eftir og lögð hafa verið fram í málinu.