138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[18:11]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Við erum komin nokkuð áleiðis í þessari umræðu en það eru þó nokkrir þættir sem er rétt er að árétta að svo komnu máli og eins atriði sem þörf er á að gera frekari skil. Það er því ljóst að það er þó nokkuð eftir af þessari umræðu enda er málið þess eðlis að það hlýtur að fá mjög yfirgripsmikla og greinargóða umræðu í þinginu. Það gengur ekki að ætla að rumpa þessu máli af með einhverjum hætti. Þó að mörgum kunni að þykja þetta óþægilegt og erfitt mál að eiga við er það þess eðlis að þingmenn og þingið sem slíkt þurfa að taka það mjög alvarlega og takast á við það með þeim hætti.

Í því sambandi vil ég benda á að í þessari umræðu hefur oft verið vitnað til Tamílamálsins svokallaða í Danmörku. Málsmeðferð á þingi tók marga mánuði eftir að tillaga kom fram um ákærur. Ég er ekki endilega að tala um það en það sýnir hvernig danska þingið taldi á sínum tíma að fara þyrfti vandlega yfir málið þótt fram væri komin skýrsla sem væri grundvöllur ákæru. Það taldi sig þurfa verulega mikinn tíma til að fara yfir það enda var um að ræða töluvert sögulegt mál þar eins og þetta mál er hér. Eins og margoft hefur verið rifjað upp er þetta í fyrsta sinn sem tillaga kemur fram á Alþingi um að Alþingi beiti ákæruvaldi sínu gegn ráðherra, í þessu tilviki fyrrverandi ráðherrum, og kalli saman landsdóm.

Ég ætla ekki að fjalla um landsdómsfyrirkomulagið sem slíkt. Aðrir hafa gert það og í sjálfu sér er viðfangsefni okkar í dag fyrst og fremst að ræða hvernig við sem þingmenn bregðumst við fram komnum tillögum á grundvelli þeirra laga sem við störfum eftir. Það er hins vegar mikilvægt að hafa í huga að þær athugasemdir sem gerðar hafa verið við landsdómsfyrirkomulagið og gagnrýni sem komið hefur fram á það, m.a. út frá réttaröryggis- og mannréttindasjónarmiðum, — þau sjónarmið hafa komið fram í opinberri umræðu, m.a. á síðustu dögum, raunar eru þau sjónarmið ekki ný af nálinni en þau hafa komið víða fram að undanförnu — eru sjónarmið sem mun reyna á í réttarhöldum, komi til þeirra fyrir landsdómi. Það er alveg klárt. Til þeirra mun landsdómur þurfa að taka afstöðu og eftir atvikum, ef svo ber undir, kynni málið að enda hjá Mannréttindadómstóli Evrópu vegna einhverra þátta sem ég ætla svo sem ekki að fara nánar út í. Það er gott að vita þetta en það breytir ekki því að við í þinginu þurfum að taka afstöðu til þessara ákærutillagna eins og þær liggja fyrir og meta þær út frá því hvort þær eru fullnægjandi til að taka afstöðu til, hvort þær gefa okkur tilefni til að höfða mál á hendur þremur eða fjórum fyrrverandi ráðherrum og krefjast refsingar vegna atvika sem áttu sér stað í tengslum við bankahrunið.

Í ráðherraábyrgðarmálum hefur Alþingi ákæruvaldið. Það er mjög sérstakt fyrirkomulag en það leggur hins vegar á okkur þingmenn þá skyldu að taka afstöðu til ákæru út frá sömu sjónarmiðum og almennt eiga að gilda þegar verið er að taka afstöðu til ákæru í sakamálum. Það er óumdeilt að í landsdómsmálum eða málum gegn ráðherrum á grundvelli ráðherraábyrgðarlaganna gilda öll meginsjónarmið sakamálaréttarfarsins með þó þeim undantekningum sem er að finna í skýrum ákvæðum landsdómslaganna. Það segir okkur að öll almennu sjónarmiðin, meginsjónarmiðin sem liggja til grundvallar réttarfarslögum í tilviki sakamála eiga við hér, þar á meðal um hvernig meta ber þá afdrifaríku ákvörðun hvort farið er út í ákæru.

