138. löggjafarþing — 162. fundur,  17. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:04]
Horfa

Flm. (Atli Gíslason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um málshöfðun gegn ráðherrum. Flutningsmenn eru hv. þm. Atli Gíslason, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Eygló Harðardóttir og Birgitta Jónsdóttir.

Í ályktuninni segir að Alþingi álykti að skv. 14. gr. stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. 13. gr. laga um landsdóm, nr. 3/1963, beri að höfða sakamál fyrir landsdómi gegn eftirtöldum ráðherrum í öðru ráðuneyti Geirs H. Haarde vegna refsiverðrar háttsemi þeirra í embættisfærslu sinni á árinu 2008: Gegn fyrrverandi forsætisráðherra og oddvita Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn, Geir Hilmari Haarde, gegn fyrrverandi utanríkisráðherra, oddvita Samfylkingarinnar í ríkisstjórn, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, gegn fyrrverandi fjármálaráðherra Árna Matthíasi Mathiesen og gegn fyrrverandi viðskiptaráðherra Björgvini Guðna Sigurðssyni.

Kæruatriðin eru eftirfarandi og í flestu sambærileg um alla þá sem hér er lagt til að verði ákærðir. Málið er höfðað á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir brot framin á tímabilinu frá febrúar 2008 og fram í októberbyrjun sama ár, af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi, aðallega fyrir brot gegn lögum um ráðherraábyrgð, nr. 4/1963, en til vara fyrir brot gegn 141. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Þingsályktunartillögunni er skipt í tvo kafla að því er varðar alla þá einstaklinga sem hér koma við sögu og í kafla I eru talin upp fimm kæruatriði gagnvart fyrrverandi forsætisráðherra:

Fyrir að hafa sýnt af sér alvarlega vanrækslu á starfsskyldum sínum sem forsætisráðherra andspænis stórfelldri hættu sem vofði yfir íslenskum fjármálastofnunum og ríkissjóði, hættu sem honum var eða mátti vera kunnugt um og hefði getað brugðist við með því að beita sér fyrir aðgerðum, löggjöf, útgáfu almennra stjórnvaldsfyrirmæla eða töku stjórnvaldsákvarðana á grundvelli gildandi laga í því skyni að afstýra fyrirsjáanlegri hættu fyrir heill ríkisins.

Fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að hafa frumkvæði að því, annaðhvort með eigin aðgerðum eða tillögum um þær til annarra ráðherra, að innan stjórnkerfisins væri unnin heildstæð og fagleg greining á fjárhagslegri áhættu sem ríkið stóð frammi fyrir vegna hættu á fjármálaáfalli.

Fyrir að hafa vanrækt að hafa frumkvæði að virkum aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins til að draga úr stærð íslenska bankakerfisins með því til að mynda að stuðla að því að bankarnir minnkuðu efnahagsreikning sinn eða einhverjir þeirra flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi.

Fyrir að hafa ekki fylgt því eftir og fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi yfir í dótturfélag og síðan leitað leiða til að stuðla að framgangi þessa með virkri aðkomu ríkisvaldsins.

Fyrir að hafa vanrækt að gæta þess að störf og áherslur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað, sem stofnað var til á árinu 2006, væru markvissar og skiluðu tilætluðum árangri.

Þetta síðasta kæruatriði á einvörðungu við fyrrverandi forsætisráðherra.

Í II. kafla er tilgreint eitt kæruatriði og það er fyrir að hafa á framangreindu tímabili látið farast fyrir að framkvæma það sem fyrirskipað er í 17. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands um skyldu til að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni. Á þessu tímabili var lítið fjallað á ráðherrafundum um hinn yfirvofandi háska, ekki var fjallað formlega um hann á ráðherrafundum og ekkert skráð um þau efni á fundunum. Var þó sérstök ástæða til þess, einkum eftir fund hans, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, Árna M. Mathiesens og formanns bankastjórnar Seðlabankans 7. febrúar 2008, eftir fund hans og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur með bankastjórn Seðlabankans 1. apríl 2008 og í kjölfar yfirlýsingar til sænsku, dönsku og norsku seðlabankanna sem undirrituð var 15. maí 2008. Forsætisráðherra átti hvorki frumkvæði að formlegum ráðherrafundi um ástandið né gaf hann ríkisstjórninni sérstaka skýrslu um vanda bankanna eða hugsanleg áhrif hans á íslenska ríkið.

Kæruatriði í fyrra kaflanum þykja varða við b-lið 10. gr. ráðherraábyrgðarlaga en til vara við 141. gr. almennra hegningarlaga. Kæruatriðið í II. kafla þykir varða við c-lið 8. gr. laga nr. 4/1963 en til vara við 141. gr. almennra hegningarlaga.

Í öðru lagi er málið höfðað gegn Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fyrrverandi utanríkisráðherra, með sama inngangi og ég rakti varðandi fyrrverandi forsætisráðherra. Þar er ákært fyrir sömu brot en bætt við til þrautavara fyrir brot gegn 141. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga, eins og segir þar ranglega, þar á að standa 22. gr. Þrautavarakrafan snýr að hlutdeildarbroti í 141. gr. almennra hegningarlaga. Verði einhverjir aðrir ráðherrar dæmdir fyrir þessa varakröfu kemur hlutdeildarkrafan til álita, ella ekki. Þessi þrautavarakrafa á aðeins við í tilviki fyrrverandi utanríkisráðherra og fyrrverandi fjármálaráðherra. Í I. kafla kæruatriða varðandi hana eru talin upp sömu atriði og varðandi fyrrverandi forsætisráðherra, að undanskildum samráðshópnum, og orðalagið um Icesave-reikningana er örlítið annað. Þar stendur ekki „[f]yrir að hafa ekki fylgt því eftir“ heldur stendur „[f]yrir að hafa ekki fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti“. Þar er enn röng tilvísun í 20. gr. almennra hegningarlaga í þrautavarakröfunni og það verður leiðrétt milli fyrri og síðari umræðu Í II. kafla eru nákvæmlega sömu kæruatriði og varða fyrrverandi forsætisráðherra.

