138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

rmálshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:13]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Í fyrsta sinn í þingsögunni ræðum við hvort ákæra skuli fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Íslands vegna gruns um að þeir hafi með embættisfærslum sínum brotið af sér með refsiverðum hætti. Í kjölfar þess mikla efnahagsáfalls sem hér varð síðla árs 2008 er svo komið að nokkrir þingmenn hafa komist að þeirri niðurstöðu að ákæra skuli fólk og stefna því í fangelsi vegna þess hvernig það á árinu 2008 tókst á við aðsteðjandi vanda. Í þeim skjölum sem liggja frammi eru stór orð látin falla um fjóra fyrrverandi ráðherra og embættisfærslu þeirra, þá Geir H. Haarde, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Árna M. Mathiesen og Björgvin G. Sigurðsson.

Þá hafa ekki síður fallið mörg þung og óskiljanleg orð af vörum þingmanna undanfarna daga um tilgang þessara ákæra. Margar þessar yfirlýsingar endurspegla í hversu miklar ógöngur einstakir þingmenn og í raun þjóðþingið sjálft hefur ratað í tengslum við þetta mál. Það veldur manni sannarlega áhyggjum að hv. þingmenn, eins og hv. þm. Lilja Mósesdóttir, skuli leyfa sér að lýsa því ódæmi yfir að fram undan séu pólitísk réttarhöld og uppgjör við markaðshagkerfið. Verst er þó að heyra hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, upplýsa þjóðina um að tilgangur þessara ákæra og málatilbúnaðarins alls sé að róa almenning. Ég hygg að enginn forsætisráðherra í vestrænu réttarríki kæmist óáreittur upp með að gefa slíkar yfirlýsingar.

Hvað sem efnahagshruninu líður, sama hversu ósátt við erum við það tjón sem það olli okkur, hvað sem okkar pólitísku stjórnmálaskoðunum líður, skulum við aldrei víkja frá meginreglum réttarríkisins, hvorki í þessu máli né öðrum.

Ég vil nefna það strax í upphafi að eftir að hafa lesið ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar rækilega um helgina og jafnframt þau trúnaðargögn sem birt voru okkur þingmönnum er nánast ógjörningur að átta sig á þeim málatilbúnaði sem hér er. Mér finnst reyndar alveg augljóst að þessi skjöl verður að birta opinberlega svo að Íslendingar geti sjálfir lagt mat á það sem hér er að gerast. Ekki síst er það mikilvægt fyrir aðra sérfræðinga á þessu sviði að rýna þessi gögn og bera þau saman við þær ákærur sem hér liggja frammi.

Ræða hv. þm. Atla Gíslasonar byggði í meginatriðum á tilvísunum í sérfræðinga og minnisblöð þeirra. Nú má ég ekki vitna beint til þeirra vegna þessarar trúnaðarskyldu en eitt ætla ég að segja: Annaðhvort vantar óskaplega mikið í þessar möppur, t.d. rökstuðning fyrir málinu sem byggður er á munnlegu áliti sérfræðinga og ætti að fylgja fundargerðum, eða þá að þessi málatilbúnaður allur byggir á afar veikum lagalegum grunni sem á engan hátt er svarað í þessum trúnaðargögnum.

Hæstv. fjármálaráðherra lýsti skoðun sinni á verkefni þingmanna svo í ræðu á dögunum að á herðum þingmanna hvíli að axla þær skyldur sem starfinu fylgja, að ekkert skjól sé fyrir ábyrgð þingmanna í tilvikum sem þessum, ábyrgðina verði menn að axla og ekki sé hægt að kveinka sér undan því. Ég hef ekki heyrt neinn kveinka sér undan skyldum sínum eða að einhver hyggist koma sér undan þeim. Það sem ég legg megináherslu á er að menn geri rétt, láti niðurstöður sínar ráðast af efni máls og þeim lögum og rétti sem gildir í landinu en ekki af öðrum hlutum. Þeir sem vita að þeir eru að gera rétt, treysta á lögin í landinu og hafa hreina samvisku, kveinka sér ekki yfir einu né neinu. Ég mun fara nánar yfir einstök efnisatriði þessara ákæruskjala síðar í ræðu minni en eitt get ég sagt strax — og ekkert í þessum fátæklegu skjölum þingmannanefndar breytir því: Þessar ákærur standast í mínum huga ekki grundvallarreglur sakamálaréttarfars um að enginn skuli dreginn fyrir dómstóla nema meiri líkur en minni séu á sekt hans. Kröfur um réttláta málsmeðferð standast ekki heldur og þær eru ekki í samræmi við nútímamannréttindaviðmið.

