138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[18:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um málshöfðun gegn ráðherrum. Ég lenti í því á netinu um daginn að ætla að svara fyrirspurn sem var þannig: Ertu sáttur við eða ósáttur við störf þingmannanefndar Alþingis? Og, frú forseti, ég gat ekki svarað vegna þess að ég er bæði mjög sáttur við störf þingmannanefndar Alþingis og ég er einnig mjög ósáttur við störf þingmannanefndarinnar, þ.e. hluta hennar. Þetta held ég að sé kannski ein ástæðan fyrir þeim mikla misskilningi sem er í gangi. Ég er mjög sáttur við það sem þingmannanefndin fór í gegnum í skýrslu rannsóknarnefndar og kom með mjög góðar tillögur til úrlausnar, mjög góðar, og var með mjög harða dóma um einmitt störf ráðherra, eins og reyndar kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, þessari stóru. Ég vil undirstrika það að ég er mjög ánægður með störf þingmannanefndarinnar að þessu leyti sem horfir til framtíðar. Framtíðarvinnan er góð þó að eflaust mætti bæta þar um betur og sérstaklega þar sem þingmannanefndin var bundin af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og gat ekki tekið inn atriði sem vantaði þar inn, eins og t.d. erlend matsfyrirtæki, erlenda banka sem lánuðu peninga til Íslands mjög óvarlega og síðan galla eða veilur sem eru í hlutabréfaforminu, sem ég held að sé kannski ein aðalástæðan fyrir hruninu.

Frú forseti. Ég var kosinn á þing til að gæta ákveðinna pólitískra mála og það var mjög pólitískt kjör. Ég ætlaði mér að setja lög um þjóðfélagið sem hlýtur að vera mjög pólitískt. Hvort menn hafi vinstri eða hægri stefnu, hvort menn byggi marga spítala eða setji lög sem örva einstaklingsframtakið eða leggi á meiri skatta sem drepa niður einstaklingsframtakið eða eitthvað slíkt, þetta er mjög pólitískt. Síðan er ég hérna til að veita fjárveitingar. Á að byggja spítala, á að byggja veg, á að byggja flugvöll o.s.frv.? Ég hef því verið í mjög pólitísku starfi. Svo hef ég veitt ríkisstjórnum eftirlit, líka þegar ég studdi ríkisstjórn, þá spurði ég ráðherra um eitt og annað sem mér þótti þurfa að fá svar við og veitti þeim eftirlit. Það var líka mjög pólitískt að ég spurði að sjálfsögðu um þau mál sem ég hafði áhuga á og vildi koma fram. Nú er ég allt í einu kominn, frú forseti, í hlutverk sem mig óraði ekki fyrir þegar ég bauð mig fram til þings, ég er orðinn ákærandi, ég er orðinn saksóknari og er að kæra menn eða sækja þá til saka fyrir að hafa framið glæp og það er það sem þetta snýst allt hér um.

Undanfara áratugi eða í heila öld hefur verið mikil umræða um mannréttindi. Sú umræða hefur verið vaxandi og gerð hefur verið meiri krafa til mannréttinda núna en fyrir heilli öld, t.d. að það sé ekki sami aðili sem rannsakar og kærir og dæmir o.s.frv. Það er frægt dæmi sem kom upp og fór fyrir Mannréttindadómstól Evrópu þar sem Íslendingar urðu að breyta allri framkvæmd í málum sem teljast frekar minni háttar mál, en þetta var gert af því að menn vilja hafa meiri mannréttindi.

Eitt af því er að menn eiga rétt á er að mæta fyrir hlutlausum dómstól. Ég stórefa að sá dómstóll sem við erum að búa til hér eða ákæran geti verið hlutlaus, hún getur að sjálfsögðu ekki verið hlutlaus. Það eru stjórnmálamenn sem eru að kæra aðra stjórnmálamenn. Þeir geta verið sammála þeim eða ósammála í vissum málum en þeir eru alltaf annaðhvort sammála þeim eða ósammála. Ég hef alla vega upplifað það á Alþingi að sumir hv. þingmenn hafa orðið mjög reiðir hér í ræðustól einmitt út í þá menn sem þessir sömu hv. þingmenn eru að kæra. Ég nefni til sögunnar hæstv. ráðherra Ögmund Jónasson. Hann hefur stundum verið mjög reiður hér í ræðustól. Hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon hefur líka verið mjög reiður og gengið hér á menn, kannski eðlilega af því að hann var lengi í stjórnarandstöðu. Nú er hann, þessi sami maður, að ákæra. Hann verður einn af þessum 63 sem tekur ákvörðun um hvort hann ætli að ákæra. Ég stórefa að þessi ákæra sé hlutlaus og ég stórefa að dómstóllinn sem er kosinn á Alþingi geti verið hlutlaus, en það er fyrsta krafan um réttláta málsmeðferð.

