138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[15:03]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið.

Eins og hv. þingmaður veit jafnt og ég voru þessi mál til umræðu innan þingmannanefndarinnar. Við óskuðum eftir svörum varðandi þau hjá lagaprófessorunum sem við fengum til að ræða málin. Ég er ekki lögfræðingur en eins og ég skildi þetta er ekki hægt að bæta í ákæruatriði. Ég skildi það sem svo að einhver möguleiki væri á því að draga úr þeim en þá yrði það að fara aftur inn til þingsins og þingið yrði að ákveða hvort lögð yrði fram þingsályktunartillaga þar sem búið væri að draga úr einhverju ákæruatriði. Þetta er bara minn skilningur. Þetta er auðvitað lagaleg útfærsla. Ég skildi það þannig að ekki væri hægt að bæta í ákæruatriði en möguleiki á að draga úr þeim fyrir landsdómi. Þannig skildi ég það.