138. löggjafarþing — 162. fundur,  17. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[10:45]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tek heils hugar undir að það er brýnt að þingheimur hafi aðgang að öllum gögnum sem varða bæði það sem leitt getur til sektar og eins það sem leitt getur til sýknu þeirra einstaklinga sem til stendur að ákæra samkvæmt þingsályktunartillögu þingmannanefndarinnar.

Við í þingflokki Samfylkingarinnar höfum nú þegar kallað eftir öllum gögnum. Við ætlum að vinna þetta mál eins og samviskumál á grundvelli einstaklings og þeirrar sannfæringar sem hver þingmaður hefur og hefur unnið heit að samkvæmt stjórnarskrá. Ég get því ekki tekið undir þau sjónarmið hér að við eigum á grundvelli einhverra fyrir fram gefinna leikreglna að vísa samvisku okkar í formið eða til þingnefndar. Ég tek undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram að það er brýnt að sem flest gögn liggi fyrir og helst öll gögn sem ekki eru lagalega bundin (Forseti hringir.) trúnaði til þess að þingið geti tekið afstöðu í þessu máli.