138. löggjafarþing — 162. fundur,  17. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru ótal atriði í ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar sem ég mundi vilja gera athugasemdir við, en fyrst verð ég að segja að eins og okkur suma hér í þessum þingsal grunaði byggði ræða hv. þm. Atla Gíslasonar meira og minna á tilvísun til sérfræðinga, til þess hvað sérfræðingar hefðu sagt og hvað tiltekinn fjöldi sérfræðinga hefði sagt nefndinni og hvað þeir hefðu sagt í minnisblöðum. Hann jafnvel vitnaði orðrétt í texta frá sérfræðingi. En þrátt fyrir að undanfarna daga hafi komið fram ábendingar um það hafa aðrir þingmenn ekki haft aðgang að þessum sjónarmiðum sérfræðinga. Þess vegna legg ég til, og beini því ekkert sérstaklega til hv. þm. Atla Gíslasonar heldur til forseta, að einmitt út af þessu, út af því að tilvísun til ótilgreindra sérfræðinga var þungamiðjan í röksemdafærslu hv. þm. Atla Gíslasonar, að ekki er hægt að halda þessari umræðu áfram (Forseti hringir.) fyrr en opnað hefur verið fyrir aðgang að öllum þessum upplýsingum.