138. löggjafarþing — 162. fundur,  17. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:51]
Horfa

Flm. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir fyrirspurnina. Hann ætlaði að koma að fjórum spurningum en náði tveimur og ég skal svara þeim. Álitaefni um að ákæra fleiri — jú, því var eins og öðru velt við og ég skýrði það í ræðu minni, því var velt við. Við töldum að svo kynni að vera að fleiri ráðherrar sem sátu í ríkisstjórninni frá 1. janúar hefðu orðið berir að gáleysi. En við komumst ekki yfir það, refsiskilyrðið er stórkostlegt gáleysi eða ásetningur og það var mat skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að svo væri ekki, það var mat sérfræðinga sem við töluðum við og það var mat nefndarinnar. En þetta kom til tals eins og svo fjölmargt annað.

Ég rökstuddi það í ræðu minni, og við höfum leitað til sérfræðinga um það og leitað munnlegra álita á því, að ég er sannfærður um að þessi málsmeðferð (Forseti hringir.) stenst fullkomlega mannréttindi.