138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:50]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að biðja hv. þingmann um að leggja mér ekki orð í munn og halda því fram að ég sé að tala um að verið sé að dæma fólk á pólitískum forsendum. (Gripið fram í: Það stóð á Facebook.) Þau óbeinu skilaboð sem munu koma út úr þessu landsdómsmáli, ef hann verður nokkurn tíma kallaður saman, eru að sú afskiptaleysisstefna sem stjórnvöld aðhylltust á útrásartímabilinu var m.a. orsök þess að bankarnir féllu. Þessi afskiptaleysisstefna var túlkuð þannig af embættismannakerfinu að þeir aðstoðuðu fyrirtæki við að sniðganga lög. Ég ætla bara að vona að þessari stefnu verði aldrei aftur haldið á lofti og það er von mín að ef landsdómur verður haldinn komi í ljós hversu alvarlegar afleiðingar þessi stefna hafði fyrir þjóðina.