Þeir sem tala hæst um það að menn þurfi að hafa þrek til að gera skyldu sína, það skyldi þó aldrei vera að hávaðinn sé vegna þess að þeir vita að hér er ekki rétt staðið að málum og kannski læðist einnig að þeim sá grunur að hér sé sett nýtt viðmið, fordæmi sem hittir fyrir núverandi ráðherra.

Nú þegar er uppi í þinginu rík krafa um rannsókn á embættisfærslu hæstv. fjármálaráðherra í tengslum við Icesave-málið. Þegar niðurstaða þeirrar rannsóknar liggur fyrir mun framhald þess máls ráðast að nokkru af því hver niðurstaða þingsins verður í því máli sem nú er til umræðu. Við þurfum að meta atburði liðinna ára með gagnrýnum hætti og draga lærdóm af því sem hér gerðist og getur nýst þjóð okkar í bráð og lengd. Ég fellst á það með fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í þingmannanefnd að ótalmargt fór úrskeiðis og mörg mistök voru gerð. Um það vitnar rannsóknarskýrsla Alþingis. Um það held ég að við séum öll sammála. En það réttlætir ekki, að mínum dómi, fangelsisdóm yfir þeim sem sátu í ríkisstjórn á árinu 2008.

Það var stórmerkilegt skref af hálfu Alþingis haustið 2008 að sameinast um að setja á fót rannsóknarnefnd til að rannsaka aðdraganda falls bankanna. Að því stóðu fulltrúar allra flokka. Í meðförum Alþingis var mikið kapp lagt á að nefndin gæti orðið sú sannleiksnefnd sem lagt var upp með og bera öll þingskjöl þess merki. Ljóst var að tilgangur nefndarinnar var að leiða fram niðurstöðu um þessa atburði svo að hægt yrði að læra af þeim.

Í 1. bindi, bls. 29, í skýrslu rannsóknarnefndar segir svo, um niðurstöðu nefndarinnar og hvort unnt væri að byggja þetta mál á niðurstöðum hennar, með leyfi forseta:

„Í nefndaráliti allsherjarnefndar Alþingis um frumvarp það er varð að lögum nr. 142/2008 var áréttað að það væri hlutverk Alþingis að taka afstöðu til þess hvort tilefni væri til þess, kæmist rannsóknarnefndin að því að ráðherra hefði gert mistök eða sýnt af sér vanrækslu í starfi í skilningi 1. mgr. 1. gr. laga nr. 142/2008, að neytt yrði lögbundinna úrræða til að fá skorið úr um tilvist, umfang og afleiðingar slíkrar lagalegrar ábyrgðar ráðherra.“

Hér er alveg skýrt og kemur raunar víðar fram í skýrslunni að með engu móti er unnt að líta á niðurstöður rannsóknarskýrslunnar sem upplegg í sakamál án þess að fram fari sérstök rannsókn af þeim toga. Sakamál verður hvorki byggt á niðurstöðum rannsóknarnefndar né verður það byggt á þeim vitnaleiðslum sem fram fóru fyrir nefndinni.