Í mínum huga er það tvennt sem skiptir mestu máli í því sambandi, það eru tvö meginatriði sem við þurfum að hafa í huga þegar við gerum það upp við okkur hvort við styðjum það að ákært verði eða hvort við höfnum því: Annars vegar hlýtur fyrst og fremst að koma til sú meginregla sem er bæði lögfest en hefur líka um langa hríð verið ólögfest, að ákærandi skuli horfa jafnt til þeirra þátta sem horft geta til sektar og sýknu og því aðeins að fara út í ákæru ef taldar eru meiri líkur á sakfellingu fyrir dómi en sýknu. Það er meginregla. Það hafa margir þingmenn áréttað í þessari umræðu en því miður hafa sumir, einkum nokkrir flutningsmenn tillögunnar, gefið í skyn, bæði beint og óbeint, að einhver önnur sjónarmið hafi haft eða eigi að hafa áhrif á niðurstöður þeirra, einhver önnur sjónarmið en mat á því hvort líklegt sé að ákæra muni leiða til sakfellingar. Til sögunnar hafa verið nefnd pólitísk sjónarmið, sjónarmið um almenningsálit og þess háttar. Ég ætla ekki að fara nánar út í það, það hafa aðrir gert, en í mínum huga er þingmönnum ekki heimilt að láta slík sjónarmið hafa áhrif á afstöðu sína í málum. Að láta svona sjónarmið hafa áhrif á sig gengur þvert gegn grundvallarreglunni og sjónarmið af þessu tagi eru í mínum huga fullkomlega ómálefnaleg þegar við tökumst á við hvort ákæra skuli og hefja skuli meðferð máls fyrir landsdómi með það að markmiði að ná fram refsingu.

Við megum ekki gleyma því að þó að umgjörð landsdóms sé sérstök að því leyti að til hans er að hluta til kjörið á pólitískum forsendum og þó að þeir einstaklingar sem sætt geta ákæru á grundvelli landsdómslaga séu í pólitískum stöðum á pólitíkin samt sem áður ekki að ráða því hvort við ákærum eða ekki. Landsdómur mun ekki taka afstöðu á pólitískum forsendum. Landsdómur hefur ekki heimild til að dæma á neinum öðrum forsendum en stífum lagalegum forsendum.

Þegar við stöndum frammi fyrir ákæru megum við heldur ekki gleyma því að það er grundvallarregla í sakamálaréttarfari að allan vafa, bæði varðandi málsatvik og lagaleg atriði, ber að túlka hinum ákærða í hag. Það er nauðsynlegt að minnast þess þegar við tökum afstöðu til þess hvort fram eru komnar nægar sannanir eða nægar líkur til að ætla megi að landsdómur muni sakfella í máli af þessu tagi. Allan vafa ber að túlka hinum ákærða í hag. Það þýðir líka að sönnunarbyrðin er á ákæruvaldinu varðandi þá þætti sem ágreiningur kann að verða um. Það mun t.d. reyna á það í máli af þessu tagi hvort ákæruvaldið geti sýnt fram á að ásetningur eða stórfellt gáleysi hafi verið á ferðinni hjá þeim einstaklingum sem kunna að verða ákærðir. Það er ekki þeirra að sýna fram á sakleysi sitt. Það er ekki þeirra að sýna fram á að þeir uppfylli ekki saknæmisskilyrðin í þessu máli. Ákæruvaldið þarf að sýna fram á að þeir hafi framið brot, annaðhvort af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Það hlýtur, eðli málsins samkvæmt, að leiða til þess að við nálgumst málið af varfærni.

