138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:51]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð nú að segja að ég kannast ekki við þá umræðu sem hv. þingmaður vísaði til um að það hafi verið himinn og jörð á milli skoðana okkar á vanrækslu. Ég veit ekki betur en að við öll höfum lagt saman fram mjög harðorða þingsályktunartillögu þar sagt er að fyrrverandi stjórnvöld hafi ekki staðið sig vel. Það má lesa það í sameiginlegri þingsályktunartillögu okkar. Við ályktuðum líka mjög harðort varðandi einkavæðinguna og þau stjórnvöld sem þá stýrðu hér landinu. Ég átta mig því ekki á því til hvers hv. þingmaður vísar og ég kannast ekki við að hv. þingmaður hafi látið reyna á þau sjónarmið innan nefndarinnar sem hann vísar til hér, að menn hefðu getað náð saman um einhverja — ja, ég veit ekki um hvað hv. þingmaður er að tala varðandi þá einhverjar harðorðari ályktanir en eru í núverandi þingsályktunartillögu þingmannanefndarinnar sem lögð hefur verið fram, það væri þá bara gott (Forseti hringir.) ef það kæmi fram.