138. löggjafarþing — 162. fundur,  17. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:49]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa því hér yfir að ég mun ekki styðja þá tillögu sem hv. þingmaður mælti fyrir. En mig langar til að spyrja hann nokkurra spurninga. Í fyrsta lagi langar mig til að spyrja hann hvort komið hafi til álita að gera tillögu um að ákæra fleiri ráðherra í ríkisstjórn Íslands en þá sem eru tilteknir í þingsályktunartillögunni. Ég tek eftir því að þingmannanefndin telur sig ekki bundna af niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis, hún leggur t.d. til að þrír af þeim ráðherrum sem sátu í ráðherranefnd um ríkisfjármál verði ákærðir, og mig langar að spyrja hv. þingmann hvort komið hafi til álita að ákæra fleiri. Og ef ekki, hvers vegna?

Í öðru lagi langar mig, vegna þeirra alvarlegu athugasemda sem fram hafa komið, m.a. frá formanni Lögmannafélagsins, formanni Lögfræðingafélagsins og fjölmörgum sérfræðingum á sviði lögfræði, að spyrja hvort hv. þingmaður telji að meðferð þessa máls sé í samræmi við mannréttindareglur, (Forseti hringir.) meginreglur sakamálaréttarfars og reglur um réttmæta málsmeðferð. Mig langar að spyrja af hverju þeir einstaklingar sem lagt er til að ákærðir verði hafi ekki verið kallaðir fyrir þingmannanefndina áður en ákvörðun var tekin um að leggja til að þeir yrðu ákærðir.