Þegar þingmannanefndin var sett á fót með lagabreytingu haustið 2009 voru henni veittar ákveðnar heimildir, skv. 4. mgr. 15. gr. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ef nefndin telur nauðsynlegt að afla frekari upplýsinga um einstök atriði getur hún falið einum eða fleiri sérfróðum aðilum að rannsaka þau og gefa sér skýrslu um niðurstöðuna. Reglur 2., 3. og 6. kafla laga þessara gilda um slíka framhaldsrannsókn eftir því sem við á, þar á meðal um rannsóknarheimildir, þagnarskyldu og birtingu upplýsinga sem háðar eru þagnarskyldu.“

Þingmannanefndin nýtti sér ekki þessar heimildir til framhaldsrannsóknar enda bera ákærurnar það með sér að þau tilvik sem rannsóknarnefndin lítur á sem vanrækslu eru nánast orðrétt tekin inn í ákærurnar án þess að metið sé hvort ákæruliðir þessir standist grundvallarreglur sakamálaréttarfars um yfirgnæfandi líkur sektar, afmörkun sakarefnis og skýrleika ákæru.

Raunar kom það makalausa viðhorf fram í ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar að hin matskennda saksóknarregla og forsögn hennar um líkur á sakfellingu í dómi sé sérstaklega óvirk þegar um sjaldgæf eða óvenjuleg sakarefni er að ræða. Það er mikið áhyggjuefni að flutningsmenn þessara tillagna líti svo á mál.

Þá er án alls rökstuðnings ákveðið að færa tiltekna ákæruliði undir ráðherra sem ekki hlutu vanrækslu vegna þeirra atriða í rannsóknarskýrslunni, svo sem er í tilviki Árna Mathiesen þegar lagt er til að hann sé ákærður fyrir hluti er voru stjórnskipulega á ábyrgð viðskiptaráðherra, nefnilega Icesave og umfang bankakerfisins. Það er enginn haldbær rökstuðningur fyrir þeirri niðurstöðu. Að ekki sé minnst á þá makalausu niðurstöðu að leggja til ákærur á hendur Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem er ekki tiltekin í rannsóknarskýrslunni, án nauðsynlegs rökstuðnings. Ég mun víkja betur að þessu á eftir. Það er út í bláinn að telja að þessir fyrrverandi ráðherrar hefðu átt að gera sér grein fyrir stöðu málsins á grundvelli bréfa sem þingmannanefnd sendi þeim. Það er óhemjulangt seilst að halda slíku fram og á það ekki bara við um Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur heldur þau öll fjögur. Nefndin gaf á engan hátt til kynna með þessu hverju von var á.

Það sem er auðvitað makalaust, virðulegi forseti, er að þeir aðilar sem komu fyrir rannsóknarnefnd Alþingis og höfðu ríkar skyldur til að veita upplýsingar að viðlagðri refsingu skuli nú eiga að búa við það að þær vitnaleiðslur sem þar voru og byggðar voru á allt öðrum mælikvarða skuli eiga að leiða til landsdóms.

Sérstakur saksóknari, virðulegur forseti, liggur undir ámæli fyrir það að vera hægur í störfum sínum og að hægt gangi að gefa út ákærur á hendur misvitrum bankamönnum sem nota bene fá mesta ágjöf í títtnefndri rannsóknarskýrslu. Hví skyldi það vera? Það skyldi þó ekki vera svo að sérstakur saksóknari vilji vanda til verka, gæta sín á því að draga menn ekki að ófyrirsynju fyrir dómstóla honum til skammar og öðrum til ævarandi mannorðsmissis. Hér á hins vegar að stefna í þá átt að fyrstu aðilarnir sem dregnir verða fyrir dómstóla séu ráðherrar sem á árinu 2008 stóðu í foraðinu miðju — hæstv. dómsmálaráðherra, sem fullyrti nú í vikunni að lög hafi verið brotin, þarf greinilega ekki að bíða eftir því að dómskerfið hafi sinn gang — og það á grundvelli hæpinna ákæra, matskenndra ákæruliða og án nokkurra sakamálarannsóknar.

