138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[16:12]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég ætti alltaf að fara eftir áliti formanns Lögmannafélagsins held ég að það yrði óskaplega lítið úr verki á þinginu, sérstaklega ef horft er til þess að ég t.d. var mjög ósammála túlkun viðkomandi varðandi hinn svokallaða gengistryggingardóm. Ég hef alla vega haft þá starfsreglu, sem ég vona að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hafi líka, að hlusta á það sem sérfræðingar hafa fram að færa í nefndum, lesa umsagnir, en lesa síðan ekki hvað síst lögin sjálf og taka út frá því mína eigin sjálfstæðu afstöðu. Það var það sem ég færði rök fyrir í ræðu minni. Sú niðurstaða sem er þar er afstaða mín, það er mín niðurstaða. Ég hlusta á það sem aðrir hafa fram að færa en síðan er þetta mín afstaða. Ég vona svo sannarlega að sama gildi um afstöðu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar þegar hann greiðir atkvæði hér, að hann muni ekki fyrst og fremst hlusta á einhverja málsmetandi menn úti í bæ heldur taka sína afstöðu sjálfur.

Varðandi það sem þingmaðurinn talaði um, að hafa ekki fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi yfir í dótturfélag og síðan leita leiða til að stuðla að framgangi þess með virkri aðkomu ríkisvaldsins. Þó að stjórnvöld og þar á meðal, held ég, nánast allir þingmenn hér innan dyra hafi haldið því fram að við berum ekki ábyrgð á eða að það sé ekki ríkisábyrgð á Icesave-reikningunum held ég að við getum öll verið sammála um að sú staðreynd að reikningunum var ekki komið í dótturfélag hefur skaðað íslenskt samfélag. Það hefur skaðað samskipti okkar við nágrannalönd okkar, það hefur gert endurreisnina erfiðari og ekki hvað síst horfi ég líka til þeirrar siðferðislegu skyldu sem Íslendingar höfðu varðandi það að erlend stjórnvöld höfðu ítrekað verið að benda á þessa hættu, benda á leiðir til að koma reikningunum yfir (Forseti hringir.) og það var hunsað.