Í þriðja lagi er málið höfðað gegn fyrrverandi fjármálaráðherra, Árna M. Mathiesen, á sömu forsendum og ég hef rakið og þar er gerð sama þrautavarakrafa og ég lýsti varðandi fyrrverandi utanríkisráðherra. Í fyrsta liðnum eru sömu kæruatriði fyrir utan samráðshópinn en það er breyta varðandi flutning á Icesave-reikningunum. Þar er talað um að viðkomandi hafi ekki „fullvissað sig“ en ekki „fylgt eftir“ eins og var í tilviki fyrrverandi forsætisráðherra. Í II. kafla varðandi brot á 17. gr. stjórnarskrárinnar er kæruatriðið algerlega sambærilegt kæruatriði gagnvart fyrrverandi forsætisráðherra.

Í fjórða lagi er málið síðan höfðað gegn Björgvini G. Sigurðssyni, fyrrverandi viðskiptaráðherra, á sömu forsendum og ég rakti við umfjöllun mína um fyrrverandi forsætisráðherra. Í I. kafla eru sömu kæruatriði að undanskildum samráðshópnum og það er sama kæruatriði varðandi Icesave-reikningana, þ.e. fyrir að hafa „ekki fylgt því eftir og fullvissað sig um“ eins og það er orðað. Í II. kafla varðandi 17. gr. stjórnarskrárinnar varðandi fyrrverandi viðskiptaráðherra er sama kæruatriði en það er orðað örlítið öðruvísi þegar vísað er til þeirra tilvika sem átti að gefa fyrrverandi viðskiptaráðherra tilefni til að kalla saman ríkisstjórnarfund um mikilvæg stjórnarmálefni. Segir í textanum að sérstök ástæða hafi verið til þess fyrir fyrrverandi viðskiptaráðherra, „einkum í ljósi upplýsinga sem hann fékk af fundum samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað og í kjölfar fundar hans og Alistairs Darlings í London 2. september 2008“. I. kafli allra kæruliða vísar til að brotinn hafi verið b-liður 10. gr. en í II. kaflanum er það c-liður 8. gr. eins og ég hef áður rakið.

Alþingi gerir þær kröfur að fyrrnefndir ráðherrar verði dæmdir til refsingar og greiðslu sakarkostnaðar að mati landsdóms samkvæmt 46. gr. laga um landsdóm. Ég tek það fram að þessari þingsályktunartillögu fylgir ítarleg greinargerð og er vísað til hennar og 7. bindis skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um nánari rök og skýringar fyrir þingsályktunartillögu þessari.

Vík ég nú að rökstuðningi og þar mun ég einkum styðjast við mjög ítarlega greinargerð með þingsályktunartillögunni sem fylgir á 23 blaðsíðum og taka fyrir helstu áhersluatriði með meiru. Forsaga málsins er rakin í I. kafla á bls. 5–7. Ég leyfi mér að vísa til hennar. Þar er rakið að nefndin hafi frá 15. janúar haldið fjölda funda sem ég vík betur að síðar til að segja frá því hvert umfjöllunarefnið var hverju sinni. Þar er vísað til þess hvaða sérfræðingar hafi komið að málinu sem starfsmenn nefndarinnar sem leitað var til og unnu fyrir nefndina á þessum tíma. Þessum sérfræðingum, starfsfólki Alþingis og sérstaklega riturum á nefndasviði þakka ég kærlega fyrir vel unnin störf. Ég ítreka að við öll í nefndinni erum afar þakklát fyrir aðkomu þeirra og framlag þó að niðurstaða okkar hafi leitt í þrjár misvísandi áttir.

Ég ætla bara að segja hér að í þessari vinnu frá 15. janúar, á þessum 54 fundum, var hverjum einasta steini margsinnis velt við, öllum vafaatriðum svarað og þar fram eftir götunum. Ég verð líka að minna hv. þingmenn á þá þungbæru skyldu sem á okkur hvílir og er mér ekki auðveld, þvert á móti, hefur hvorki verið mér auðveld né neinum þingmanna í þingmannanefndinni. Við höfum tekið þessu sem miklu alvörumáli en í stjórnarskránni segir að Alþingi geti kært ráðherra fyrir embættisverk sín. Stjórnarskráin felur þannig Alþingi að taka afstöðu til þess hvort kalla eigi ráðherra til ábyrgðar fyrir embættisrekstur þeirra á grundvelli laga um ráðherraábyrgð, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Þetta eru skyldustörf okkar, lögbundin skylda.

Samkvæmt lögum nr. 142/2008 er það á hendi þingmannanefndarinnar að móta tillögur að viðbrögðum Alþingis við niðurstöðum skýrslu rannsóknarnefndar. Það er lögbundin skylda. Ég segi, af því að ég hef heyrt því fleygt að menn vilji vísa málinu til allsherjarnefndar: Það er lögbundin skylda að þingmannanefndin fjalli um málið.

