138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[17:13]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki miklu við það að bæta sem ég sagði áðan. Ég sagði að ég teldi að það hefði átt að fara fram ítarlegri rannsókn og að þeir sem lagt er til að verði ákærðir fengju að koma fyrir þingmannanefndina með andmæli vegna þeirra ákæruatriða sem talin eru upp í ákæruskjalinu. Ég tel að það sé vel tími til þess á þeim tíma sem við höfum í mánuðinum til að gera það.

Ég sagði líka að ég hefði talið eðlilegt að farið hefði fram ítarlegri rannsókn en raun bar vitni þegar til stóð að víkja frá því sem rannsóknarnefndin lagði til og líka þegar ljóst var að leggja átti til að ákæra einn fyrrverandi ráðherra sem rannsóknarnefndin lagði ekki til. Þá var því meiri ástæða til að veita henni andmælarétt. En ég tel að við getum vel lokið málinu á þessum tíma og það er öllum fyrir bestu að klára það sem fyrst en við verðum þó að gefa okkur þann tíma sem þarf (Forseti hringir.) til að nefndarmenn geti skoðað athugasemdirnar sem fram hafa komið í umræðunni.