138. löggjafarþing — 162. fundur,  17. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[10:50]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Sú krafa sem sett er fram af þingmönnum um að öll gögn málsins skuli lögð fram hlýtur að teljast mjög eðlileg. Í þessum hópi höfum við misjafnan bakgrunn. Við erum ekki öll lögfræðingar og því höfum við misjafnan grunn til að byggja skoðun okkar á þessum málum. Þannig var því háttað innan þeirrar þingmannanefndar sem um málið fjallaði. Þess vegna kallaði hún eftir lögfræðiálitum og sérfræðiálitum á þessum sviðum til þess að meta stöðuna. Nú er komið að okkur að meta vinnu hennar og það hlýtur að vera réttmæt krafa okkar að öll gögnin liggi á borðinu þannig að við getum myndað okkur skoðun í þessu máli hvert og eitt.

Það vekur einnig athygli, virðulegi forseti, að hér hafa ekki komið fulltrúar Framsóknarflokksins til að gera grein fyrir skoðun sinni í þessu máli. (Gripið fram í.) Það vekur líka athygli að þeir fulltrúar Hreyfingarinnar sem komið hafa upp, tala gegn þessu (Gripið fram í: Hvers lags málflutningur er þetta?) og nú á að vera „wiki-leynd“ yfir málunum. Það vekur einnig athygli að sá fulltrúi Vinstri grænna sem hér hefur talað, talar gegn þessu. Það er magnað hvernig þeir flokkar sem mest hafa talað um lýðræði og gegnsæi haga málflutningi sínum undir þessum lið.