Ég vil líka taka fram að með skipun nefndarinnar, sem fór fram 30. desember 2009, var fyrningarfrestur rofinn þannig að til skoðunar komu ráðherrar sem sátu í ríkisstjórninni frá 1. janúar 2007, ekki aðrir. Það má vera að um gáleysi hafi verið að ræða hjá ráðherrum sem sátu í ríkisstjórnum frá 1. janúar 2007, en við erum að horfa á refsiskilyrðin, stórfellt gáleysi eða ásetning, og það var mat þingmannanefndarinnar að slík refsiskilyrði og réttarfarsskilyrði hafi ekki verið fyrir hendi fyrr en eftir 7. febrúar 2008, svo að menn hafi það í huga.

Ég tel, frú forseti, fulla ástæðu til að greina frá verklagi og vinnu nefndarinnar frá 15. janúar þar til hún skilaði af sér skýrslu sinni síðasta laugardag og henni var útbýtt hér á þingi.

Strax á fyrsta fundi nefndarinnar var ákveðið að fara ítarlega yfir lagagrunninn, þ.e. lög um ráðherraábyrgð og landsdóm, kanna ítarlega bæði réttarfarsskilyrði og refsiskilyrði og leita eins ítarlega og kostur væri svara (Gripið fram í: Sannana.) með aðstoð sérfræðinga við hugsanlegum spurningum, bæði efnislegum og formlegum, sem sneru að þessum fyrrnefndu lögum, bæði varðandi öll þau gagnrýnisatriði sem hafa verið borin fram við nefnd lög eftir að skýrslan kom út og reyndar löngu áður. Ég held því að öll álitaefni sem hafa verið tekin upp eftir að skýrslan kom út hafi verið rædd í nefndinni. Ég hygg að við höfum tæmt það gjörsamlega.

Og ég verð að segja líka, að gefnu tilefni, að unnið var í samvinnu og eindrægni í nefndinni og engin ákvörðun tekin varðandi sérfræðiaðstoð og annað án þess að nefndin væri samdóma um þá leið sem við værum að feta á hverjum tíma. Það var bara þannig.

Skemmst er frá því að segja að eftir ítarlega umfjöllun þingmannanefndarinnar, með aðstoð fjölda sérfræðinga, sem aðallega áttu við okkur munnleg viðtöl, og þar til skýrsla nefndarinnar var birt 12. apríl, var það niðurstaða nefndarinnar að leggja til grundvallar við vinnu þingmannanefndar gildandi lagaramma um ráðherraábyrgð og landsdóm. Það varð niðurstaða nefndarinnar að breyta ekki lögum, ekki var talið tilefni til lagabreytinga. Og ég hygg að nefndin hafi verið samhljóða um það.

Vel að merkja, þessi skoðun á réttarfarsskilyrðum og refsiskilyrðum varð mun ítarlegri og farið var mun dýpra í saumana vegna þess að nefndinni gafst aukalega tveggja mánaða ráðrúm. Skýrsla rannsóknarnefndarinnar átti að liggja fyrir 8. febrúar 2010 en lá ekki fyrir fyrr en 12. apríl. Við nýttum þann tíma afar vel, m.a. með samningu verklagsreglna sem hér hafa verið gerðar að umræðuefni. Við fórum ítarlega yfir það. Okkur gafst færi á að leita til fleiri sérfræðinga og kalla þá á fundi nefndarinnar um helstu álitsefni. Og ég minni á að verklagsreglurnar voru samþykktar í mars eftir ítarlegar umræður og birtar, þar var talað um trúnað.

Eftir útgáfu skýrslu rannsóknarnefndarinnar 12. apríl, þegar niðurstöður hennar um vanrækslu þriggja fyrrverandi ráðherra, í skilningi laga nr. 142/2008, lágu fyrir, var enn og ítrekað fjallað um hugsanlega refsiábyrgð í skilningi ráðherraábyrgðarlaganna. Voru sérfræðingar kallaðir á fundi nefndarinnar og þau gáfu henni munnleg álit og svöruðu spurningum.

Í maí 2010 var komið í ljós, í ljósi alvarlegrar háttsemi, sem lýst er í skýrslu rannsóknarnefndarinnar, og með hliðsjón af niðurstöðu skýrslunnar um vanrækslu, að fullt tilefni væri til að draga þá ályktun að ráðherraábyrgð kynni að vera fyrir hendi. Nefndin tók ekki afstöðu — en að hún kynni að vera fyrir hendi.

Nefndin ræddi þessar niðurstöður ítarlega og samþykkti síðan samhljóða að leita til fjögurra sérfræðinga um minnispunkta. Það var samdóma álit um það í nefndinni hverjir það skyldu vera. Einnig var öllum ráðherrum sem höfðu átt sæti í ríkisstjórn frá 1. janúar 2007 skrifað bréf — ég vík að því síðar — og gefinn kostur á að tjá sig, m.a. um það, þessum fjórum einstaklingum sem hér um ræðir, að þingmannanefndin væri að skoða hugsanlega ráðherraábyrgð. Þeir vissu það fyrir fram og var vísað sérstaklega til gagna þar að lútandi.

Þegar þessi fjögur álit voru lögð fram um miðjan júní varð niðurstaðan sú að þrír sérfræðingar töldu réttarfarsskilyrðum og refsiskilyrðum ráðherraábyrgðarlaga og landsdómslaga fullnægt. Einn þeirra hafði miklar efasemdir um það og það var í ljósi þess að beint orsakasamhengi hafði ekki verið milli vanrækslu í skilningi rannsóknarnefndarinnar og þess fjármálaástands sem var. Ég vík að því síðar, þessari niðurstöðu, fjalla um hana síðar.

