138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[16:38]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Alþingismenn standa nú í fyrsta sinn í þeim sporum að þurfa að taka ákvörðun um hvort stefna skuli ráðherrum fyrir landsdóm, hvort ákæra beri fyrrverandi samstarfsfélaga og samherja fyrir refsiverða háttsemi.

Ákvörðun um að kæra félaga sína fyrir refsiverða háttsemi, jafnvel þó að gild rök kunni að vera fyrir ákæru, er þungbær og erfið enda er það engin tilviljun að menn teljast almennt vanhæfir til slíkrar ákvarðanatöku undir svipuðum kringumstæðum. Stjórnarskráin er eftir sem áður skýr um þetta, ákæruvaldið er í höndum Alþingis og hversu óeðlilegt sem við teljum þetta fyrirkomulag vera verðum við að horfast í augu við að svona er þetta. Það er hlutverk okkar að ákæra ef við höfum sannfæringu fyrir því að full rök standi til þess. Kemur þá annars vegar til skoðunar mat á því hvort málsmeðferð og rannsókn málsins hafi verið fullnægjandi og hins vegar mat á því hvort athafnir eða athafnaleysi viðkomandi ráðherra falli í raun undir hátternisreglur laga um ráðherraábyrgð að viðlagðri refsingu.

Virðulegi forseti. Ég hef á löngum þingmannsferli mínum ítrekað flutt tillögur um endurskoðun og breytingar á þeirri lagaumgjörð ráðherraábyrgðar sem við búum við hér á landi og nú reynir á í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins. Hef ég þar m.a. lagt til að kannaðir yrðu kostir þess og gallar að leggja af landsdóm og að ábyrgð á hendur ráðherrum yrði þess í stað komið fyrir frammi fyrir almennum dómstólum. Því miður hafa þessar tillögur mínar ekki fengið brautargengi hjá alþingismönnum ef frá er talin þingsályktunartillaga sem ég flutti árið 1998 og fjallaði um könnun á starfsskilyrðum stjórnvalda, eftirliti með starfsemi þeirra og viðurlögum við réttarbrotum í stjórnsýslunni.

Í skýrslu nefndar sem Páll Hreinsson, nú hæstaréttardómari, veitti forustu og skipuð var í kjölfar samþykktar þessarar þingsályktunartillögu er mælt með því að ráðist verði í endurskoðun laga um ráðherraábyrgð. Var það m.a. gert með hliðsjón af þeim auknu kröfum sem gerðar hafa verið til forms og efnis refsiheimilda á síðari árum. Í því sambandi má nefna að í b-lið 10. gr. laga um ráðherraábyrgð, sem svo mjög er byggt á í ákæruskjölunum, eru mjög matskennd refsiákvæði. Þrátt fyrir þetta hefur ekki náðst samstaða á Alþingi um endurskoðun laganna og því stendur þingheimur nú í þessum sporum. Á þessu virðist þó orðin breyting nú þar sem í skýrslu þingmannanefndarinnar er lögð til endurskoðun laganna og því ber að sjálfsögðu að fagna.

Lög um landsdóm og lög um ráðherraábyrgð eru að stofni til frá aldamótum 1900. Þau voru sett á tímum konungsveldis hér á landi meðan dauðarefsing var enn í gildi og áður en konur fengu kosningarrétt. Þau draga eðlilega dám af sínum tíma. Eftir lýðveldisstofnun voru lögin þó tekin til endurskoðunar og árið 1963 vann Ólafur Jóhannesson, þáverandi lagaprófessor við Háskóla Íslands, að þeirri endurskoðun samkvæmt ákvörðun Alþingis.

Þó að það sé almennt viðhorf fræðimanna að vel hafi verið staðið að þeirri endurskoðun er það eftir sem áður álitaefni nú, hálfri öldu síðar, hvort ýmislegt í þessum lögum samræmist ríkjandi viðhorfum um réttláta málsmeðferð og vernd mannréttinda. Í því sambandi verður m.a. að hafa í huga að frá endurskoðun laganna hefur orðið mikil þróun á sviði mannréttinda og túlkun mannréttindasáttmála sem Ísland hefur undirgengist. Koma hér til skoðunar ýmis atriði sem lúta m.a. að réttarstöðu sakborninga og málsmeðferð í aðdraganda að útgáfu ákæru af hálfu Alþingis. Þá hefur landsdómsfyrirkomulagið verið gagnrýnt á þeim grundvelli að það geri ekki ráð fyrir að sakborningar geti fengið mál sitt endurskoðað á öðru dómstigi. Jafnframt hefur verið gagnrýnt hvernig skipan dómstólsins er háttað en þar eru átta dómendur af 15 kjörnir beint af Alþingi á pólitískum forsendum án skilyrða um einhverja þekkingu á lögum eða réttarfari. Þetta eitt og sér gefur tilefni til að efast um hlutleysi og hæfi dómstólsins.

