138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:12]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar verið er að meta refsiskilyrðin er litið til þeirra upplýsinga sem ráðherrann bjó yfir og stöðu hennar til að bregðast við með virkum hætti. Það er staðreynd að fyrrverandi utanríkisráðherra skrifaði undir yfirlýsingu gagnvart norrænu seðlabönkunum sem utanríkisráðherra. Undirritunin var embættisverk utanríkisráðherra en ekki bara pólitísk forusta. Þar að auki sat hún marga fundi, m.a. í byrjun apríl, 1. apríl ef ég man rétt, þegar rætt var áhlaup á Landsbanka Íslands í London. Hún hafði allar forsendur til að gera sér grein fyrir mikilvægi þess að aðhafast vorið 2008 og líta verður til stöðu hennar sem oddvita annars stjórnarflokksins, sem annars tveggja leiðtoga í ríkisstjórninni, (Forseti hringir.) sem bjó yfir upplýsingum sem hún gat notað til að bregðast við með virkum hætti.