138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:51]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er vissulega ekki sérfræðinganna að taka þá erfiðu ákvörðun sem Alþingi stendur frammi fyrir. Okkur í þingmannanefndinni var trúað fyrir því og falið að meta þau gögn sem fyrir lágu samkvæmt lögum sem sett voru um þingmannanefndina og við höfum byggt vinnu okkar á rannsóknarskýrslu Alþingis. Eðlilega höfum við leitað til fjölda sérfræðinga til að kalla fram álit og hvort lagaskilyrði væru fyrir hendi sem og refsiskilyrði og réttarfarsskilyrði. Við höfum nýtt okkur fagþekkingu þessara sérfræðinga. En þegar upp er staðið er það okkar, þingmanna, hvort sem við erum löglærð eða ekki, hvar sem við stöndum í stétt, að taka ákvörðun eftir bestu samvisku og þeim bestu upplýsingum sem við höfum yfir að ráða. Auðvitað hefur þingmannanefndin haft lengri tíma en aðrir þingmenn til að kynna sér þau gögn sem fyrir hendi eru en rannsóknarskýrslan hefur auðvitað legið fyrir frá því í vor.

Núna eru gögnin í trúnaðarmöppu og menn hafa haft tækifæri til að kynna sér þau. Endanleg ákvörðun liggur svo hjá hverjum og einum þingmanni, tekin af bestu samvisku og miðað við þau gögn og upplýsingar sem viðkomandi hefur kynnt sér.