Svo er þetta að menn rannsaki bæði kosti og galla. Mér finnst menn ekki hafa rannsakað kosti eða þau málsatvik sem nýttust þeim sem á að fara að kæra. Nú veit ég það ekki því að það er leynd yfir þessum skjölum, ég er búinn að fara í gegnum þau og sá t.d. að einn ráðgjafinn gat þess að það ætti að kæra en hann gat þess strax í byrjun bréfs síns að það ætti að rannsaka og það var ekki gert.

Svo hafa sumir sagt að það eigi bara að kæra fólk til að það geti borið af sér sakir. Þá fer nú heldur að færast hiti í umræðuna því að það er hægt að kæra hvaða mann sem er í þjóðfélaginu, maður getur kært alla skipstjóra fyrir brottkast af því að það er grunur um að þeir hafi hent afla. Það gæti komið upp sú umræða að það ætti bara að kæra þá svo að þeir geti borið af sér sakir og verið þá sýknaðir af brottkasti. Ég er ansi hræddur um að það leiddi til mikilla og slæmra réttarhalda.

Svo er það að þegar menn eru yfirheyrðir eru þeir annaðhvort yfirheyrðir sem vitni eða í stöðu grunaðs manns, það er grundvallaratriði, frú forseti. Það var ekki gert. Þeir sem eru ákærðir hafa ekki einu sinni enn þá, formlega séð, stöðu grunaðs manns. Þau hafa ekki fengið að svara til saka eða koma með sínar málsbætur. Þetta brýtur allar reglur mannréttinda um réttláta málsmeðferð.

Svo er annað sem ég er alveg logandi hræddur við, frú forseti. Frá og með laugardeginum megum við eiga von á því að eftir hver stjórnarskipti, sérstaklega þegar verða algjör stjórnarskipti, verði hér dómsmál þar sem nýr meiri hluti kærir fráfarandi ráðherra fyrir eitt og annað. Það er alltaf þannig að það er eitthvað sem vekur upp spurningar. Ég fékk margar spurningar upp í kollinn og vildi jafnvel kæra sjálfur sem borgari aðildarbeiðni um ESB. Hún er bara eitt lítið plagg, hún er fjórar línur: Íslenska lýðveldið sækir um aðild að Evrópusambandinu, punktur. Og ef sambandsríkin, 27 ríki mundu senda bréf til baka um að þau samþykki er Ísland orðið aðili að Evrópusambandinu. Það er enginn fyrirvari, ekki neitt í þessu bréfi, sem hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir og hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson skrifuðu undir.

Mér fannst þetta mjög furðulegt plagg, það var ekki einu sinni beðið um viðræður. Þær hafa reyndar átt sér stað en það var ekki beðið um þær. Það var ekki minnst á þingsályktun Alþingis sem umsóknin þó byggði á. Það var ekki minnst á þjóðaratkvæðagreiðslu sem sumir segja að eigi að skipta einhverju máli en aðrir vita að skiptir engu máli. Þjóðaratkvæðagreiðslan skiptir engu máli vegna þess að þingmenn eiga samkvæmt gildandi stjórnarskrá, og við höfum svarið eið að henni og engri annarri, að greiða atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni. Ég reikna með því að hún verði óbreytt um alla framtíð þannig að þeir þingmenn sem verða kosnir eftir slíka þjóðaratkvæðagreiðslu greiði atkvæði eftir sannfæringu sinni og ekki eftir skipunum frá kjósendum sínum. Þó að þjóðin samþykkti aðild að fullu munu margir þingmenn samt sem áður greiða atkvæði gegn því og hugsanlega meiri hluti eða öfugt. Þjóðaratkvæðagreiðslan hefur því ekkert að segja og ég ætla að biðja menn að halda sig við það að segja að hún hafi ekkert að segja.

Svo er það að sjálfsögðu stjórnarskráin sjálf sem lögspekingar segja að banni aðild að Evrópusambandinu. Það má vel vera að einhverjum detti í hug að kæra þá sem skrifuðu undir þetta plagg eða veittu því brautargengi fyrir að hafa brotið stjórnarskrána þarna með ákveðnum hætti, ekki fyrir að gera ekki neitt eða fyrir eitthvað sem þeir áttu að hafa gert, nei, þeir gerðu það þarna, 16. júní 2009 var skrifað undir þetta plagg.

