138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[15:28]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þá kemur spurning á móti: Hvers efnis ætti sú þingsályktunartillaga að vera? Venjulega þegar þingmenn leggja fram þingsályktunartillögur eru þær um eitthvert málefni sem þeir eru áfram um að verði að veruleika. Það tíðkast hins vegar ekki að menn leggi fram gagnþingsályktunartillögur gegn fram kominni þingsályktunartillögu. Ég var hins vegar á þeirri skoðun að þingmannanefndin hefði átt að leggja fram sameiginlega skýrslu um ráðherraábyrgð þar sem við hefðum farið sameiginlega — og ég hef lýst þessu yfir áður í þinginu — yfir feril málsins, lagagrundvöllinn, og síðan tiltekið þau ólíku sjónarmið sérfræðinga sem fram komu í nefndinni. Ég tel að það hefði verið mun skýrara fyrir hv. þingmenn, sérstaklega þar sem við höfðum lýst því yfir að við ætluðum að tjá okkur fyrst við þingið en ekki við fjölmiðla.

Það hefði verið mun heppilegra. Ég tel að það hefði líka skýrt út hvers vegna þingmannanefndin, við öll saman, sama á hvaða skoðun við erum varðandi ráðherraábyrgðina, leggur t.d. til endurskoðun á lögunum um landsdóm um ráðherraábyrgð. Við erum reyndar ekki öll alveg sammála um nákvæmlega hvaða efni þarf að endurskoða en það hefði skýrt málin betur fyrir þingmönnum, ég heyri að — mér þykir leitt ef þingmenn eru ráðvilltir yfir því að hafa ekki fengið að heyra ræðu mína áðan og þakka þeim fyrir að hlusta — að það hefði vissulega verið betri leið. Síðan hefði nefndin væntanlega klofnað í þrennt, eða hvernig sem það hefði farið á endanum í slíkri skýrslu, og þar hefði hver og einn getað lagt fram sína bókun. Og væntanlega hefðu þeir þingmenn sem leggja fram þessar þingsályktunartillögur jafnframt lagt þær fram til hliðar við þá skýrslu. Ég tel að það hefði verið heppilegra fyrirkomulag og ég veit að formaður nefndarinnar, Atli Gíslason, hefur lýst því yfir að hann er ekki allsendis ósammála mér. Hins vegar verðum við að líta á þetta þannig að okkur var skammtaður naumur tími og við fengum tveim mánuðum skemmri tíma til að vinna en þingið gaf okkur upphaflega, það var vegna tafanna á skilum hjá rannsóknarnefnd (Forseti hringir.) Alþingis.