Til upprifjunar má geta þess að þegar dómurinn var síðast kjörinn voru Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur með meiri hluta á Alþingi. Ég vil segja hér í dag að ég tel það landsdómsfyrirkomulag sem við búum við hér á landi, m.a. af framangreindum orsökum, afar óeðlilegt. Á þeirri skoðun hef ég verið um árabil, svo sem sjá má af ítrekuðum tilraunum mínum til að ná fram endurskoðunum og breytingum á kerfinu. Ljóst er að Alþingi verður við meðferð þessa valds sem því er falið í stjórnarskrá að gæta þess að framkvæmdin og sú lagaumgjörð sem um framkvæmdina gildir sé í samræmi við mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála, jafnvel þannig að krafa okkar til málsmeðferðarinnar verði meiri en sá gamli lagabókstafur sem um ferlið gildir.

Virðulegi forseti. Við það mat er eðlilegt og nærtækt að líta til reynslu Dana enda er danska kerfið í raun fyrirmynd hins íslenska og í öllum meginatriðum sambærilegt. Kemur þar fyrst og fremst til skoðunar hið margumrædda Tamílamál sem upp kom í Danmörku á 10. áratug síðustu aldar þar sem landsdómur Dana, ríkisrétturinn, komst að þeirri niðurstöðu að dómsmálaráðherrann hefði gerst sekur um embættisbrot. Ráðherrann lét í kjölfar dóms ríkisréttarins reyna á málsmeðferðina þar og í raun landsdómskerfið í heild sinni fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu.

Niðurstaða dómstólsins var í stuttu máli sú að ekki væru nein merki um að landsdómskerfið bryti í bága við mannréttindasáttmála Evrópu. Er það mat íslenskra fræðimanna sem um þetta hafa fjallað að þessi niðurstaða gefi vísbendingu um að landsdómskerfi okkar standist einnig mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar sem og ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu. Sterkar efasemdaraddir hafa þó komið fram í því efni. Meðal annars hefur því verið haldið fram að málin séu ekki sambærileg, hvorki að efni né umfangi.

Við nánari skoðun má sjá að nokkur munur er á því hvernig mál danska ráðherrans í Tamílamálinu svonefnda var rannsakað samanborið við þá rannsókn sem farið hefur fram hér á landi. Má þar nefna að réttarstaða hins danska ráðherra var betri og ljósari allt frá upphafi málsins enda lá fyrir strax við skipun rannsóknarnefndar að hann var grunaður um refsiverða háttsemi og gafst honum þar með betra færi á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri á öllum stigum málsins. Þá var málið rætt að hluta til fyrir opnum tjöldum hjá rannsóknarnefndinni og ráðherrann átti kost á lögmannsaðstoð sér að kostnaðarlausu. Þá gafst honum kostur á að gera athugasemd við framburð annarra vitna og hann hafði rétt til aðgangs að öllum málsgögnum.

Virðulegi forseti. Ég hef talið það rétt og eðlilegt að þingnefndin hefði leitað skriflegs álits hjá til að mynda Feneyjanefndinni sem starfar innan vébanda Evrópuráðsins, skipuð er sérfræðingum á sviði stjórnskipunarréttar og fjallar m.a. um álitaefni og löggjöf á því sviði og veitir ráðgjöf í þeim efnum. Vert hefði verið að leggja þá spurningu fyrir Feneyjanefndina hvort réttarstaða þeirra sem nú er lagt til að verði ákærðir standist nútímakröfur um mannréttindavernd sakborninga. Um það hef ég miklar efasemdir og mig undrar sérstaklega að engin sjálfstæð rannsókn eða skýrslutaka hafi farið fram í þingmannanefndinni, m.a. vegna þess að allir nefndarmenn hennar hyggjast í raun víkja frá niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar í tillögum sínum eða með því að láta hjá líða að flytja tillögu um ákærur.