Virðulegi forseti. Lögin um ráðherraábyrgð voru hugsuð á þeim tíma er konungur valdi sér ráðherra. Við þær aðstæður var ekki hægt að losna við einstaka ráðherra úr embætti í krafti þingræðisins eins og nú þekkist með vantrauststillögu. Þess í stað var notað sérstakt kerfi, lög um ráðherraábyrgð og landsdóm, til að svara þeim vanda. Enda er það skýrt merki um þessa hugsun að í 11. gr. laganna er fyrst kveðið á um embættismissi, þá sektir og loks fangelsisvist. Þeir ráðherrar sem hér um ræðir hafa allir látið af embættum sínum og þrír þeirra hætt afskiptum af stjórnmálum í kjölfar þessara atburða. Þar til viðbótar er í tilviki Geirs Hilmars Haardes, Árna Mathiesens og Björgvins G. Sigurðssonar niðurstaða rannsóknarnefndar um vanrækslu sem aldrei verður aftur tekin. Ekki er því hægt með nokkrum rökum að halda því fram að þessir aðilar hafi ekki hlotið verulegar ákúrur fyrir störf sín.

Þar fyrir utan hefur margt verið skrifað um stöðu landsdóms miðað við þróun réttarfars á síðustu áratugum og víst er að þetta kerfi er mjög á skjön við ríkjandi viðhorf um réttarstöðu sakbornings í sakamálum. Nú ber svo við að þeir sem hafa áður gagnrýnt að óþekkt sé að ekki sé unnt að áfrýja málum til æðra dómstigs og skrifað um það greinar árið 2002, eins og hæstv. dóms- og mannréttindaráðherra Ögmundur Jónasson gerði, hafa nú skipt algerlega um skoðun og telja ekkert athugavert við það að aðeins eitt dómstig dæmi menn seka að lögum sem geti leitt til fangelsisdóms. Það er ótrúlegt að ráðherra mannréttindamála skuli tala með þessum hætti og fá engar ákúrur í fjölmiðlum þessa lands en það er því miður í stíl við allt annað.

Hæstv. forseti. Þrátt fyrir alla þessa annmarka á formhlið málsins og þrátt fyrir að þingmannanefndin sjálf hafi komist að þeirri niðurstöðu að lög um landsdóm og ráðherraábyrgð þurfi að endurskoða, þótt ekki sjái þess stað hvernig það skuli gert, skal beita þessum úrræðum. Er nú svo komið að hlutverk okkar þingmanna breytist í grundvallaratriðum. Nú verða menn að varpa af sér hinum pólitísku skikkjum og setja sig í spor ákæranda. Nú reynir á hvort þingmenn taka hlutverk sitt réttum tökum og meti út frá gögnum málsins hvort ástæða sé til að gefa út ákærur eða ekki.

Fyrir dómstóla fara mál er varða refsiverða háttsemi. Fólk er ekki ákært til að hreinsa nafn sitt, eins og hv. þm. Atli Gíslason sagði í ræðu sinni á föstudaginn, með leyfi forseta:

„Það að fá úrlausn mála sinna og endanlega afstöðu fyrir dómi, það að vera hreinsaðir fyrir dómi eða ekki.“

Ákærurnar eru settar fram vegna þess að ákærandinn telur sakborninginn sekan. Þetta þjóðfélag hefur fram til þessa, og ég trúi að það sé það enn, umburðarlynt þjóðfélag. Þeir sem bera upp tillögur af þessum toga og halda þeim fram eru talsmenn harðgerðrar stjórnar, ókunnuglegra sjónarmiða sem ég get aldrei fallist á. Kem ég nú nánar að ákæruskjalinu, virðulegi forseti.

Þau ákæruatriði sem hér um ræðir eru að nokkrum hluta eins þar eð lagt er til að ráðherrarnir fjórir séu að hluta til ákærðir fyrir sömu atriði. Ákæruatriði á hendur Geir H. Haarde eru sett fram í tveimur stafliðum er saman standa af sex atriðum. Ég ætla að fara yfir nokkur atriði ákæruskjalsins en í upphafi er tilgreint að málið sé höfðað á hendur honum fyrir að hafa af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi brotið af sér á tímabilinu frá febrúar til október 2008. Það sama er tilgreint gagnvart hverjum ráðherra fyrir sig. Má að sönnu gagnrýna að ráðherrar á þessu tímabili séu kærðir, svo að notað sé orðalag í samræmi við lögin um landsdóm, fyrir að hafa af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi brotið svo af sér á árinu 2008, stefnt íslenska ríkinu og heill þess í voða, að það varði fangelsisvist.

