138. löggjafarþing — 162. fundur,  17. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[10:43]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Atli Gíslason, formaður þingmannanefndarinnar, hefur gert grein fyrir því að hann muni halda fund með þingmannanefndinni í hádeginu og fara yfir þessi mál og yfir þá kröfu sem hér hefur komið fram um að öll skjöl og minnisatriði og önnur atriði sem hafa í trúnaði verið lögð fyrir þingmannanefndina verði aðgengileg fyrir alla þingmenn. Ég tek undir það að það hefðu átt að koma fram athugasemdir um verklagsreglur nefndarinnar strax í upphafi. Við vissum að fullur trúnaður átti að ríkja í nefndinni. Við treystum því fólki sem við skipuðum í nefndina. Ég tel að við séum að sýna þeim fulltrúum sem hafa farið yfir öll þessi atriði vanvirðingu og vantraust með því að standa ekki við það sem við lögðum upp með í upphafi og treysta niðurstöður þeirra sem birtast í þessum tillögum.