138. löggjafarþing — 162. fundur,  17. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:00]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég er að sjálfsögðu ekki ánægður með það. Ég tel að það sé mikilvægt að menn vísi skýrt í lög þegar kveðið er á um starfsskyldur oddvita stjórnarflokka í svo alvarlegu máli sem þessu.

Hv. þingmaður nefndi þá yfirlýsingu sem nokkrir ráðherrar undirrituðu til norrænu seðlabankanna 15. maí 2008. Sú yfirlýsing er mikilvæg og þar er einmitt kveðið á um að forsenda fyrir lánafyrirgreiðslu til Íslands sé að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir tilteknum aðgerðum. Ég veit ekki betur en þessar aðgerðir hafi allar verið á verksviðum annarra ráðherra en utanríkisráðherra. Þar fjöllum við um stækkun gjaldeyrisvaraforðans, um að minnka efnahagsreikning bankanna, gera breytingar á lögum um Íbúðalánasjóð o.s.frv. Því spyr ég: Hver eru rök meiri hluta nefndarinnar fyrir því að þessi undirritun hafi verið embættisverk utanríkisráðherra en ekki pólitísk forusta (Forseti hringir.) í ljósi þess að um var að ræða oddvita annars stjórnarflokksins?