Má að sönnu gagnrýna að ráðherrar á þessu tímabili séu kærðir, svo notað sé orðalag í samræmi við lögin um landsdóm, fyrir að hafa af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi brotið svo af sér á árinu 2008, stefnt íslenska ríkinu og heill þess í voða að það varði fangelsisvist. Má að sönnu spyrja hverjum í heiminum var ljóst að í september 2008 yrði fall Lehman Brothers bankans með þeim hætti að það hefði keðjuverkandi áhrif nánast um alla veröld. Ekki virðist fjármálaráðherra Bandaríkjanna hafa verið það ljóst ef marka má viðtöl við hann og þau sjónarmið sem hann hefur látið frá sér fara vegna þessara atburða. Hefur honum verið gerð sök vegna þessa? Nei. Sannleikurinn er auðvitað sá að það var engum manni ljóst í byrjun árs 2008 að allt íslenska bankakerfið, allir stóru bankarnir með tölu, mundi hrynja þá um haustið. Auðvitað voru alvarleg teikn á lofti og verulegar áhyggjur um heim allan af stöðu fjármálakerfisins, en engin var kristalskúlan.

Það er jafnframt ljóst og verulegur veikleiki á öllum þessum málatilbúnaði þingmannanna að ein meginniðurstaða rannsóknarnefndarinnar var sú að í síðasta lagi árið 2006, eftir á að hyggja, hefði verið unnt að grípa til aðgerða og nauðsynlegra ráðstafana til að draga úr umfangi og áhættu í íslenska bankakerfinu.

Það er grundvallaratriði og setur þetta mál í afar sérkennilegt ljós, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Þá er vert að benda á að skýrleiki refsiheimilda sem málatilbúnaður þessi byggir á í lögum um ráðherraábyrgð er afar málum blandinn og á það ekki síst við um 10. gr. laganna eins og fræðimenn hafa margoft bent á í gegnum tíðina.

Þá er lagt til að allir ráðherrarnir fjórir, Geir Haarde, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Árni Mathiesen og Björgvin G. Sigurðsson, séu ákærð, í fyrsta lagi fyrir að hafa brotið af sér með því að hafa sýnt af sér alvarlega vanrækslu á starfsskyldum sínum sem ráðherra andspænis stórfelldri hættu sem vofði yfir íslenskum fjármálastofnunum og ríkissjóði, hættu sem þeim var eða mátti vera kunnugt um. Þeim er gert að sök að hafa ekki brugðist við með því að beita sér fyrir aðgerðum, löggjöf, útgáfu stjórnvaldsheimilda eða töku stjórnvaldsákvarðana á grundvelli gildandi laga í því skyni að afstýra fyrirsjáanlegri hættu fyrir heill ríkisins.

Hvað merkir það?

Í fyrsta lagi er hér um afar matskennt ákæruatriði að ræða og ekki er að finna neinn haldbæran rökstuðning fyrir því hvað hér hefði átt að gera. Þeir sem standa að þessu ákæruskjali verða að sýna fram á útgáfu hvaða stjórnvaldsheimilda unnt var að grípa til. Hvaða löggjöf átti að samþykkja og hvaða ákvarðanir átti að taka? Þá er alveg óljóst hvaða samhengi væri á milli hugsanlegra aðgerða og þeirra aðgerða sem farið var í og svo falls íslensku bankanna. Enn fremur verður að rökstyðja og leiða líkur að því hvort einhverjar slíkar ákvarðanir hefðu leitt til þess að forða þessu tjóni. Þá þarf jafnframt að setja þann rökstuðning í samhengi við þá niðurstöðu að á árinu 2008 hafi harla fátt verið unnt að gera til að forða tjóninu ef miðað er við þá niðurstöðu rannsóknarnefndar að árið 2006 sé lykilártal í þessu sambandi.

Það verður jafnframt að gera þá kröfu til þingmannanna að lagt sé mat á þær aðgerðir og fyrirætlanir sem stóðu fyrir dyrum af hálfu ríkisstjórnarinnar. Er það skoðun þeirra sem leggja þetta fram að alls ekkert hafi verið gert og að ekkert hafi verið í pípunum?