Til stóð að taka afstöðu til ráðherraábyrgðarinnar í júní að beiðni ákveðinna fulltrúa í nefndinni. En það kom fram tillaga um að því yrði frestað og nefndin var sammála um það og að leitað yrði til þriggja sérfræðinga um að semja drög að þingsályktunartillögum þannig að fyrir nefndinni lægju kæruatriði, kröfugerð og rökstuðningur og við gætum séð fyrir okkur á blaði hvernig þessu væri stillt upp. Þessi drög voru unnin af sérfræðingum í júlí/ágúst og lögð fyrir nefndina 17. ágúst 2010. Fundað var í framhaldinu með sérfræðingum. Enn fór svo að hluti nefndarmanna treysti sér ekki til að taka endanlega afstöðu til málsins og óskaði eftir áliti nýs sérfræðings sem fékk í hendur fyrra álit og drögin að þingsályktunartillögunni. Ég féllst fúslega á það. Ég vildi velta öllum steinum aftur og aftur. Og ég vil líka taka fram að allar tillögur um þá sérfræðinga sem komu til greina á þessum tíma voru teknar til greina, en það varð úr — ég benti m.a. á að kannski væri ástæða til að taka þann sérfræðing sem hafði verið mótfallinn þessu — ég lagði fram þá hugmynd. Ekki varð úr því heldur var kallaður til fimmti sérfræðingurinn.

Ég ítreka það að nefndarmenn höfðu frjálst val til að kalla til þá sérfræðinga sem þeir vildu. Ég stóð ekki í vegi fyrir neinum óskum þar að lútandi, þvert á móti. Ég lá stundum undir ámæli fyrir það að ganga of langt í að verða við óskum sumra, úr báðum áttum. Ég tók allar ábendingar til greina.

Skemmst er frá því að segja að þessi síðastnefndi sérfræðingur féllst á að réttarfarsskilyrði og refsiskilyrði væru til staðar, að þeim skilyrðum væri fullnægt. Hann gerði hins vegar fyrirvara við skýrleika kæruaðferðar, að hann yrði skýrður, bæði hvað varðaði meint brot á b-lið 10. gr. og meint brot á c-lið 8. gr. varðandi stjórnarskrána. Hann setti ekki bara fram gagnrýni á það heldur gerði tillögur til úrbóta. Að þeim breytingum gerðum sagði sérfræðingurinn að þingsályktunartillagan stæðist fyllilega. Við þeim athugasemdum var brugðist og leiðréttingar gerðar á upphaflegum drögum að þingsályktunartillögunni, viðeigandi breytingar á fyrri tillögu. Fjórir af fimm sérfræðingum sem nefndin leitaði til töldu það sem komið var fram í málinu nægilegt og líklegt til sakfellis og þeir töldu að réttarfarsskilyrðum og refsiskilyrðum væri fullnægt. Einn af þessum fimm sérfræðingum var ósammála hinum og ég mun víkja betur að áliti hans síðar. Álit hans vék eingöngu að b-lið 10. gr.

Vel að merkja, þetta var sérfræðiráðgjöfin og allir sérfræðingarnir tóku fram að þetta væri ráðgjöf, endanleg ákvörðun væri í valdi þingmannanefndarinnar. Þann kaleik gátu þeir ekki tekið af þingmannanefndinni og það er hárrétt. Það er þingmannanefndarinnar að taka hina endanlegu afstöðu, auðvitað með hliðsjón af ráðgjöfinni. Það var ekki sérfræðinganna að taka ákvörðunina.

Það hafa fimm af níu nefndarmönnum gert varðandi fjóra ráðherra og tveir varðandi þrjá ráðherra. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í nefndinni skiluðu, ég má segja auðu. Þeir tóku hvorki afstöðu með niðurstöðu rannsóknarnefndar um vanrækslu eða á móti og þeir fóru ekki millileið, a.m.k. ekki með formlegu áliti þar að lútandi. En ég hygg að öllum þeim sjónarmiðum sem Sjálfstæðisflokkurinn setti fram í nefndinni og hafa komið fram síðar sé svarað í þessari greinargerð og ég mun víkja að því í ræðu minni og síðan í lokaræðu og e.t.v. í andsvörum.

Að lokum um verklag þingmannanefndarinnar. Ég segi að flutningsmenn þingsályktunartillögunnar hefðu aldrei staðið að ályktun um málshöfðun gegn fyrrverandi ráðherrum ef álit sérfræðinganna hefðu verið misvísandi með þeim hætti að 2–3 hefðu verið með eða á móti. Aldrei.

Ég verð líka að segja að við þessa vinnu byggi ég á reynslu minni. Ég var á sínum tíma, í kringum árið 1990, saksóknari í mjög stórum og erfiðum sakamálum varðandi fjármálafyrirtækið Ávöxtun, fyrirtækið Þýzk-íslenzka og Tögg þar sem ég var sérstakur saksóknari í málinu. Þannig að ég hef einhverja þekkingu sjálfur á þessu og byggði á henni við þetta mál.

Ég hef lokið máli mínu um verklag nefndarinnar og vinnulag og vil ítreka að um málsmeðferðina varð aldrei ágreiningur innan nefndarinnar. Það var alltaf komist að málefnalegri niðurstöðu í sáttinni. Þannig var hinn rauði þráður vinnunnar.

