138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[17:12]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel reyndar að ef menn ætla að bæta úr þeim ágöllum á málsmeðferðinni sem hæstv. forsætisráðherra vék að, og ég get að mörgu leyti tekið undir, þá þurfi Alþingi Íslendinga að ráðast í töluvert miklar lagabreytingar til að mögulegt verði að bæta úr því sem hæstv. forsætisráðherra telur að sé vanbúið í löggjöf okkar.

Ég tel jafnframt að það sé heldur seint í rassinn gripið nú þegar ákærurnar eru komnar fram — það er búið að leggja til að hæstv. fyrrverandi ráðherrar verði ákærðir — að í kjölfarið, á milli umræðna, fari fram heildstæð rannsókn. Ég er sammála hæstv. forsætisráðherra um að heildstæð rannsókn þurfi að fara fram (Forseti hringir.) en ég tel að það þyrfti að taka málið allt saman upp á nýjum grundvelli og þá í samræmi (Forseti hringir.) við margt af því sem hæstv. forsætisráðherra nefndi.