138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:55]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmannanefndin sem lauk hér störfum, eða er að ljúka störfum skulum við segja — það fer nú reyndar eftir því hvort þingheimur mun vísa málum sem þingmannanefndin fjallaði um inn í aðra nefnd, þá hefur hún væntanlega lokið störfum. Ef ekki þarf nefndin væntanlega að taka málið til umfjöllunar aftur milli umræðna, en hún hefur starfað að málinu frá 15. janúar til dagsins í dag. Ef allsherjarnefnd, níu þingmenn, telur sig geta lokið málinu á nokkrum dögum fyrir lok september eins og var tilætlan löggjafans, að ljúka þessu máli fyrir lok þings áður en nýtt þing hæfist, mundi ég telja að viðkomandi nefnd legði ekki jafnmikla eða jafnígrundaða vinnu í þá umfjöllun og þingmannanefndin gerði — án þess að ég ætli að gera lítið úr störfum allsherjarnefndar og (Forseti hringir.) því hvaða kraftaverk hún getur gert á örfáum dögum.