Næst vil ég víkja að greinargerðinni á bls. 6–24. Fyrst er þar til að taka á bls. 6 sem er skýrsla rannsóknarnefndarinnar og tengsl hennar við ákvörðun um málshöfðun. Ég verð að segja það hér að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er ítarleg, markviss og afgerandi og í niðurstöðum hennar hefur verið tekið tillit til andmæla þeirra sem flutningsmenn leggja til að ákærðir verði. Það er óhjákvæmilegt, samanber 13. gr. laga um landsdóm, að taka ákvörðun um málshöfðun á hendur ráðherra eða ráðherrum á grundvelli þeirrar greinar og þess sem segir í skýrslu RNA og þeirra gagna sem þingmannanefndin hefur aflað og reka síðan sakamál á grundvelli réttarfarsákvæða landsdómslaganna.

Ég vil ítreka það, og það er meginreglan sem menn verða að hafa í huga í þessum reglum, að sönnunarfærslan fer fram fyrir dóminum, þar eru réttindin tryggð. Sönnunarfærsla fer ekki fram í yfirheyrslu fyrir lögreglunni eða í hugsanlegum bréfaskriftum eða yfirheyrslum fyrir þingmannanefnd. Nei, sönnunarfærslan fer fram fyrir dómi, þar eru réttindi og skyldur sakborninga tryggð í hvívetna.

Eins og kunnugt er komst rannsóknarnefndin að þeirri niðurstöðu að þrír þessara einstaklinga hefðu sýnt af sér vanrækslu. Ég verð hins vegar að segja að það er algjörlega ljóst að við umfjöllun um hugsanlega refsiábyrgð verður að byggja sjálfstætt á reglum refsiréttar við úrvinnslu og niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar um vanrækslu. Auk þess skiptir aðgreining málefnasviðs minna máli þegar refsiábyrgð er ákvörðuð. Ég verð líka að geta þess hér, og það kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar, að rannsóknarnefndin hafði hliðsjón af hátternisreglum ráðherraábyrgðarlaga þegar hún mat ábyrgð. Um skilyrði refsiábyrgðar, sem fjallað er um í 3. kafla á bls. 7–9, vísa ég í greinargerðina um almenn refsiskilyrði refsiábyrgðar á bls. 7 í kafla 3.2, um flokkun embættisbrota í lögum er fjallað á bls. 7. Lögin um ráðherraábyrgð eru sérlög á sviði refsiréttar rétt eins og landsdómslögin eru sérlög og ganga framar sem slík öðrum lögum.

Það var álit einhverra sérfræðinga sem við leituðum til að sú lagasmíð — okkar færasti stjórnskipunarfræðingur á 20. öldinni, Ólafur Jóhannesson, fyrrverandi ráðherra, þingmaður og prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, taldi þessi sérlög umfram mörg önnur sérlög mjög vönduð að allri gerð, ítarleg og með sjálfstæðar verknaðarlýsingar á háttsemi. Og ábyrgðin tekur bæði til athafna og vanrækslu — brota framinna af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi. Og verknaðarlýsingin er þrenns konar og það er útfært í 8.–10. gr. laganna. Það er brot á stjórnarskránni skv. 8.–10. gr. sem er formbrot, það að halda ekki fund ef tilefni er til og kallast samhverft brot, ég vík að því síðar. Síðan brot á 10. gr. að stofna hagsmunum ríkisins í fyrirsjáanlega hættu, það er svokallað hættubrot.

Í kafla 3.3 eru verknaðarlýsingar laga nr. 4/1963 og hlutræn refsiskilyrði nefnd. Það má ráða af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að það séu fyrst og fremst athafnaleysisbrot (vanrækslubrot) sem komi til skoðunar varðandi hugsanlega refsiábyrgð fyrrverandi ráðherra. Athafnaleysi (aðgerðaleysi, vanræksla, trassaskapur) birtist í margvíslegu formi og á ýmsum stigum. Í ráðherraábyrgðarlögum skipar athafnaleysi jafnháan sess og athafnir. Í 141. gr. hegningarlaga er lögð refsiábyrgð við háttsemi sem einkennist fyrst og fremst af athafnaleysi en kann þó að vera sambland af athöfnum og athafnaleysi.

Það er sem sé byggt á ákvæðum c-liðar 8. gr. og b-lið 10. gr.

Það hefur verið gagnrýnt að 10. gr. fullnægi ekki skilyrðum um nákvæmni verknaðarlýsingar. Sú gagnrýni beinist eingöngu að a-lið 10. gr. Róbert Spanó prófessor færir í góðri grein fullnægjandi og mjög þétt rök að því. Skýrleiki c-liðar 8. gr. og b-liðar 10. gr. sem hér eru til umfjöllunar er hafinn yfir vafa. Enginn sérfræðingur eða fræðimaður sem ég hef lesið eða skoðað eða komið hefur á fund nefndarinnar heldur öðru fram.

Ég bið þingheim að leggja eyrun vel við einu aðalatriði. Í refsirétti er um að ræða þrjá meginflokka afbrota eftir því hvenær brot telst fullframið, hvenær refsiskilyrðin eru komin. Þar er talað um tjónsbrot, hættubrot og samhverf brot. Í stuttu máli felst munurinn í því að við tjónsbrot þarf að sýna fram á að verknaðurinn hafi haft í för með sér tilteknar afleiðingar, tjón, t.d. eignaspjöll eða fjársvik. Við hættubrot er ekki lögð áhersla á afleiðingar verknaðar heldur hættueiginleika hans. Tjón þarf ekki að hafa orðið að verknaði heldur nægilegt að sýna fram á að við tiltekinni hættu er ekki brugðist af ásetningi eða gáleysi eftir því hvað lög áskilja. Með samhverfu broti er verknaður lýstur refsiverður án tillits til afleiðinga eða hættueiginleika, öll áhersla liggur á verknaðinum sjálfum. Bein athafnaleysisbrot eru því samhverf brot.

