138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:45]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort hv. þm. Birgir Ármannsson var að ganga hér í salinn en í nokkuð löngu máli reyndi ég að útskýra fyrir honum hvernig ég hefði komist að þeirri niðurstöðu að kalla bæri saman landsdóm og ákæra fjóra ráðherra, það er grundvallaratriði að öll lagaleg skilyrði séu fyrir hendi. Þó að þau væru fyrir hendi kemur pólitískt mat til og það er ekki víst að það yrði alltaf niðurstaðan að kalla saman landsdóm ef það mat yrði með öðrum hætti. En það er grundvallaratriði að öll lagaleg skilyrði séu fyrir hendi. Það er einmitt munurinn á því hvort menn hafa þann ásetning að draga allt og alla fyrir landsdóm eða dómstóla eða hvort menn geta fundið einhverjar aðrar sameiginlegar leiðir sem allt samfélagið getur orðið ásátt um. Ég hef verið talsmaður þess.