Sama á við um túlkun refsiheimilda. Sönnunarbyrðin er á ákæruvaldinu varðandi að refsiheimildirnar séu nægilega skýrar í þeim málum sem um er að ræða. Það mun reyna á það, bæði hvað varðar b-lið 10. gr. ráðherraábyrgðarlaganna sem nokkuð hefur verið fjallað um, og eins varðandi c-lið 8. gr., í báðum tilvikum. Það verður hlutverk ákæruvaldsins að sýna fram á að refsiheimildirnar séu nægilega skýrar og ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það. Það hefur verið vitnað til þess oft í þessari umræðu að það hefur verið samdóma mat þeirra sem fjallað hafa um þessi ákvæði, fyrst og fremst 10. gr., b-lið 10. gr. þar á meðal, að þarna sé um að ræða matskennt ákvæði sem þyrfti að skýra betur í ljósi þess að dómstólar hafa gert sífellt meiri kröfur til skýrleika refsiheimilda. Nokkuð hefur verið deilt um hvort b-liður 10. gr. sé svo ófullkominn að hann geti ekki verið grundvöllur ákæru. En ég minni á í því sambandi að frá upphafi hefur legið fyrir að þarna er um matskennt ákvæði að ræða. Frumvarpshöfundur, Ólafur Jóhannesson, nefnir það sérstaklega í greinargerð með frumvarpinu að þarna sé um matskennt ákvæði að ræða, hann sagði það árið 1963. Í þeim skrifum sem hægt er að nálgast um efnið frá síðari tímum er þess jafnan getið að um sé að ræða matskennt ákvæði sem þurfi að skýra í ljósi réttarþróunarinnar og aukinna krafna sem dómstólar gera til skýrleika refsiheimilda.

Það er rétt að geta þess nánast í neðanmálsgrein að það hefur í sjálfu sér ekki verið sérstakur ágreiningur um það á síðustu árum að a-liður 10. gr. væri ófullnægjandi. Fræðimenn sem um það hafa skrifað hafa verið nokkuð sammála um að a-liðurinn væri svo ófullkominn að hann gæti ekki orðið grundvöllur í refsimáli. En um b-liðinn hafa menn ekki tekið jafnafdráttarlausa afstöðu. En engu að síður hefur í mörgum skrifum um þetta efni — ég get, eins og þingmenn hafa gert, vitnað í skýrslu um starfsskilyrði stjórnvalda frá 1999, ég get vitnað í fyrirlestur Eiríks Tómassonar frá árinu 2005, raunar líka grein Róberts Spanós frá 2005 og skýrslu sem unnin var fyrir forsætisnefnd Alþingis um eftirlitshlutverk Alþingis frá 2009. Alls staðar er þess getið að um sé að ræða matskennt ákvæði sem þurfi að skýra í ljósi réttarþróunarinnar.

Um c-lið 8. gr. hefur verið miklu erfiðara að finna einhver fræðiskrif og ég hygg að ástæðan fyrir því sé sú að fram til þessa hafi menn ekki haft hugmyndaflug til að það mundi reyna sérstaklega á mat í þessu sambandi. Í 8. gr. c-lið er fjallað um brot ráðherra á stjórnarskránni en í þessu máli er ákært á grundvelli þess að 17. gr. stjórnarskrárinnar hafi verið brotin með því að taka ekki mál formlega til meðferðar á ríkisstjórnarfundum. Um það vil ég segja að þegar ákært er til að ná fram refsingu vegna brota á stjórnarskránni er í mínum huga ljóst að það þarf að vera um talsvert skýrt brot að ræða þannig að svoleiðis ákæra fengi staðist. En ég verð að segja að 17. gr. stjórnarskrárinnar er að mínu mati alls ekki nægilega skýr, hún gefur alls ekki nægilega skýra mynd af hlutverki ríkisstjórnarfunda og verkefnum þeirra eða ráðherrafunda til að hægt sé að byggja á henni sem refsiheimild.