Dæmigert hættubrot er of hraður akstur, að keyra yfir lögmæltum hámarkshraða. Í því broti breytir engu hvort tjón hlýst af slíkri háttsemi eða ekki. Í samhverfu broti felst að brugðist er þeim skyldum sem lagðar eru á menn, þ.e. hin formlega skylda var að boða til ríkisstjórnarfunda um mikilvæg stjórnarmálefni og það eitt að gera það ekki, burt séð frá því hvort hætta sé fyrir hendi eða ekki, er samhverft brot.

Refsiverð háttsemi felst jafnt í athöfnum sem athafnaleysi, og þeim er í ráðherraábyrgðarlögum lýst ýmist sem samhverfum brotum eða hættubrotum. Umræddir stafliðir í 8. og 9. gr. lýsa beinum athafnaleysisbrotum, þ.e. samhverfum brotum, en 10. gr. hættubrotum. Til þess að slíkt hættubrot teljist framið er skilyrði, þ.e. vitneskjan, það þarf að sýna fram á eftirtalin atriði:

a. tilvist hættunnar, að hættan sé fyrir hendi,

b. að hættan hafi verið fyrirsjáanleg frá almennu sjónarmiði, þ.e. fyrir fram sýnileg af manni í sporum ráðherra, óháð því hvort hlutaðeigandi ráðherra hefur í raun gert sér grein fyrir hættunni eða ekki,

c. að hlutaðeigandi ráðherra hafi haft vitund um hættuna. Þessi vitund er ekki bara „vissi“ í refsirétti, heldur hvað hann „mátti vita“ ef hann aflaði sér upplýsinga. Það verður ekki til refsileysis að halda frá sér upplýsingum, að maður mæti ekki á stjórnarfund eða eitthvað slíkt. Stjórnarmenn bera ábyrgð. Það að gera ekki neitt veldur ábyrgð,

d. að ráðherrann hafi ekki brugðist við hættunni þótt honum hefði verið það unnt.

Séu öll þessi fjögur skilyrði fyrir hendi er um ásetningsbrot að ræða, ella stórkostlegt gáleysi.

Það að halda ekki ríkisstjórnarfund er brot þegar ljóst var að það var mikilvægt tilefni til eins og ég rakti þegar ég las upp ákæruliðina, þau tilvik sem komu upp. Þar með er brotið fullframið.

Kem ég nú að því sem einn sérfræðinganna sagði og vísaði í bls. 288 í 7. bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Hann ætlaði að flestir gætu fallist á undirstrikaða fullyrðingu, m.a. með hliðsjón af henni hefði hann miklar efasemdir um að réttmætt væri að ákæra ráðherra. Setningin sem vísað er til og strikað er undir er svohljóðandi í skýrslunni, með leyfi frú forseta:

„Hvorki rannsóknarnefndin né aðrir aðilar geta fullyrt um að beint orsakasamhengi sé á milli vanrækslu um slík atriði og þess fjármálaáfalls sem hér varð haustið 2008 né slegið því föstu hver innbyrðis þýðing hinna samverkandi þátta sem leiddu til þess hafi verið.“

Reyndar hef ég ekki lesið fyrri tilvísunina þar sem rannsóknarnefndin lýsir öðrum sjónarmiðum, þetta er svolítið slitið úr samhengi þarna. Þarna vísar sérfræðingurinn til hættubrota, hann er ekki að tala um samhverf brot.

Ég vil líka nefna það sem kemur fram í ábendingum Þórðar Björnssonar, fyrrverandi ríkissaksóknara, sem hann reit í tilefni af 25 ára afmæli ríkisskattstjóra. Hann segir að ákæruvaldið geti gert rétt í því að höfða mál ef það telur nauðsynlegt vegna almannahagsmuna að bera undir dómsmál álitaefni í refsilöggjöf eða réttarfari þó að sýkna manns geti eins verið sennileg og sakfelling.

Ég verð líka að vísa til ummæla Ólafs Jóhannessonar um ráðherraábyrgðina. Af hverju notum við ekki bara 141. gr. almennra hegningarlaga um vanrækslu?

Ólafur segir í greinargerð með ráðherraábyrgðarlögunum, með leyfi frú forseta:

„Sýnist því þrátt fyrir allt vera þörf á sérstökum ráðherraábyrgðarlögum, þar sem hegning er lögð við þeim brotum, sem óttast má af ráðherra sérstaklega og ákvæði almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi ná ekki til.“

Svo mörg voru þau orð Ólafs.

Ég vil segja varðandi tjónið að það blasir við að tjón hafi orðið. Hvernig er með Icesave í Hollandi sem opnað var eftir miðjan maí? Hvernig var með stórfelldar úttektir eigenda úr bönkunum í formi lána sumarið 2008? Hvernig er með peningamarkaðsreikningana? Ég spyr: Af hverju voru bönkunum ekki skipaðir tilsjónarmenn í febrúar? Þá hefðum við komið í veg fyrir helftina af því tjóni sem helltist yfir ríkissjóð.

