138. löggjafarþing — 162. fundur,  17. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[10:37]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Þetta er alvarlegt mál sem þingið er að taka til umræðu og ég hygg að allir þingmenn finni mjög til ábyrgðar sinnar. Ég segi það fyrir sjálfan mig að ég hef ekki komist að neinni fastri niðurstöðu en til að það sé hægt tel ég nauðsynlegt fyrir alla þingmenn að hafa aðgang að öllum þeim gögnum sem kunna að hafa skipt máli varðandi þá niðurstöðu sem þingnefndin og einstakir hlutar hennar komust að. Ég tek þess vegna undir þá ósk sem hér hefur komið fram. Ég hef viðrað nákvæmlega sömu óskir í mínum þingflokki. Ég tel að það sé ekki hægt að þingnefnd sem hefur lagt fram mjög merkilega ályktunartillögu til að auka tærleika og gagnsæi í starfsemi leysi ekki öll gögn fram. Og ég gef lítið fyrir það þó að einstakir sérfræðingar kunni að telja að þar sé um að ræða hrá gögn. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að fá að sjá þau öll.