138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:00]
Horfa

Flm. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að taka undir að það er mjög brýnt í þessari umræðu að Sjálfstæðisflokkurinn lýsi því yfir hvort hv. þingmenn hans séu sammála eða ósammála niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis um vanrækslu, að þeir geri það skýrt. Sé einhver vanræksla þá tiltaki þau hver hún sé og geri uppgjör. Mér finnst ranglega farið með hjá hv. þm. Ólöfu Nordal þegar hún vísar til orða Ögmundar Jónassonar um smámál sem dæmd séu á einu dómstigi í undirrétti. Það er það sem hann átti við. Það er líka heimild til að dæma mál á einu stigi í æðsta dómstigi þar sem saman eru komnir æðstu dómendur og fyrir því liggur dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Eriks Ninn-Hansens.

Fram kom 7. febrúar á fundi þriggja ráðherra með seðlabankastjóra að bankarnir ættu níu mánuði ólifaða. Ég vil biðja hv. þm. Ólöfu Nordal að skýra fyrir mér hverjir af fræðimönnum þessa lands aðrir segja að c-liður 8. gr. sé óskýr og b-liður 10. gr. Menn hafa rætt um a-lið 10. gr. en ekki hina. Hvað hefur hv. þingmaður fyrir sér í þeim efnum?