Í kafla 3.4 á bls. 9 er gerður samanburður á hegningarlagaákvæðum og í kafla 3.5 er fjallað um saknæmisskilyrði, þ.e. um ásetning eða stórkostlegt hirðuleysi. Til ásetnings telst ekki aðeins vitneskja um aðstæður, aðsteðjandi hættu eða hættulegar aðstæður, heldur og ef ráðherra telur víst að hættan sé fyrir hendi eða hann býst ákveðið við því og loks ef hann álítur að hættan kunni að vera fyrir hendi en hann hafi engu að síður framkvæmt verknað eða haldið að sér höndum andstætt starfsskyldu sinni. Þessi lýsing miðast við samhverf brot eða hættubrot og þau eru þarna uppfyllt fullkomlega.

Í 4. kafla er fjallað um réttarfarsatriði í landsdómi og vísað í 145. gr. laga um meðferð sakamála um skyldur ákæranda þegar hann hefur fengið gögn máls í hendur og metur hvort það sem fram sé komið sé nægjanlegt og líklegt til sakfellis. Sé svo er skylt að ákæra. Sérfræðingar okkar fjórir töldu þessu efnislega skilyrði fullnægt.

Þessi saksóknarregla er auðvitað matskennd, og forsögn um líkur á sakfellingu í dómi er sérstaklega óviss þegar um sjaldgæf eða óvenjuleg sakarefni er að ræða eins og hér um háttar. Sérfræðingarnir benda líka á almannahagsmunina sem ég rakti eftir Ólaf Jóhannesson en sérfræðingarnir bentu líka á annað atriði, þessa einstaklingsbundnu hagsmuni, það að fá úrlausn mála sinna og endanlega afstöðu fyrir dómi, (Gripið fram í.) það að vera hreinsaðir fyrir dómi eða ekki, (BÁ: Megum við sjá …?) þeir nefndu það. Ég bið hv. þingmann að leyfa mér að klára þessa ræðu, ég hef mjög knappan tíma en ég mun svara í andsvörum og taka þátt í umræðunni.

Enn er vísað í 109.–112. gr. um sönnunarfærslu fyrir dómi.

Það álitaefni hefur auðvitað komið upp að ráðherrar haldi fram að þeir hafi ekki fengið réttarstöðu grunaðs vegna þess að þingmannanefndin hefur ekki haft heimildir til yfirheyrslu. Ákvörðun um að sækja ráðherra til sakar eða ekki byggist því á því sem kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar, athugasemdum ráðherra til nefndarinnar, samanber bréf til þeirra. Enda þótt þeir hafi notið andmælaréttar verður því ekki jafnað til formlegrar yfirheyrslu en ákvæði landsdómslaga koma beinlínis í veg fyrir að 145. gr. laga um meðferð sakamála geti gilt um þetta.

Hvað sögðu sérfræðingarnir okkar? Framangreind tilhögun í þessum sérlögum brýtur ekki gegn grundvallarmannréttindum, m.a. um sakleysi grunaðs manns uns sekt hans er sönnuð, og þar vísa þeir til 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Aðalatriðið er að dómur landsdóms er reistur á sönnunargögnum sem eru færð fram við meðferð málsins. Þessi háttur er í samræmi við meginreglu í 111. gr. laga um meðferð sakamála.

Ég verð að segja hér varðandi þetta líka að í landsdómslögunum er gert ráð fyrir því, ef þessi þingsályktunartillaga verður samþykkt, að öflun sönnunargagna fari fram af hálfu sérstaks saksóknara Alþingis, þar með vitnaleiðslur og annað í þeim dúr. Til aðstoðar saksóknaranum er sérstök fimm manna þingmannanefnd. Komi fram við þessa rannsókn málsins áður en málið er þingfest fyrir landsdómi að einhverjum kæruatriðum er ofaukið eða hreinlega einhverjum ákærða er ofaukið er þessari fimm manna þingmannanefnd í lófa lagið að leggja fram nýja þingsályktunartillögu. Ég minni líka á að það er tekið sérstaklega fram í 30. gr. landsdómslaganna að gefið skuli út sérstakt ákæruskjal eftir að þessari sönnunaröflun sérstaks saksóknara verður lokið. Þar leggur hann m.a. fram nafnaskrá þeirra sem leiða á fyrir og þar er gert ráð fyrir að sérstakur saksóknari geti verið með yfirheyrslur áður en ákæruskjalið er gefið út. Og vel að merkja, landsdómur sker úr öllum vafa- og ágreiningsefnum. Ég vil minna á það sem ég sagði áðan, öllum ráðherrum var sent bréf. Þau voru eins til þeirra þriggja ráðherra sem voru taldir berir að vanrækslu og þar er vísað til þess.

Síðan segir í bréfinu, með leyfi frú forseta:

„Við mat á ráðherraábyrgð er þingmannanefndin ekki bundin af niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar. Þingmannanefndin vill með bréfi þessu gefa yður kost á að senda nefndinni athugasemdir …“

Það er líka vakin athygli á því að svarið verði lagt til grundvallar niðurstöðu nefndarinnar. Þetta voru samhljóða bréf og allra réttinda gætt. Bréfið til Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur liggur líka fyrir en það er aðeins öðruvísi orðað, en að meginefni til er henni gefinn kostur á að tjá sig um það atriði að þingmannanefndin sé að meta hugsanlega ráðherraábyrgð. Það er auðvitað eitt sem kemur til viðbótar en ég tel að réttinda þessara einstaklinga hafi verið í fullu gætt og verði að fullu gætt fyrir landsdómi. Sérfræðingarnir eru sammála um það. Ég hef líka leitað víða fanga um það og, vel að merkja, þetta var rætt fram og til baka í janúar, febrúar og mars og þetta varð niðurstaða þingmannanefndarinnar eftir ítarlega skoðun.