Það er ekki nokkur leið að fallast á að þessi ákæruliður sé nægilega afmarkaður eða skýr, hvað þá að hafið sé yfir allan vafa að yfirgnæfandi líkur séu á sakfellingu á grundvelli hans.

Í öðru lagi af þeim ákæruliðum sem ég ætla að nefna í þessari ræðu er að Geir Hilmar Haarde, Árni Mathiesen og Björgvin G. Sigurðsson eru allir ákærðir fyrir að hafa ekki gripið til nauðsynlegra aðgerða til að draga úr stærð íslenska bankakerfisins, til að mynda með því að stuðla að því að bankarnir færðu höfuðstöðvar sínar til útlanda. Þessi liður er jafnósannfærandi og hinn fyrri. Hvernig átti það að gerast? Það hefur margoft komið fram að bankarnir, a.m.k. sumir hverjir, hafi verið að leita leiða til að draga úr áhættunni á Íslandi. Átti ríkisstjórn Íslands að lýsa því yfir á miðju ári 2008 að bankarnir væru orðnir svo stórir að þeir þyrftu úr landinu, ella féllu þeir? Hefði það verið heillavænlegt og skynsamlegt af hálfu ríkisstjórnar?

Reyndar er ástæða til að nefna það hér að það var yfirlýstur vilji stjórnvalda, eins og fram kom í skýrslu Kaarlos Jännäris, að bankarnir minnkuðu efnahagsreikning sinn strax síðla árs 2007 og dróst íslenska fjármálakerfið saman í evrum talið um 7% árið 2008.

Það er líka yfirmáta undarlegt að Árna Mathiesen sé gert þetta að sök. Á það raunar einnig við um Icesave-liðinn sem ég kem að á eftir. Var það á ábyrgð fjármálaráðherra að fara með bankamál? Verður það nú enn undarlegra (Gripið fram í.) í tillögu fulltrúa Samfylkingarinnar sem leggja sig í líma við að sýkna viðskiptaráðherrann, ákæra fjármálaráðherra fyrir verkefni viðskiptaráðherra og bæta alls óskyldum ráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, í súpuna án alls rökstuðnings og algjörlega út í bláinn.

Í þriðja lagi vil ég nefna þetta makalausa ákæruatriði, Icesave. Þremur ráðherrum, Geir Haarde, Björgvini G. Sigurðssyni og Árna Mathiesen, er gert að sök að hafa ekki, eins og segir í ákæruskjalinu, með leyfi forseta, „fylgt því eftir og fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi yfir í dótturfélag og síðan leitað leiða til að stuðla að framgangi þessa með virkri aðkomu ríkisvaldsins“.

Var þetta ekki af hendi breska fjármálaeftirlitsins? Hefur það ekki margoft komið fram? Og voru þetta ekki samskipti milli breska fjármálaeftirlitsins og þess íslenska auk Landsbankans? Hvernig er hægt að segja að það sé á ábyrgð fjármálaráðherrans fyrrverandi, Árna Mathiesens? Vanrækslukafli rannsóknarskýrslunnar hvað hann varðar byggist fyrst og fremst á aðkomu ráðuneytis hans að samráðshópnum svokallaða. Um það má í sjálfu sér deila, að telja hann upp í þeim vanrækslukafla, en látum það liggja á milli hluta. Rannsóknarskýrslan og 17. kafli hennar tiltaka hvorki Icesave né stærð bankakerfisins þegar litið er til vanrækslu Árna Matthíasar Mathiesens. Engu að síður komast þessir þingmenn að þeirri niðurstöðu án haldbærs rökstuðnings. Þá er auðvitað með hreinum endemum að þetta ákæruatriði sé yfirleitt tilgreint. Við Íslendingar höfum staðið í hatrammri baráttu við Breta og Hollendinga í Icesave-málinu. Í þeim lögum, sem illu heilli voru samþykkt vegna þessa máls í lok árs 2009, segir þó að ekkert í þeim lögum feli í sér viðurkenningu á því að Íslendingum hafi borið skylda til að ábyrgjast þessar greiðslur. Við höfum statt og stöðugt haldið því fram. Nú munu íslensk stjórnvöld væntanlega halda þessu sjónarmiði til streitu í svari sínu til ESA, ég trúi ekki öðru. Vont væri ef viðsemjendur okkar á sama tíma læsu þetta makalausa ákæruskjal og sæju að við erum önnum kafin við að ákæra fólk fyrir að hafa ekki hrundið ábyrgð á þessu yfir á skattgreiðendur í öðrum löndum og í leiðinni nánast gefið það út að hér sé um ríkisábyrgð að ræða.