Virðulegi forseti. Áður en rannsóknarnefnd Alþingis gaf út hina viðamiklu skýrslu sína um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna sendi hún 12 nafngreindum einstaklingum bréf þar sem þeim var gerð grein fyrir því að rannsóknarnefndin hefði það til skoðunar hvort þeir hefðu gerst sekir um vanrækslu eða mistök i störfum sínum og voru þau tilvik sem nefndin hafði í huga í því sambandi tilgreind nákvæmlega. Viðkomandi einstaklingum var með öðrum orðum veittur andmælaréttur áður en rannsóknarnefndin komst að niðurstöðu og eins og jafnan má búast við þegar andmælaréttur er veittur höfðu andmælin áhrif á hina endanlegu niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar. Þannig komst rannsóknarnefndin að þeirri niðurstöðu að einungis sjö af þessum 12 einstaklingum hefðu gerst sekir um vanrækslu og mistök og jafnframt má sjá af skýrslunni að andmælin höfðu áhrif á mat rannsóknarnefndarinnar á það hvaða tilvik teldust til vanrækslu og hver ekki.

Engin sambærileg málsmeðferð var viðhöfð af hálfu þingmannanefndarinnar. Að vísu fengu ráðherrar tækifæri til að koma almennum sjónarmiðum sínum á framfæri við nefndina en á engu stigi voru þeir upplýstir um það sérstaklega hvaða kæruatriði þingmannanefndin hefði til skoðunar að leggja til að þeir yrðu ákærðir fyrir. Þannig áttu hinir fyrrverandi ráðherrar þess aldrei kost að andmæla þeim kæruatriðum sérstaklega sem tiltekin voru í fyrirliggjandi ákæruskjölum. Er þetta sérstaklega alvarlegt í tilviki fyrrverandi utanríkisráðherra enda verður að telja að hún hafi mátt vænta þess að ekki yrði vikið frá niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar nema þá að hún fengi a.m.k. tækifæri til að tjá sig um það áður.

Ég minni á að það eru einungis embættisbrot sem geta varðað ráðherraábyrgð samkvæmt lögum þar um og einungis er unnt að höfða mál fyrir landsdómi gegn ráðherra út af embættisrekstri hans. Það er beinlínis afmarkað með þeim hætti í stjórnarskránni. Staða utanríkisráðherra og verksvið í stjórnskipan landsins er með þeim hætti að það er vandséð hvernig unnt er að komast að þeirri niðurstöðu að sá ráðherra hafi gerst sekur um brot í embættisrekstri sínum í aðdraganda falls íslensku bankanna. Af því leiðir einfaldlega að yfirgnæfandi líkur eru á því að fyrrverandi utanríkisráðherra verði sýknuð fyrir landsdómi ef mál hennar kemur þar til dóms. Brýnt er að þingmenn virði þá grundvallarreglu sakamálaréttar að ekki skuli ákært nema meiri líkur en minni séu taldar á sakfellingu.

Það má líka nefna þegar deilt er um hvort nægilega hafi verið gætt að réttarvernd sakborninga í þessu máli að ólíkt Tamílamálinu í Danmörku er ekki ljóst fyrr en nú á lokastigi, raunar sama dag og þingnefndin kynnir niðurstöður sínar, að þeir sem nefndir eru í ákæruskjölunum frá meiri hluta þingmannanefndarinnar séu grunaðir um refsivert brot og að þeir geti átt ákæru yfir höfði sér. Þeir hafa því að nokkru leyti staðið höllum fæti í öllum aðdraganda málsins. Ég tel að þingmannanefndin hefði átt að nýta sér þá heimild sem hún hafði samkvæmt lögum til að fara í sjálfstæða skýrslutöku og rannsókn og þar með að veita hugsanlegum sakborningum fullan andmælarétt, bæði skriflega og munnlega. Slík málsmeðferð hefði verið til þess fallin að styrkja niðurstöðu þingmannanefndarinnar til muna.

Meðal þess sem gerir það mál og það úrlausnarefni sem við stöndum nú frammi fyrir svo flókið sem raun ber vitni er að sakarefnið er ekki mjög afmarkað. Málið er til komið vegna viðamikillar rannsóknar þar sem hrun fjármálakerfis heillar þjóðar var undir þar sem leikendur voru fjölmargir á löngu tímabili. Er það m.a. frábrugðið Tamílamálinu þar sem danski dómsmálaráðherrann hafði beinlínis beitt sér gegn afgreiðslu tiltekinna mála og var sú málsmeðferð hans talin brotleg.

Ekki er hins vegar um það deilt að aðdragandi hrunsins var afar langur og allir sem að máli komu, einnig þeir sem þingsályktunartillögurnar gera ráð fyrir að verði ákærðir, spyrja sig enn í dag þeirra spurninga hvað þeir hefðu getað gert til að afstýra hruni og hvenær. Þeim spurningum verður aldrei svarað til fulls, jafnvel þó að þessir einstaklingar verði ákærðir og sakfelldir. Þá hafa fjölmörg atriði í allri málsmeðferðinni verið gagnrýnd eins og ég hef rakið. Þessi sjónarmið hljóta þingmenn að taka til skoðunar þegar þeir vega og meta þann málatilbúnað sem uppi er hafður.

