138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[15:00]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið.

Eins og ég sagði áðan er það ekki okkar í þingmannanefndinni að rannsaka. Ef við færum í það hlutverk brytum við lög. Ég vil ekki verða sá lagabrjótur að gera það. Í landsdómi fer fram algjörlega sjálfstæð rannsókn frá grunni. Menn verða að byggja algjörlega frá grunni á þeim rannsóknargögnum sem landsdómur kallar fyrir dóminn. Ekkert annað má nota í þeirri rannsókn. Hún er sjálfstæð. (Gripið fram í.) Þannig eru lögin og við búum við þau. Alþingi vann eftir þeim þann 30. desember, vísaði málunum til þingmannanefndarinnar og gerði engar athugasemdir við landsdómslögin eða ráðherraábyrgðarlögin. Við erum að vinna eftir þeim lögum sem eru í gildi í landinu.