138. löggjafarþing — 162. fundur,  17. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:58]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í þessu andsvari beina sjónum mínum sérstaklega að atriðum gegn fyrrverandi utanríkisráðherra. Ég geri það af ákveðnu tilefni, sem er það að þar er í grundvallaratriðum vikið frá niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis, sem komst að þveröfugri niðurstöðu, miðað við þingmannanefndina, um refsiábyrgð viðkomandi ráðherra. Mér finnst þetta atriði skipta máli því að þetta kallar á sérstaka skoðun af hálfu okkar sem berum þann kross sem ákæruvaldið er í málinu.

Nefnd eru fjögur efnisleg ákæruatriði í þessu samhengi. Í rökstuðningi meiri hluta nefndarinnar er vísað í starfsskyldur fyrrverandi utanríkisráðherra og starfsskyldur viðkomandi aðila sem oddvita Samfylkingarinnar í ríkisstjórn. Ég vil því spyrja hv. þm. Atla Gíslason: Hvar er í lögum fjallað um starfsskyldur oddvita stjórnarflokka í ríkisstjórnarsamstarfi? Það er nefnilega okkar verkefni að fylgja lögum og kveða á um hvort lög um (Forseti hringir.) ráðherraábyrgð hafi verið brotin.