138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[15:39]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni Unni Brá Konráðsdóttur fyrir ræðu hennar og málefnalegan málflutning og störf hennar í þingmannanefndinni.

Henni og fleiri þingmönnum sem hér hafa tekið til máls hefur orðið nokkuð tíðrætt um hversu mikið mark þingmannanefndin hafi tekið á þeim sérfræðingum sem þangað komu og að svo og svo margir sérfræðingar hafi svarað fyrir nefndinni. Það er alsiða á Alþingi að sérfræðingar komi fyrir hinar ýmsu nefndir. Ég held að það sé styrkur þingsins að fá tækifæri til að hlusta á sérfræðinga og taka afstöðu í kjölfar þess. Telur þingmaðurinn að í þessu tilfelli hafi ekki verið gagnlegt að fá sérfræðinga fyrir nefndina og ef þeir hefðu tekið afstöðu á einhvern annan hátt hefði ekki heldur átt að hlusta – eða hvað?

Annað er að hv. þingmaður, eins og raunar allir í þingmannanefndinni, tekur í stóru og smáu undir niðurstöður skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis í meginskýrslu þingmannanefndarinnar, þar með talið á bls. 35 þar sem segir, með leyfi forseta:

„Þingmannanefndin telur að nauðsynlegt hefði verið að láta fara fram ítarlega greiningu og mat á vanda íslenska bankakerfisins áður en farið var af stað í kynningarferðir og fundahöld í vörn fyrir bankana á árinu 2008.“

Nefndin segir hér að þetta hafi ekki verið gert. Engu að síður eruð þið ekki til í að láta þá ráðherra sem gerðu þetta ekki, sæta ábyrgð fyrir að hafa ekki gert þetta.