138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[17:00]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir ræðu hennar og rökin sem hún færði máli sínu til stuðnings. Eitt vil ég staldra við sérstaklega en hæstv. forsætisráðherra minnti á að lög um ráðherraábyrgð tækju til embættisbrota og embættisreksturs einstakra ráðherra. Samkvæmt niðurstöðu hæstv. forsætisráðherra kemur að hennar áliti þegar af þeirri ástæðu ekki til greina að gera fyrrverandi utanríkisráðherra ábyrgan fyrir því sem hér gerðist.

Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hið sama eigi ekki við t.d. um fyrrverandi fjármálaráðherra sem í ákæru er gert að sök að hafa látið undir höfuð leggjast að tryggja t.d. að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave-reikninga Landsbankans yfir í dótturfélag og að draga úr stærð íslenska bankakerfisins. (Forseti hringir.) Það liggur fyrir að fyrrverandi fjármálaráðherra hafði engar valdheimildir til að bregðast við í þeim tilteknu ákærumálum og hið sama hlýtur þess vegna að eiga við um hann.