138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:01]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlýt að gera kröfu til þess að hv. þingmaður svari spurningu minni, það hlýtur að vera hægt að upplýsa það hér fyrir þinginu hvaða ráðherrar það voru sem komu sérstaklega til skoðunar í þingmannanefndinni. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

Mig langar síðan að spyrja hv. þingmann annarrar spurningar. Það kemur fram í máli hennar að hún og félagi hennar, hv. þm. Magnús Orri Schram, telji að rétt sé að hlífa fyrrverandi hæstv. viðskiptaráðherra Björgvini G. Sigurðssyni fyrir ráðherraábyrgð og láta hann njóta vafans við mat á því hvort hann skuli sæta ákæru eða ekki með vísan til 108 gr. laganna um meðferð sakamála.

Kom ekki til álita að aðrir hæstv. fyrrverandi ráðherrar nytu sama vafa og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, sem bar þó óumdeilanlega (Forseti hringir.) stjórnskipulega ábyrgð á málefnum bankanna samkvæmt reglugerðum um Stjórnarráð Íslands? Það gerðu t.d. fyrrverandi hæstv. ráðherrar Árni M. Mathiesen og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ekki? Hvernig samræmist það (Forseti hringir.) sjónarmiðum um jafnræði að Björgvin G. Sigurðsson einn njóti vafans en hinir ráðherrarnir ekki?