Síðan er það Icesave, það var líka skrifað undir það 5. júní 2009. Sumir fullyrða, og það er hægt að færa rök fyrir því vegna þess að aðdragandinn var svo stuttur, að margir ráðherrar hafi ekki einu sinni lesið plaggið sem þeir fólu fjármálaráðherra að skrifa undir, fyrir utan að það var á ensku, frú forseti, það var ekki búið að þýða það. Það er heilmikill doðrantur sem skrifað var undir. Og að menn hafi verið búnir að átta sig á því alveg í hörgul hvernig þetta mundi virka held ég að sé ekki nokkur leið að rökstyðja. Það má færa rök fyrir því að einhverjir ráðherrar hafi hugsanlega veitt heimild til að skrifa undir plagg sem þeir vissu ekki hvað þýddi, sem hefði haft alveg gífurleg áhrif á íslenska þjóð. Svona hlutum geta menn velt fyrir sér.

Loks er umhverfisráðherra núna talinn hafa brotið lög, ég ætla ekki að dæma um það, en fráfarandi ráðherrar geta átt von á því í framtíðinni að fá á sig kæru fyrir eitt og annað. Þess vegna óttast ég að eftir að þessi kæra kom fram þar sem landsdómur var loksins vakinn til lífsins eftir sirka 100 ára svefn sé það sending sem menn ráði ekki við, þá sé búið að vekja upp draug sem hugsanlega geti komið í bakið á þeim. Ég ætla að vona ekki en hættan er mjög mikil.

Hér hefur verið rætt um Tamílamálið og danskan landsdóm. Ég var að lesa þessi leyndargögn, frú forseti, þetta er dálítið mikið skjal um Tamílamálið og ég get ekki séð með nokkrum lifandi hætti að það sé eitthvert leyndarmál. En ég las þetta þarna í glerbúrinu bæði á laugardag og sunnudag og reyndi að glöggva mig á þessu. Þar virðist hafa farið fram gífurlega mikil rannsókn og maðurinn, viðkomandi ráðherra, fékk stöðu sakbornings frá fyrsta degi. Það var rannsakað og hann svaraði og var með sinn lögfræðing o.s.frv. og þetta voru að því leyti réttlát réttarhöld. Mig minnir að málsskjölin eða vitnaleiðslurnar hafi verið um 2.000 síður, þetta var rannsakað í tvö ár eða lengur. Nú er ég ekki með þetta allt saman, ég hefði gjarnan viljað hafa skjalið fyrir framan mig til að lesa úr því en ég er ekki með það af því að það er leyndarmál.

Það var allt annar bragur á því og það var dæmt vera í lagi fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Hér er hins vegar kært fyrst og svo er rannsakað og mér sýnist að það sé reginmunur á þessu. Menn eru sem sagt ekki enn þá komnir með réttarstöðu grunaðs manns og það er viðbúið að þetta mál taki mjög langan tíma, gæti tekið 2–3 ár. Það verður mjög þungbært fyrir viðkomandi einstaklinga og ég ætla að vona að enginn hlakki yfir því. Það verður mjög þungbært að standa í því að verja sig í 2–3 ár, hafa jafnvel ekki fjármuni til að borga vörnina vegna þess að menn missa vinnuna og það ræður enginn fyrrverandi ráðherra sem er fyrir landsdómi, ekki til eins eða neins. Þetta verður því mjög þungbært fyrir viðkomandi ráðherra og menn verða að gera sér grein fyrir því þegar þeir ákveða að fara að kæra.

Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson hélt góða ræðu og hann sagði að hann vildi sjá einhvers staðar vandlætingu á störfum ráðherra. Hún er nú heldur betur komin fram, frú forseti. Rannsóknarnefnd Alþingis skilaði frábærri skýrslu. Hún var mjög skýr og berorð. Hún sagði að ráðherrar hefðu brugðist og hver vill sjá svoleiðis eftirmæli eftir sig, frú forseti? Er það ekki heilmikill áfellisdómur? Er það ekki heilmikil vandlæting á störfum ráðherra? Og ekki nóg með það, frú forseti, þingmannanefndin sem vann mjög gott starf kemur með samantekt á þessum ávirðingum á ráðherrana. Það er því búið að sýna vandlætingu á störfum þeirra, heldur betur. Þetta eru opinber plögg sem verða um aldur og ævi geymd um störf þessara fjögurra ráðherra. Ég mundi telja að það sé heldur betur búið að sýna vandlætingu. Og það er ekki hægt að samþykkja vantraust á þetta fólk því að það er allt saman hætt. Sum eru meira að segja hætt í pólitík. Ég mundi telja að það sé búið að refsa nóg og þurfi ekki að fara í svona vafasamar æfingar eins og þessi ákæra er því að hún er mjög vafasöm.

