138. löggjafarþing — 162. fundur,  17. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:02]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við sem störfum saman í þingmannanefndinni höfum hingað til reynt að bera virðingu fyrir skoðunum hver annars og því að við séum ekki öll sammála. Þess vegna verð ég að koma upp og það hryggir mig að þurfa að gera það og gera athugasemd við þá nálgun formanns nefndarinnar að þingmenn Sjálfstæðisflokksins í nefndinni hafi skilað auðu í þessu máli. Hv. þingmaður talaði um að við skyldum ekki leggjast í pólitískar skotgrafir í þessu máli og síðan er línan lögð. Ég geri miklar athugasemdir við það. Það er sérkennilegt að halda því fram að það sé að skila auðu að hafa ekki sannfæringu fyrir því að leggja fram þingsályktunartillögu þar sem því er haldið fram að fyrrverandi ráðherra þjóðarinnar hafi framið afbrot af ásetningi eða stórfelldu hirðuleysi þar sem beri að koma fram refsingu. Ég geri miklar athugasemdir við þennan málflutning og hugsanlega ætti hv. formaður nefndarinnar að biðjast afsökunar á þessu.