Virðulegi forseti. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis liggur fyrir og viðamikil rannsókn hennar er grundvöllur þeirra ákæruskjala sem meiri hluti þingmannanefndarinnar hefur flutt hér á Alþingi. Ég dreg ekki í efa að sérhver nefndarmaður í þingmannanefndinni hafi starfað þar af fullum heilindum og fylgi sannfæringu sinni og samvisku er hann kemst að niðurstöðu um það hvort og þá hverja beri að ákæra. Það ósamræmi sem er á milli niðurstaðna þingmannanefndarinnar annars vegar og rannsóknarnefndar Alþingis hins vegar vekur þó athygli og jafnframt að hún skuli vera þríklofin í afstöðu sinni eftir flokkslínum. Þær staðreyndir veikja niðurstöðu nefndarinnar og gefa öðrum þingmönnum meira tilefni en ella til að ígrunda málið gaumgæfilega.

Þótt þau kæruatriði sem sett eru fram í fyrirliggjandi þingsályktunartillögum séu alvarleg verður að hafa það hugfast að þeir ráðherrar sem þar eru nefndir voru ekki í neinum færum á árinu 2008 til að afstýra bankahruni hér á landi. Er það raunar mat rannsóknarnefndarinnar sjálfrar að grípa hefði þurft til aðgerða svo snemma sem á árinu 2006 ef forða hefði átt hruni. Sú vanræksla sem rannsóknarnefnd Alþingis kemst að niðurstöðu um að ráðherrarnir hafi gerst sekir um lýtur að möguleikum þeirra til að takmarka tjónið þegar þeim mátti vera ljóst í hvað stefndi og athafnaleysi þeirra í því sambandi. Undir þetta hafa ýmsir sérfræðingar, stjórnmálamenn og aðrir málsmetandi menn tekið.

Eins og áður segir hef ég á löngu árabili gagnrýnt lagaákvæði um landsdóm og ráðherraábyrgð og tel það kerfi ófullkomið. Ég hef hins vegar ekki enn vikið að einum helsta ágalla laganna sem er að mínu mati hinn skammi fyrningarfrestur sem lögin byggja á. Í máli sem þessu, efnahagshruni sem átti sér margra ára aðdraganda, er vandasamt með hliðsjón af almennum sanngirnissjónarmiðum að draga þá eina til ábyrgðar sem stigu inn á sviðið í lokaþætti atburðarásarinnar. Um það er í raun ekki lengur deilt að hruninu varð ekki lengur forðað þegar komið var fram á árið 2007. Ekkert bendir til að þeir sem komu inn í lokaþættinum hafi haft annað en almannahagsmuni að leiðarljósi í störfum sínum, þeir báru langt frá því meginábyrgð á hruninu. Spyrja má: Hvað með þá sem voru við völd á meðan enn var hægt að taka í taumana svo um munaði og snúa þróuninni við?

Virðulegi forseti. Í því uppgjöri sem nú fer fram á Íslandi í kjölfar bankahrunsins og þeirra skelfilegu afleiðinga sem það hefur haft fyrir fólkið í landinu verða allir aðilar réttarvörslukerfisins að sinna hlutverki sínu af æðruleysi og virðingu fyrir réttlætinu, hvort sem það er á Alþingi í tilviki ráðherraábyrgðar, settur ríkissaksóknari í málum annarra embættismanna en ráðherra eða sérstakur saksóknari í málum eigenda og stjórnenda hinna föllnu banka.

Að öllu framangreindu virtu er það einlæg sannfæring mín að enn skorti á að hægt sé að greiða atkvæði um efnisatriði fyrirliggjandi tillagna. Það er sannarlega ekki auðvelt að afgreiða þetta mikilvæga mál í þeim farvegi sem þríklofin þingmannanefnd hefur skilið við það sem í ofanálag er í ósamræmi við niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar sem öll rannsókn málavöxtu byggist á. Í þessu sambandi bendi ég að sú góða vinna sem fram fór í þingmannanefndinni um skýrslu rannsóknarnefndarinnar leiddi til sameiginlegrar niðurstöðu nefndarinnar um orsakir og atburðarás hrunsins og þverpólitískrar sáttar um úrbótatillögur á grundvelli þeirra niðurstaðna. Sú vinna var pólitískt afrek þinginu til mikils sóma og hún mun styðja við endurreisn samfélagsins. Ég ítreka þakkir mínar til þingmannanefndarinnar fyrir hennar góða starf í öllu þessu erfiða máli.