Auðvitað þarf þessi þingsályktunartillaga að fullnægja öllum reglum um skýrleika, fyrir hvaða brot mál er höfðað, hvenær það var framið og annað slíkt og sakarefni þarf að vera afmarkað og skilgreint. Eftir ábendingar síðasta sérfræðingsins teljum við flutningsmenn ákæruna eða þingsályktunartillöguna standast fullkomlega. Það var mat fjögurra sérfræðinga. Sá fimmti hefur ekki fjallað um þetta mál.

Það hefur líka verið gagnrýnt að landsdómur fjallaði um málið aðeins á einu dómstigi. Auðvitað var leitað svara við þessari spurningu og öllum steinum velt. Hver varð niðurstaðan? Jú, í 2. gr. samningsviðauka nr. 7 frá 23. nóvember 1984 við mannréttindasáttmála Evrópu er fjallað um þau mannréttindi að eiga rétt til að áfrýja sakfellingardómi til æðri dóms. Í þessum ákvæðum eru gerðar tvær undantekningar. Aðra hefur hv. þm. Ögmundur Jónasson gagnrýnt, að minni háttar mál sem dæmd eru í undirrétti njóti ekki áfrýjunarréttar. Síðan segir að það sé hægt að undanskilja þessa reglu þegar æðsti dómur fjallar um mál viðkomandi manns. Svo háttar hér um landsdóm. Samsetning hans styður þá niðurstöðu að ákvæði hans standist fyllilega gagnvart mannréttindareglum.

Ég verð að minna á það að Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um þessi álitaefni í dómi í máli Eriks Ninn-Hansens, fyrrverandi dómsmálaráðherra sem dæmdur var í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi með dómi danska ríkisréttarins 22. júní 1995. Mannréttindadómstóll Evrópu gerði engar athugasemdir við tilhögunina.

Í 5. og 6. kafla greinargerðarinnar er fjallað um helstu niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis varðandi embættisfærslur ráðherra. Meðflutningsmenn mínir munu gera grein fyrir þessum þáttum málsins. Í þessum köflum er ítrekað vísað til skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og tilfærð atriði í gæsalöppum trekk í trekk sem kæruatriðin byggja á. Þau eru nákvæmlega tilgreind, t.d. um vísbendingar um þær hættur sem vofðu yfir. Það er vísbending eftir vísbendingu um staðreyndir sem hrönnuðust upp í byrjun árs 2008 og síðar. Fundurinn 7. febrúar, fimm önnur skilgreind atriði um hættumerki. Áhlaup á Landsbankann. Alvarlegar ábendingar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, frá matsfyrirtækjum, erlendum seðlabönkum um að íslensku bankarnir væru orðnir allt of stórir. Alvarlegar ábendingar um að það yrði að fara fram mat og greining á stöðunni. Alvarlegar ábendingar um eitt og annað, m.a. skipaði fyrrverandi viðskiptaráðherra nýja stjórn í Fjármálaeftirlitið í febrúar 2008 — og hvert skyldi hafa verið helsta hlutverk formannsins? Jú, að flytja Icesave-reikningana í sjálfstæð útibú erlendis. Ekkert var að gert. Bönkunum var bara treyst fyrir því og þeir höfðu engra sérstakra hagsmuna að gæta þar. Um þetta munu aðrir þingmenn fjalla.

Ég vil að lokum segja um málsbætur hæstv. viðskiptaráðherra sem ég viðurkenni að séu fyrir hendi að þær koma til skoðunar við refsiákvörðun, við mat á refsingu, ekki við ákvörðun um hvort höfða skuli ákæru.

Ég ætla líka að segja að þetta er erfiðasta og dapurlegasta verk sem ég hef farið í og mesti kaleikur minn um ævina og hef þó ýmsa fjöru sopið í ákærumálum. Ég hef unnið þetta skyldustarf af heiðarleika og bestu samvisku og vænti þess að meðnefndarmenn mínir í nefndinni geti staðfest það.

Við flutningsmenn áskiljum okkur rétt til að leiðrétta ákæruna og hugsanlega bæta við nýjum ákæruliðum.

Það er von mín, frú forseti, að umræða um þingsályktunartillögu þessa verði málefnaleg og hreinskiptin, rétt eins og umfjöllun um skýrslu okkar var hér á þingi í vikunni, að við föllum ekki í gryfju klækjastjórnmála, í pólitískar skotgrafir og gerum þetta í umræðustíl eða föllum í þær gryfjur sem vinnuhópur um siðferði gagnrýnir svo mjög. Þetta er önnur prófraun á Alþingi eftir að skýrslan kom út og virðing Alþingis er í húfi.

Frú forseti. Ég legg að lokum til að þingsályktunartillögu þessari verði vísað til þingmannanefndarinnar milli fyrri og síðari umræðu eins og sérlög um nefndina áskilja og reyndar einnig þingsköp og áratugahefð um það að þingnefnd sem hefur haft mál til umfjöllunar fylgi því á enda en geti leitað umsagnar annarra nefnda. (Forseti hringir.) Annað felur að mínu mati í sér vantraust á störf þingmannanefndarinnar.