138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:42]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get spurt hv. þm. Pétur H. Blöndal hvort hann taki undir niðurstöður þingmannanefndarinnar og það sem kemur fram í rannsóknarnefndinni um vanrækslu. Ef allir hefðu gert það, allir hefðu verið til í að vera samstiga í því með hvaða hætti við vildum ljúka þessu máli, værum við e.t.v. ekki að tala um ákærur fyrir landsdómi. Vonandi ekki. (PHB: Þetta er rétt.) Í það minnsta mundi ég segja fyrir mitt leyti að vel væri hægt að sjá fyrir sér að menn hefðu komist að þeirri niðurstöðu að hægt væri að ná fram pólitískri ábyrgð með réttum hætti. Þess vegna er landsdómur eins og hann er. (PHB: Við erum búnir að því.) Ég vona að við getum kannski í kjölfar þessarar umræðu farið að velta því fyrir okkur hvernig við ætlum að koma pólitískri ábyrgð á hendur þeim ráðherrum sem brjóta af sér með einum eða öðrum hætti því að við eigum auðvitað ekki að standa stöðugt í sakfellingum og réttarfari. Það er röng leið. Við komumst ekkert áfram í samfélaginu.