138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[16:33]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég sagði aldrei í ræðu minni að mannréttindi hefðu verið brotin. Ég rakti hér ummæli löglærðra manna undanfarna daga og það sem þeir hefðu sagt og tók það fram að það væri ekki skrýtið þó að við hinir ólöglærðu, við leikmennirnir, velktumst í vafa um hvað væri satt og rétt. Ég hef aldrei sagt að mannréttindi væru brotin, ég sagði að lög um landsdóm og lög um ráðherraábyrgð væru í fullu gildi og eftir þeim þyrfti að fara. Mér þætti vænt um ef hv. þingmaður legði mér ekki orð í munn og segði mig segja eitthvað annað en ég hef sagt.

Ég byggi ákvörðun mína á því grundvallaratriði, sem ég þó lærði af þeim mörgu löglærðu mönnum sem ég heyrði í á þessum vikum og mánuðum, í sakamálarétti að ekki skuli gefin út ákæra nema gögn málsins séu nægileg eða líkleg til sakfellis. Frú forseti. Ég get sagt við hv. þm. Mörð Árnason: Ég komst aldrei yfir þann þröskuld að saknæmisskilyrðin væru uppfyllt. Þess vegna get ég ekki sagt já við þeim ákærum og þeim þingsályktunartillögum sem hér liggja fyrir. Ég hef, eins og ég sagði í ræðu minni, á undanförnum vikum og mánuðum ekki bara heyrt í heldur lesið fjölmargar greinar eftir löglærðra menn og sitt sýnist hverjum í þeim efnum. Eftir að hafa hlustað og lesið að grundvallaratriði í sakamálarétti sé að ekki skuli gefin út ákæra nema gögn málsins séu nægileg eða líkleg til sakfellis, og að þau þurfi að vera meira en líkleg til sakfellis til þess að ákæra sé gefin út kemst ég að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki.

Ég kem svo í síðara andsvari að þessu með stefnuna.