138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[17:09]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það voru sannarlega mikil tíðindi í ræðu hæstv. forsætisráðherra. Ég get tekið undir margt sem hæstv. ráðherra sagði um nauðsyn þess að endurskoða þetta fyrirkomulag. Ég get líka tekið undir að ýmis vafamál eru uppi varðandi málsmeðferðarreglurnar sem gert er ráð fyrir að fylgt verði og hvort mannréttindi séu virt.

Ég get ekki heyrt annað en í ræðu hæstv. ráðherra felist í rauninni hörð gagnrýni á fyrirkomulagið. Ég fæ ekki betur séð en málið allt saman sé núna í töluvert miklu uppnámi. Hæstv. ráðherra lýsir því yfir að eins og staðan er núna sé ekki hægt að greiða atkvæði um málið og ég spyr þá hvað hæstv. ráðherra á við. Á að hætta við þetta allt saman að mati ráðherrans? Á að setja (Forseti hringir.) málið í annan farveg? Á að rannsaka það upp á nýtt eða er það yfir höfuð hægt eftir að ákærur eru komnar fram? Þarf þá ekki að draga (Forseti hringir.) þær til baka og hefja málið allt á nýjum grunni?