138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:17]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir vísaði sérstaklega í lokaorðum sínum til sjónarmiða eða hugmynda um réttarríkið, sem við öll styðjum. Við viljum að hér ríki réttarríki, m.a. með þeim réttindum og takmörkunum á beitingu valds hins opinbera sem því fylgir. Eitt sterkasta valdið í höndum hins opinbera er ákæruvaldið og það er sérstaklega vandmeðfarið og þegar sjónarmiðum réttarríkisins er fylgt er það meginregla að ekki beri að ákæra nema meiri líkur en minni séu á sakfellingu og þetta verður sá sem hefur ákæruvaldið að meta.

Hv. þingmaður fjallaði um margt í ræðu sinni en það vantaði hins vegar rökstuðninginn fyrir því hvernig hún komst að þeirri niðurstöðu að hún teldi meiri líkur (Forseti hringir.) en minni á því að sakfelling gæti átt sér stað í þessu máli, (Forseti hringir.) en það er lykilspurningin sem við þurfum að ræða þegar við tökum afstöðu til þessara ákærutillagna.