Í fyrsta lagi það sem stýrir minni afstöðu mjög mikið, það er fyrir og eftir hrunið. Eftir á er maður alltaf voðalega vitur. Maður veit nefnilega hvað gerðist. Núna veit ég að allt bankakerfið á Íslandi hrundi. (Gripið fram í.) Ég veit það og flestir Íslendingar vita það líka. Það er enginn vandi að segja: Þarna hrundi eitthvað og við heimtum að einhver beri ábyrgð. Vissulega, en fyrir hrun vissi það enginn. Ég fullyrði að það vissi enginn að þrír íslensku bankarnir mundu hrynja fyrir 10. október. Meira að segja daginn fyrir hrun Kaupþings var á göngum Alþingis mikill æsingur og læti, þá voru tveir bankanna farnir og þá sögðu menn: Þetta er svakalegt að tveir bankar hafi hrunið en Kaupþing mun standa, það er svo sterkt. Það sögðu menn daginn fyrir hrun Kaupþings. Auðvitað vissu einhverjir meira. Ég geri ráð fyrir að forráðamenn Kaupþings hafi vitað betur miðað við allt sem hefur komið í ljós síðan. En þetta töldu menn að væri staðan. Hvernig í ósköpunum átti það fólk sem var að taka ákvarðanir áður að vita að í október yrði hrun og það yrði heldur betur að drífa sig í aðgerðirnar sem það ætlaði koma með? Menn töldu að þeir hefðu kannski ekki mikinn tíma en svona sæmilegan og voru að vinna í því út um allt öndvert við það sem haldið er fram í ákærunni. Þeir voru nefnilega að vinna í því út um allt í samskiptum við erlend ríki, að reyna að fá lán hér og lán þar og reyna að sveigja bresk eftirlitsyfirvöld til að taka þetta yfir. Þar var við ramman reip að draga og þetta gekk ekki. En það var heilmikið gert þannig að það er rangt að það hafi verið algert aðgerðaleysi.

Ég ætlaði að fara í gegnum þessar ákærur. Ég hef kannski ekki mikinn tíma til þess en mér finnst að þessar ákærur séu allar — það er t.d. verið að kæra hér fyrir brot af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi. Hverjum dettur í hug að Geir H. Haarde hafi af ásetningi ætlað að kollkeyra íslenska þjóð? Hverjum dettur það eiginlega í hug? Þá er ég illa svikinn. Eða af stórkostlegu hirðuleysi? Maðurinn var svo nákvæmur í því sem hann var að gera og reyndi út um allt, var á fullu. Hann var ekki í sumarbústað, hann var ekki að veiða lax. Nei, hann var á fullu að reyna að bjarga, ég fullyrði það. Svo getur vel verið að einhver hafi sagt: Ég er meiri snillingur en Geir H. Haarde, ég hefði fundið lausnina. Það er nefnilega málið. Svo er hér sagt að honum hefði átt að vera kunnugt um þessa hættu. Auðvitað var honum kunnugt um einhverja hættu en að hún væri svona svakaleg gat hann ekki vitað. Við vitum það núna og hann veit það núna en ekki þá.

Svo er hérna fagleg greining o.s.frv., ef einn bankanna hefði flutt höfuðstöðvar sínar úr landi. Ég hugsa bara að margir hefðu verið á móti því að Kaupþing flytti höfuðstöðvar sínar úr landi af því að menn vissu ekki meira. Af hverju vissu þeir ekki meira? Þeir máttu ekki vita það. Ef þeir hefðu vitað að Kaupþing stæði svona illa, eins og sumir vissu, væri Kaupþing komið á hausinn. Það er nefnilega hið vandasama fjöregg, jafnvægið sem menn verða að dansa, að um leið og þeir segja eitthvað, þá gerist það. Ef þeir segja að staða bankanna sé svona slæm, þá verður hún slæm. Daginn eftir eru þeir farnir á hausinn og þá sætum við hérna og værum að kæra menn fyrir að hafa sett þá á hausinn. Þetta er allt saman mjög skrýtið.

Og svo það að halda ekki fundi og ræða þessi mál. Ég hef grun um að þar hafi menn hreinlega óttast lausmælgi af því að þetta voru svo rosalega viðkvæm mál. Það mátti ekki kvisast hver staðan var. Þess vegna urðu menn að segja úti um allt að staðan væri sæmileg. Það er bara nauðsynlegt. Þeir sem ekki skilja það hafa aldrei nokkurn tíma komið nálægt rekstri eða bankastarfsemi.

Þá er það spurningin mikla svona á lokamínútunni: Hefði ég gert annað, frú forseti, í þeirra stöðu, af því að ég á að fara að kæra þá fyrir það sem gerðu ekki eða það sem þeir gerðu? Ég er ekki alveg viss um að ég hefði getað gert eitthvað betur, ég er ekki viss um það. Og aðrir þingmenn sem hér ætla að fara að samþykkja að kæra þetta fólk, því að þetta er fólk, þetta eru ekki einhverjar fígúrur, verða að hugleiða það hvort þeir hefðu gert betur í stöðunni, og þá held ég að þeir séu farnir að gera ansi mikið úr sjálfum sér og gera miklar kröfur til annars fólks.