138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:52]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvert þessi umræða leiðir okkur. Mér finnst talsvert vera um útúrsnúninga en það kannski fylgir umræðunni. Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar er þetta bæði erfitt mál og viðkvæmt, bæði fyrir okkur þingmenn en auðvitað ekki síst fyrir þá sem við fjöllum um þannig að ég lít svo á að það sé að hluta til skýring á því hversu sérkennileg umræðan verður á köflum. En ég get tekið undir það með hv. þingmanni að samstarfið í nefndinni var mjög gott og ég mun ekki fjalla um hvað einstakir nefndarmenn sögðu eða gerðu á þeim tíma. Ég mótmæli því að ég hafi sagt það vegna þess að ég vitnaði bara til niðurstöðunnar. Þar kemur það skýrt fram að hv. þingmenn gátu ekki tekið þátt í því að sameinast um niðurstöðu í 7. bindi varðandi vanrækslu ráðherra og forstjóra Fjármálaeftirlitsins (Forseti hringir.) og bankastjórnar.