Svo segir hv. þm. Atli Gíslason að þessi ákæruliður létti á íslenska ríkinu í Icesave-málinu eins og fram kom í framsöguræðu hv. þingmanns á föstudaginn. Það er hreint og beint ótrúlegt að verða vitni að þessu.

Ég spyr: Var athugað hvaða afleiðingar þetta hefði á hagsmuni okkar í þessu máli? Hér er um grundvallarhagsmuni íslenska ríkisins að ræða og má með sönnu halda því fram að mörg þessara ákæruatriða gætu orðið vatn á myllu kröfuhafa okkar. Ekki er nóg með að þessi ákæruatriði séu brotakennd og óskiljanleg, heldur er alveg óljóst hvort af þeim getur skapast tjón — og verulegt tjón fyrir ríkissjóð.

Loks vil ég nefna það stjórnarskrárbrot sem ákært er fyrir, nefnilega að ráðherrar hafi brotið 17. gr. stjórnarskrár þjóðarinnar með því að halda ekki fundi um mikilsverð málefni. Mér sýnist mikill vafi leika á um hvort þetta ákvæði geti staðið sjálfstætt á þann hátt sem hér er ákært fyrir eða stendur til að ákæra fyrir, gangi þessa makalausa tillaga fram. Telja menn að það varði fangelsisvist að hafa ekki haldið þessa fundi? Hvernig hefur það verið skilið frá því að þetta ákvæði kom inn í íslensku stjórnarskrána árið 1920? Við skulum athuga að sambærilegt ákvæði er ekki að finna í dönsku stjórnarskránni. Mér finnst fjarstæðukennt að byggja sakamál á svona löguðu.

Ég vil að endingu, virðulegi forseti, áður en ég segi skilið við þessi ákæruskjöl — og ég tek fram að hér er á engan hátt tæmandi talning á þessu — fjalla um málatilbúnað þingmannanna á hendur Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fyrrverandi utanríkisráðherra. Mér er fyrirmunað að skilja, alveg með sama hætti og ég tilgreindi Árna M. Mathiesen, hvað um er að ræða hvað hana varðar. Fulltrúar Samfylkingarinnar bóka sérstaklega um 17. kafla rannsóknarskýrslunnar og hafna öllum ávirðingum hennar á hendur Björgvini G. Sigurðssyni, með leyfi forseta, með þeim orðum að verði „annars vegar að taka tillit til þeirrar verkstjórnar og raunverulegrar verkaskiptingar sem var viðhöfð innan ríkisstjórnarinnar og hins vegar þeirra takmörkuðu upplýsinga sem fyrrverandi viðskiptaráðherra bjó yfir. Því er ekki hægt að fullyrða að athafnir eða athafnaleysi viðskiptaráðherra í aðdraganda bankahrunsins falli undir hugtakið vanræksla í skilningi 1. mgr. 1. gr. laga nr. 142/2008“ — um rannsóknarnefnd — „þrátt fyrir að segja megi að formlegt verksvið hans og þær upplýsingar sem hann þó bjó yfir hefðu mátt gefa tilefni til frekari viðbragða af hans hálfu“.

Þá er það skoðun þeirra, fulltrúa Samfylkingarinnar í þingmannanefnd, að ekki sé unnt að flokka viðskiptaráðherrann með hinum ráðherrunum af því að gáleysismörkin eru svo matskennd og ráðherrann verði að fá að njóta þess vafa. Slíkur rökstuðningur hlýtur þá einnig að gilda um hina ráðherrana þrjá. Er mér fyrirmunað að skilja hvernig unnt er að einangra þá afstöðu við Björgvin G. Sigurðsson. Af hverju á hann einn að njóta vafans að mati hv. þingmanna Samfylkingarinnar en ekki hin þrjú, Geir Haarde, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Árni Mathiesen?

