138. löggjafarþing — 162. fundur,  17. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[10:40]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vona að hv. þm. Atla Gíslasyni, formanni þingmannanefndarinnar, snúist hugur og telji hann sig ekki vera í þeirri stöðu að geta lagt fram gögn vegna þess að þau séu bundin trúnaði þá skora ég á hann að hafa samband við þá aðila sem gögnin koma frá og óska eftir því að trúnaði á þeim verði þá aflétt vegna mikilvægis þess að þingmenn fái að kynna sér þau.

Hv. þingmaður er líka hæstaréttarlögmaður. Hann er vanur verjandi og réttargæslumaður brotaþola og hann veit að þegar ákært er hefur ákæruvaldið alltaf, í öllum málum nema þessu, að minnsta kosti enn sem komið er, aðgang að öllum gögnum sem lúta að ákærunni og ákæruatriðunum. Ég tel því mikilvægt að öll þessi gögn verði lögð fram. Við höfum í höndum tillögur um ákærur og gögn sem styðja þær tillögur en ekki gögn sem hugsanlega kunna að vera sakborningunum og málstað þeirra í hag. Meðan þau gögn hafa ekki verið lögð fram tel ég, hæstv. forseti, að þessi umræða geti ekki hafist.