Hæstv. forseti. Við eigum að gera ríkar kröfur til þingsins og okkar sjálfra þegar kemur að vinnslu og afgreiðslu þeirra vandmeðförnu tillagna sem hér eru til umræðu. Við verðum að gefa þessu máli meira tíma og meiri umræðu á vettvangi þingsins og freista þess að ná sameiginlegri niðurstöðu eins og um aðra þætti hrunsins. Höfum í huga að við skipan þingmannanefndarinnar tókum við meðvitaða ákvörðun um að freista þess að hefja starf nefndarinnar upp úr hinum hefðbundnu pólitísku hjólförum. Stjórnarflokkarnir afsöluðu sér meirihlutavaldi sínu á þinginu við skipan nefndarinnar og afhentu stjórnarandstöðunni meiri hluta í nefndinni. Þetta var að mínu viti rétt ákvörðun og hún bar góðan ávöxt í þeirri þverpólitísku sátt sem náðist um skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Við okkur þingmönnum blasa nokkrar augljósar staðreyndir sem við getum ekki leyft okkur að horfa fram hjá. Kerfið um ráðherraábyrgð er ófullkomið, t.d. er fyrningarfrestur það skammur að þeir sem voru við völd fyrir 2006 sleppa. Slíkt er afar ósanngjarnt. Einnig er samsetning landsdóms að hálfu leyti af pólitískum toga eins og ég hef rakið. Ekkert bendir til þess að þeir ráðherrar sem hér er fjallað um hafi haft annað en almannahagsmuni að leiðarljósi í störfum sínum. Þeir báru ekki meginábyrgð á hruninu og góðan rökstuðning þarf ef taka á út þessa tilteknu einstaklinga og refsa þeim fyrir andvaraleysi þegar orðið var um seinan að forða hruni fjármálakerfisins. Sakborningar hafa ekki notið nægjanlegrar réttarverndar eða andmælaréttar á öllum stigum málsins sem er sérlega alvarlegt í ljósi þess að sakborningar munu ekki eiga þess kost að fá mál sitt endurskoðað á öðru dómstigi. Öll framangreind atriði hljóta að hvetja Alþingi til vandaðra vinnubragða og varúðar.

Ég tel að okkur beri nú að gefa þessum hluta málsins betri tíma og að í vinnu nefndar á milli umræðna verði viðkomandi fyrrverandi ráðherrum gefinn kostur á að koma andmælum sínum betur á framfæri en verið hefur. Í starfi þingnefndar geta menn leitast við að mæta þeim málefnalegu ábendingum sem fram hafa komið, kalla til sín sérfræðinga í lögum, þá ráðherra sem grunaðir eru um vanrækslu og aðra þá sem skýrt gætu málavöxtu og styrkt niðurstöðu þingsins. Að mínu mati kæmi vel til greina að slíkir fundir yrðu opnir almenningi. Með því yrði stigið skref í þá átt að eyða efasemdum, bæði meðal þings og þjóðar.

Hæstv. forseti. Þegar 63 þingmenn eru hver og einn settir í stöðu ákæranda verða þeir hver fyrir sig að hafa fulla sannfæringu fyrir því að ákæra eigi rétt á sér eigi þeir að geta greitt henni atkvæði sitt. Alþingismenn eru kosnir til setu á Alþingi í lýðræðislegum kosningum og sérhver alþingismaður situr hér í þessum sal í umboði kjósenda. Þegar við tökum afstöðu til þingsályktunartillagna þeirra sem til umfjöllunar eru hér í dag hljótum við fyrst og fremst að vera bundin af sannfæringu okkar eins og kveðið er á um í 48. gr. stjórnarskrárinnar. Ég tel að þingmenn í hlutverki ákæranda verði að horfa á málið í miklu stærra samhengi en út frá þröngri lagatúlkun og að vissu leyti í stærra samhengi en viðbúið er að ákærandi í hefðbundnu sakamáli mundi gera.

Virðulegi forseti. Þegar fram koma raddir um að löggjöf sé gölluð, skýrleiki lagaheimilda ónógur, mannréttindi hugsanlega fyrir borð borin og þegar úrelt fyrningarákvæði koma í veg fyrir að hægt sé að ákæra þá sem voru í ráðherrastólum á tímabili orsaka hrunsins á árunum 2001–2007 verða þingmenn ekki síst að vega og meta hvað sé sanngjarnt og eðlilegt í stöðunni. Hér þarf hver að svara fyrir sig.