138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[15:38]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fór nokkuð yfir skýrleika refsiheimilda í ræðu minni og tel ekki ástæðu til að endurtaka það allt saman hér. Ljóst er að þegar heimfæra á einhverja háttsemi upp á refsiákvæði, hvort sem það er í þessu máli eða einhverju öðru refsimáli, verður að vera skýrt hvert brotið er. Við getum tekið dæmi um umferðarlagabrot, þau eru yfirleitt tiltölulega skýr. Maður keyrir frá stað A til staðar B á of miklum hraða. Það er algjörlega skýrt hvað segir í lögunum um hámarkshraða. Þetta umhverfi er hins vegar ekki jafnskýrt. Refsiákvæðin hafa verið gagnrýnd fyrir að vera óskýr. En þess utan tel ég að mistök hafi verið gerð. Menn gerðu mistök. Það var ekki nóg að gert. Menn vanmátu væntanlegan vanda en ég tel að það hafi verið algilt mjög víða um hinn vestræna heim, menn sáu ekki hættuna fyrir. Af þeirri ástæðu (Forseti hringir.) hef ég enga sannfæringu fyrir því að menn hafi framið brot af ásetningi eða stórfelldu hirðuleysi.