Því verða hv. þm. Magnús Orri Schram og Oddný G. Harðardóttir að svara.

Þá er ekki síður ástæða til að benda á og ítreka aftur þá einkennilegu stöðu að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir skuli í þessari tillögu lúta ákæru þegar horft er til niðurstöðu rannsóknarnefndar. Að þingmenn hafi komist að slíkri niðurstöðu sýnir og sannar hve vanbúið þetta mál er í alla staði. Í andsvari hv. þm. Atla Gíslasonar við fyrirspurn hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar á föstudaginn var sagði hann að nefndin hefði rætt að ákæra fleiri ráðherra en komist að þeirri niðurstöðu að gera það ekki. Hið sama upplýsti hv. þm. Oddný G. Harðardóttir nú í andsvari við sama þingmann hér fyrr í þessari umræðu.

Þar sem nefndin komst að þeirri niðurstöðu að ákæra ráðherra sem ekki var talinn ber að vanrækslu í skilningi annarra laga, þ.e. laganna um rannsóknarnefnd, á þessum hæpnu forsendum, verður hún að birta rökstuðning fyrir því af hverju aðrir ráðherrar, t.d. sá sem hafði bein afskipti af fjármálakerfinu í gegnum Íbúðalánasjóð, töldust ekki fullnægja skilyrðum nefndarinnar um ákæru. Fyrr en sá rökstuðningur liggur fyrir er varla hægt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að ómálefnaleg rök og tilviljanakenndar ákvarðanir búi að baki þessu öllu saman.

Virðulegi forseti. Mín niðurstaða er því eindregin sú að lög hnígi ekki til þess að Alþingi gefi út ákærur á hendur fjórum fyrrverandi ráðherrum. Engin rök eru til þess að þessi téðu brot sem þarna eru tiltekin séu refsiverð eða uppfylli það grundvallarskilyrði að meiri líkur en minni séu á sakfellingu. Ég tek heils hugar undir niðurstöðu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í þessari nefnd og jafnframt að niðurstöður rannsóknarskýrslu og rannsóknarnefndar Alþingis standa sjálfstæðar.

Maður spyr sig að því hvort það muni verða niðurstaðan eftir allt sem hér hefur gengið á að nokkrir ráðherrar verði dregnir fyrir dómstóla og hótað fangelsisvist fyrir að reyna að bregðast við þungbærum aðstæðum meðan þeir sem mestu tjóninu valda ganga hér um göturnar á Íslandi, í öðrum löndum og öðrum álfum. Það skilur ekki nokkur Íslendingur, ekki frekar en það að stjórnvöld virðast látlaust upptekin af fortíðinni í stað þess að einbeita sér að því sem fram undan er. Til þess var rannsóknarnefndin, sem sumir kölluðu sannleiksnefnd, sett á laggirnar, til að skilja hvað fór úrskeiðis, læra af því, breyta því sem þarf að breyta og þjappa okkur aftur saman.

Þessi málatilbúnaður, fyrir utan það lagalega furðuverk sem hér er um að ræða, hvar sem litið er á einstaka ákæruliði, er í engu samræmi við það sem lagt var upp með.

Ég hélt að mér hefði misheyrst þegar hæstv. forsætisráðherra sagði í fréttaviðtali að hún vonaðist til að þessar ákærur róuðu fólk og það hefði verið tilgangurinn með öllu saman. Mikill er vandi okkar ef þetta er viðhorf helstu ráðamanna þjóðarinnar til laga og réttar. Hafa ákærur á hendur fólki almennt þann sjálfstæða tilgang að róa fólk?

Hæstv. forseti. Ég get ekki sem lögfræðingur, alþingismaður eða manneskja í þessu landi sætt mig við þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð og ég hafna þessum málatilbúnaði algjörlega.