138. löggjafarþing — 162. fundur,  17. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[10:55]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég fagna að mörgu leyti þeim áhuga þingmanna á gagnsæi sem kemur fram í dag. Ég leyfi mér samt að minna á að flestir þeir þingmenn sem talað hafa héldu því leyndu frá því í febrúar 2008 að hér væri hrun yfirvofandi í bankakerfinu, það var ekki þörf á gagnsæi þá.

Allir hv. þingmenn, fyrir utan Birgittu Jónsdóttur, sem talað hafa á undan mér, greiddu atkvæði með því að gögn rannsóknarnefndar Alþingis í 8 binda skýrslunni yrðu falin í leyndarhjúp Þjóðskjalasafns um aldur og ævi. Ég vísa því tali um gagnsæi til föðurhúsanna. Það er hentistefna og menn eru að reyna að eyðileggja þetta mál á þingi. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að Alþingi gæti ekki afgreitt þetta mál og sú skoðun mín styrkist hér í dag og það verður sennilega niðurstaða þessarar umræðu að Alþingi mun ekki geta afgreitt hrunið.