138. löggjafarþing — 162. fundur,  17. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[10:46]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tók eftir því að hv. þm. og nefndarmaður í þingmannanefndinni, Birgitta Jónsdóttir, sagði það í ræðustóli að nefndin hefði sett sér ákveðnar verklagsreglur. Þær eru þá væntanlega verklagsreglur með einhvern leyndarhjúp. (BJ: Þær eru á netinu.) Hvar er nú Wikileaks? (BJ: Þær eru á netinu.)

Virðulegi forseti. Það hlýtur að vera grundvallaratriði að við sem ákærendur hér í þessum sal fáum að sjá öll þau gögn sem þingmannanefndin hefur unnið með. (Gripið fram í.) Það er óþolandi ef það er einhver leynd yfir þeim. (Gripið fram í.) Ég hef óskað eftir því í þingflokki mínum að þau gögn sem við höfum séð skrá yfir og hafa verið lögð fram en voru kölluð til baka, verði flokkuð á eftirfarandi hátt: Í fyrsta lagi þau gögn sem eru opinber og munu liggja frami í möppu, í öðru lagi þau gögn sem er ekki búið að fá leyfi höfunda til að birta og í þriðja lagi þau gögn sem verður bannað að birta.

Ég hef ekki fengið þennan lista enn þá og það er grundvallaratriði áður en maður fer að ræða þetta og setja sig í sakdómarasæti að þessi gögn liggi (Forseti hringir.) fyrst fyrir. Virðulegi forseti, það hlýtur að vera eðlilegt að það sé sett hér fram og ég trúi ekki öðru en að (Forseti hringir.) hv. þm. Atli Gíslason, formaður þingmannanefndarinnar, sem er vanur hæstaréttardómari, skilji að í þessu (Forseti hringir.) máli sem öðrum eiga öll gögn að liggja frammi.