Svo kemur að því sem enn og aftur er ákæruvaldsins að sanna, það er hvort hægt sé að heimfæra athafnir eða athafnaleysi, í þessu tilviki væntanlega fyrst og fremst athafnaleysi, til tilgreindra refsiákvæða. Um það má auðvitað hafa langt mál en að mínu mati tekst það ekki í þeim skjölum sem hér liggja fyrir, annars vegar í greinargerð með ákærutillögum hv. þm. Atla Gíslasonar og fleiri og hins vegar hv. þm. Magnúsar Orra Schrams og hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur. Mér finnst ákærutillögurnar vera afar þokukenndar hvað þetta varðar. Það er að vísu vísað í dæmaskyni til tiltekinna funda, tiltekinna aðgerða sem hefði átt að grípa til, en meginþunginn liggur hins vegar í mjög óskilgreindum og ótilgreindum ráðstöfunum sem grípa hefði átt til og erfitt er að sjá hvernig hægt er að festa hönd á nokkru í því sambandi. Það er hægt að fara nánar yfir það en ég hygg, eftir að hafa kynnt mér málið á þeim tíma sem til ráðstöfunar var, að þarna sé um að ræða afar erfiða sönnunarfærslu fyrir ákæruvaldið að sýna fram á að meint athafnaleysi ráðherra á þessu tímabili sé hægt að heimfæra undir þau refsiákvæði sem um er að ræða.

Í fyrsta lagi er í því sambandi nauðsynlegt að skoða hvort það sem gert var á því tímabili þegar hættumerki voru orðin ljós hafi verið rétt. Það sá svo sem enginn fyrir hrunið, það sá enginn fyrir þá gríðarlegu keðjuverkun á alþjóðlegum fjármálamörkuðum sem á endanum batt enda á líf íslensku bankanna með þeim afleiðingum sem við öll þekkjum. Það voru hættumerki á fjármálamarkaði, en að halda því fram, eins og lesa má út úr ákæruskjölunum, að ekkert hafi verið gert á þessu tímabili stenst enga skoðun. Það er atriði sem þarf að gera miklu betri grein fyrir og gefa miklu meiri tíma áður en þessari umræðu lýkur.

Ég vil að lokum ítreka það sem kom fram í andsvörum fyrr í dag, mér finnast ýmsir hv. þingmenn sem um þessar ákærur hafa fjallað tala um þær af nokkurri léttúð. Meðal annars finnst mér gæta nokkurs misskilnings varðandi það sem gerist þegar ákæra hefur verið samþykkt á Alþingi, fari svo að hún verði samþykkt. Um það efni eru ráðherraábyrgðarlögin nokkuð skýr að því leyti að í 13. gr. segir að sókn málsins sé bundin við þá ákæru sem samþykkt er á þingi. Það hlýtur að takmarka mjög svigrúm saksóknara sem í venjulegu sakamáli væri nokkur til að breyta ákærunni frá útgáfu og þar til málið er þingfest. Ég get ekki séð annað en það þrengi svigrúm hans verulega að því leyti. Sókn málsins er bundin við þá ákæru sem samþykkt er á þingi.

Það er líka rétt að hafa í huga að síðari aðkoma þingsins er afar takmörkuð enda hefur verið samdóma álit manna í þeim skrifum sem ég hef lesið um þetta mál að þegar Alþingi hefur samþykkt ákærutillögu sína er málið komið úr höndum þingsins og þingið getur t.d. ekki afturkallað ákæru. (Forseti hringir.) Það eru sjónarmið sem komið hafa fram í fræðiskrifum og ekki verið mótmælt svo mér sé kunnugt um.

En það eru fleiri þættir, hæstv. forseti sem ég mundi vilja koma inn á en neyðist til að gera (Forseti hringir.) það í síðari ræðu og eftir atvikum síðari umræðu ef tilefni gefst til.